Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 155/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 91. gr. — 93. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. og 3.ml. — 100. gr. 5. mgr. — 106. gr. 1. mgr. l.ml. — 118. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Framtalsfrestur — Viðbótarframtalsfrestur — Áætlun — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Rökstuðningur — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Félag löggiltra endurskoðenda — Skil á framtali — Fylgigögn skattframtals — Efnahagsreikningur — Skattframtal ófullnægjandi

Málavextir eru þeir, að skattstjóri tók skattframtal kærenda árið 1986 sem kæru samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 13. apríl 1987, þar sem hann hafnaði því að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 á framtalinu með því að enginn efnahagsreikningur fylgdi því, sbr. 91. gr. nefndra laga. Skattstjóri lækkaði hins vegar með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum áætlaða skattstofna kærenda frá því sem hann hafði ákveðið við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986. Í kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1986 hafði umboðsmaður kærenda mótmælt því, að skattframtal kærenda árið 1986 hefði ekki borist í framtalsfresti. Vísaði hann til bréfs, dags. 15. maí 1986, sem stjórn Félags löggiltra endurskoðenda hefði sent félagsmönnum, þar sem þeim væri tilkynnt, að munnlegt samkomulag hefði verið gert við skattstjóra allra umdæma þess efnis, að einstaklingar í atvinnurekstri yrðu ekki beittir álagi bærust framtöl á ákveðnum degi í júní, sem hefði í Reykjavík verið 5. júní 1986. Þessari frestveitingu hefði verið sett það skilyrði, að listar yrðu sendir Skattstofu Reykjavíkur eigi síðar en 21. maí 1986. Í trausti þessa samkomulags hefði umboðsmaðurinn boðsent skattframtöl í þessum fresti. Flest framtölin hefðu fengið venjulega meðferð og rétta álagningu, en skattstofnar kærenda í máli þessu hefðu hins vegar verið áætlaðir og álagi beitt. Þessari málsmeðferð væri mótmælt og þess krafist, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 án tafar. Kærunni fylgdi umrætt bréf stjórnar Félags löggiltra endurskoðenda.

Með kæru, dags. 12. maí 1987, skaut umboðsmaður kærenda kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og boðaði, að nánari rökstuðningur yrði sendur við fyrsta tækifæri. í bréfi, dags. 14. maí 1987, gerði umboðsmaður kærenda grein fyrir því, að þau hefðu byggt tvö sumarhús árið 1985. Þegar hús þessi hefðu verið seld, hefði rekstri þessum verið slitið og skuldir vegna starfseminnar yfirteknar. Þá var í bréfinu gerð grein fyrir efnahagsreikningi pr. 31.12. 1985, en þar eð niðurstöður hans enduðu á núlli hefði hann ekki verið látinn fylgja. Umboðsmaðurinn getur þess, að við yfirfærslu skulda á persónuframtal hefðu fallið niður áætluð opinber gjöld 37.839 kr. og fer fram á, að það verði leiðrétt.

Með bréfi, dags. 2. mars 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og fyrirliggjandi gögnum fellst ríkisskattstjóri á að innsent framtal verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda 1986 þó þannig að 25% álag sem skattstjóri úrskurðaði standi óhaggað enda þykja hvorki kærendur né umboðsmaður þeirra hafa fært að því rök að ekki hafi verið unnt að skila framtali innan tilskilins frests. Í gögnum málsins er ekki að finna ljósrit af lista þeim sem senda átti skattstjórum fyrir tiltekinn tíma, sbr. bréf F.L.E. til endurskoðenda, og því ekki unnt að staðreyna hvort nöfn kærenda hafi verið á þeim lista. Meðan svo er þykir ekki annað fært en að krefjast staðfestingar á álagsbeitingu skattstjóra.“

Skattframtal kærenda árið 1986 barst skattstjóra 5. júní 1986 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Leit skattstjóri svo á, að skattframtalið hefði eigi borist innan tilskilins framtalsfrests og áætlaði kærendum skattstofna til álagningar opinberra gjalda við frumálagningu þeirra gjaldárið 1986. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1986, krafðist umboðsmaður kærenda þess, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 án álags, enda hefði framtalið borist innan veitts frests svo sem hann gerði grein fyrir. Þessar staðhæfingar umboðsmanns kærenda fengu enga úrlausn af hendi skattstjóra í úrskurði hans, dags. 13. apríl 1987, er þannig hefur eigi gætt ákvæða 3. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Skattstjóri byggði á því, að framtalið væri fram komið að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið og tók það sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Í kæruúrskurði sínum, dags. 13. apríl 1987, hafnaði hann framtalinu af þeim ástæðum, sem fyrr eru greindar. Með vísan til þess, sem fram kemur um framtalsfresti árið 1986 í kæru umboðsmanns kærenda, dags. 26. ágúst 1986, til skattstjóra fær þessi málsmeðferð eigi staðist. Við það þykir verða að miða, að skattframtalið hafi borist skattstjóra í veittum viðbótarframtalsfresti árið 1986. Bar skattstjóra því að skora á kærendur að bæta úr þeim annmörkum, er hann taldi vera á framtalinu, áður en hann hafnaði því og áætlaði kærendum skattstofna, væri áskorun eigi sinnt, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að virtri allri meðferð skattstjóra á máli þessu og með vísan til fram kominna skýringa kærenda eru kröfur þeirra teknar til greina. Vegna kröfugerðar ríkisskattstjóra í máli þessu skal tekið fram, að það er embættisins að styðja þargreinda vefengingu gögnum. Skattframtal kærenda er móttökustimplað af skattstjóra 5. júní 1986 og er staðhæfing ríkisskattstjóra með öllu ósönnuð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja