Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 166/1988
Sölugjald 1985
Reglugerð nr. 486/1982 — 14. gr. 6. tl. Lög nr. 10/1960 — 7. gr. 1. mgr. 4. tl. — 21. gr. 2. mgr. og 6. mgr.
Söluskattur — Söluskattsskylda — Söluskattsálag — Niðurfelling álagsbeitingar — Afsakanlegar ástæður — Skattrannsókn — Skattrannsóknarstjóri — Söluskattsskil — Bifreiðaþjónusta — Húsnæðisafnot — Húsaleiga — Söluskattsundanþága
Málavextir eru þeir, að af hálfu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra fór fram athugun á söluskattsskilum kæranda fyrir rekstrarárið 1985. Skýrsla rannsóknardeildar um athugun þessa er dagsett 13. janúar 1987 og liggur hún fyrir í máli þessu. Á umræddu tímabili seldi kærandi aðstöðu til viðgerða og viðhalds bifreiða svo og gosdrykki, varahluti og bifreiðavörur. Niðurstaða rannsóknardeildar af athugun þessari var sú, að ekki hefði verið greiddur söluskattur af gjaldi fyrir húsnæðisaðstöðu, er talin væri með heildarveltu á söluskattsskýrslum og dregið frá undir liðnum „sala skattfrjálsrar vöru og þjónustu". Var gerð töluleg grein fyrir því í skýrslunni, að söluskattsskyld velta væri af fyrrgreindum ástæðum vantalin um alls 1.778.136 kr. árið 1985.
Með bréfi, dags. 27. apríl 1987, sendi ríkisskattstjóri kæranda fyrrgreinda skýrslu og boðaði honum jafnframt með vísan til skýrslunnar og niðurstaðna hennar, að ákvörðuð yrði söluskattsskyld velta fyrir söluskattstímabilin janúar til og með desember 1985 til viðbótar áður framtalinni söluskattsskyldri veltu og sölugjald hækkað til samræmis við þá ákvörðun að viðbættu álagi skv. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Var kæranda gefinn frestur til þess að koma að mótmælum sínum, gögnum og skriflegum skýringum til 12. maí 1987.
Í svarbréfi, dags. 11. maí 1987, mótmælti umboðsmaður kæranda því, að fyrrgreind velta 1.778.136 kr. væri söluskattsskyld. Til vara fór hann fram á niðurfellingu álags, sbr. 6. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Svofelldan rökstuðning er að finna í þessu bréfi umboðsmanns kæranda:
„Umbj. minn rak þjónustu við bifreiðaeigendur þar sem þeir gátu komið með bifreiðir sínar, þvegið þær og bónað og framkvæmt smávægilegar lagfæringar á þeim, einnig er þar bifreiðaeigendum leigður aðgangur að bifreiðalyftu og þeim selt bón, hreinsiefni og fleira smávegis svo sem gos, sælgæti o.fl.
Umbj. mínir greiddu söluskatt af öllum viðskiptum bifreiðaeigenda við þá nema leigu fyrir bifreiðastæði í húsinu og er það staðfest í skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra sbr. 1. mgr. kafla þeirrar skýrslu, þar sem segir „Við athugun rannsóknardeildar kom í ljós að ekki hafði verið greiddur söluskattur af gjaldi fyrir húsnæðisaðstöðu, sem talin er með í heildar veltu á söluskattsskýrslum og dregið frá undir liðnum „Sala skattfrjálsrar vöru og þjónustu““.
Umbj. minn og löggiltur endurskoðandi hans voru í góðri trú með það að leiga fyrir bifreiðastæði í nefndu húsi sé undanþegin söluskatti og studdust þeir þar við reglugerð nr. 486 frá 1982 um söluskatt sbr. 6. og 19. tl. 14. gr. reglugerðarinnar.
Í 6. tl. er talið að leiga fasteigna sé undanþegin söluskatti er þar átt bæði við fasteignaleigu og húsaleigu almennt og í 19. tl. 2 er leiga fyrir bifreiðastæði undanþegin söluskatti.
Eins og gefur augaleið er leigutími sá sem bifreiðaeigendur höfðu af afnot húsnæðis hjá umbj. mínum ekki langur, frá því að vera hluti úr degi og hugsanlega í nokkra daga eða nokkrar vikur. Umbj. minn taldi að tímalengdin skipti ekki máli og vísar hann í því sambandi í 6. tl. 14. gr. reglugerðar um söluskatt, og telur hann að rekstur sinn geti flokkast undir 1. málslið c-liðar 2 í 6. tl. 14. gr.
Einnig telur umbj. minn að 19. tl. 2, í 14. gr. taki af öll tvímæli um söluskattsleysi hans af nefndri útleigu bifreiðastæða til bifreiðaeigenda en þar segir að stöðumælagjald sé undanþegið söluskatti, svo og önnur leiga fyrir bifreiðastæði.
Umbj. minn telur að hér sé um að ræða leigu á bifreiðastæðum og að slík leiga sé tvímælalaust undanþegin söluskatti.
Rétt er að taka fram að umbj. minn eða starfsmenn hans inntu ekki af hendi neina vinnu fyrir þá bifreiðaeigendur sem að leigja bifreiðastæði í húsnæði hans.
Til vara hefur umbj. minn farið fram á að fellt verði niður álag sbr. 21. gr. laga nr. 10 frá 1960 sbr. 6. málsgrein þeirrar greinar en hann telur sig hafa verið í góðri trú er hann taldi leigu þá á bifreiðastæðum sem um er að ræða ósöluskattsskylda.“
Með úrskurði, dags. 21. maí 1987, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda, að honum hefði verið ákvörðuð söluskattsskyld viðbótarvelta vegna ársins 1985, er skiptist á söluskattstímabil þess árs skv. því sem í úrskurðinum greindi, alls 1.778.136 kr. Tók ríkisskattstjóri fram, að ekki yrði á það fallist með umboðsmanni kæranda, að sala á aðstöðu til viðgerða og viðhalds bifreiða væri undanþegin söluskattsskyldu á grundvelli 6. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 486/1982, um húsaleigu, enda miðaðist ákvæði þetta við útleigu á húsnæði til íbúðar, gistingar eða atvinnurekstrar. Ekki yrði talið, að sala á viðgerðar- og viðhaldsaðstöðu fyrir bifreiðaeigendur félli undir þetta ákvæði. Þá vitnaði umboðsmaðurinn í 19. tl. 14. gr. reglugerðarinnar og segði þar koma fram, að stöðumælagjald og leiga fyrir bifreiðastæði væri undanþegið söluskatti. Hér væri væntanlega um tilvitnun að ræða í Handbók um söluskatt bls. 65, þar sem þetta kæmi fram (úrsk. fjármálaráðuneytis). Þessi undanþága yrði ekki talin eiga við um sölu kæranda á aðstöðu til viðgerða og viðhalds bifreiða. Því yrði að telja, að ekki hefði verið sýnt fram á, að sala kæranda á viðhalds- og viðgerðaraðstöðu fyrir bifreiðar væri undanþegin söluskatti. Þá yrði ekki talið, að skilyrði væru til niðurfellingar álags skv. 6. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt. Með vísan til þessa og skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra væri kæranda gert að greiða sölugjald af framangreindri söluskattsskyldri viðbótarveltu ásamt álagi.
Með kæru, dags. 25. maí 1987, mótmælti umboðsmaður kæranda þessum úrskurði ríkisskattstjóra og krafðist aðallega niðurfellingar á þar ákvörðuðu viðbótarsölugjaldi 351.814 kr. auk álags alls 264.745 kr. Til vara var krafist niðurfellingar álagsins 264.745 kr. Vísaði umboðsmaðurinn til bréfs síns til skattstjóra, dags. 11. maí 1987. Með kæruúrskurði, dags. 19. júní 1987, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda, bæði aðalkröfu og varakröfu, með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar.
Kæruúrskurði ríkisskattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. júní 1987, og gerir hann sömu kröfur og við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra með skírskotun til rökstuðnings í bréfi, dags. 11. maí 1987, til ríkisskattstjóra.
Með bréfi, dags. 8. febrúar 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Sú starfsemi kæranda, sem hann hefur ekki greitt söluskatt af felst í sölu á aðstöðu til viðgerða og viðhalds bifreiða. Hér er ekki um húsaleigu að ræða, enda verður ekki séð að viðskiptamenn kæranda öðlist neinn þann rétt yfir húsnæði kæranda sem jafna má til réttinda leigjenda húsnæðis né bera þeir sömu skyldur.“
Í máli þessu er út af fyrir sig enginn ágreiningur um fjárhæð þeirrar viðbótarveltu til söluskatts, sem þar er fjallað um heldur einungis um söluskattsskyldu vegna veltu þessarar. Jafnframt er útreikningur sölugjalds af veltunni ágreiningslaus. Eigi verður á það fallist, að sú starfsemi kæranda, sem lýst er í málinu, sé undanþegin sölugjaldi hvorki á grundvelli 4. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, sbr. 6. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 486/1982, um söluskatt, né annarra réttarheimilda. Þá þykja eigi hafa verið færðar fram þær ástæður, er geti gefið tilefni til niðurfellingar álags skv. ákvæðum 6. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt. Með þessum athugasemdum er hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra staðfestur að því er tekur til hins kærða sölugjalds, en varakröfu kæranda um niðurfellingu álags er vísað frá að svo stöddu.