Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 168/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 32. gr. 5. tl. — 33. gr. — 38. gr. 7. tl. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2.ml. — 106. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Stofnkostnaður — Fyrningarhlutföll — Fyrning — Fyrningartími — Fyrnanleg eign — Kæranleg skattákvörðun — Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Kæra síðbúin — Vítaleysisástæður — Rekstrartap, yfirfæranlegt

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986 og sætti hann því áætlun skattstjóra við frumálagningu opinberra gjalda það ár að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu skattstofna skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kæranda árið 1986 hafði borist skattstjóra hinn 16. júlí 1986 eða að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið. Tók skattstjóri skattframtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 4. maí 1987. Skattstjóri féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 að viðbættu 15% álagi vegna síðbúinna framtalsskila skv. heimildarákvæðum 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og með breytingum varðandi fyrningu stofnkostnaðar 340.181 kr. Vísaði skattstjóri til úrskurðar síns, dags. 2. júní 1986, varðandi gjaldárið 1985. Þar hefði frádrætti vegna fyrningar stofnkostnaðar verið hafnað á þeirri forsendu, að rekstur væri ekki hafinn, sbr. 33. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Höfnun fyrningarfrádráttar gjaldárin 1984 og 1985 hefði leitt til lækkunar yfirfæranlegra rekstrartapa til næsta árs á framtali 1985 úr 715.899 kr. í 187.245 kr. Þá gerði skattstjóri grein fyrir þeim breytingum, sem þetta hefði haft í efnahagsreikningi kæranda pr. 31. desember 1984 og tók fram, að úrskurður þessi hefði ekki verið kærður til hans. Með því að forsendur væru óbreyttar frá því sem var, þegar nefndur úrskurður var uppkveðinn yrðu hliðstæðar breytingar gerðar á skattframtali árið 1986. Fyrning 340.181 kr. væri felld niður. Hagnaður yrði 313.993 kr. í stað taps áður 26.188 kr. Ónotuð töp frá fyrri árum færð til frádráttar í framtali 1986 hefðu numið 921.219 kr. en yrðu 240.946 kr. Fastafjármunir hefðu verið tilfærðir 680.363 kr. en yrðu 1.700.906 kr. Endurmatsreikningur hefði verið (38.148) kr., en yrði (17.594) kr.

Með kæru, dags. 11. júní 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess, að innsend skattframtöl verði látin óhögguð standa og opinber gjöld lögð á í samræmi við þau. í kærunni segir svo:

„Ég vil benda á, að það sem skattstjórinn kallar fastafjármuni er samkvæmt bókum félagsins stofnkostnaður. Ljóst er að stofnkostnaður er ekki áþreifanleg eign og verður aldrei nýttur til öflunar tekna. Ljóst er því, að 33. gr. skattalaga getur ekki átt við í þessu tilviki.

Í 7. tölulið 38. greinar skattalaga stendur: „Fyrning eigna samkvæmt þessum tölulið er heimil í fyrsta skipti á því ári þegar eignanna er aflað eða lagt er í kostnað þeirra vegna." Undir þessum tölulið í skattalögunum stendur einnig: „Stofnkostnað skv. 5. tl. 32. gr. er heimilt að færa að fullu til frádráttar tekjum á því ári þegar hann myndast.“ Ljóst er af framansögðu að úrskurðir skattstjórans í Reykjavík dags. 2.6.1986 og 4.5.1987 eru í engu samræmi við gildandi skattalög. Að lokum viljum við taka fram að samkv. 53. gr. skattalaga myndar verðbreytingafærsla ekki tekjuskattsstofn hjá skattaðila þegar heildarskuldir eru hærri en heildareignir. Ljóst er að skattstjóri er að skattleggja verðbreytingartekjur í þessu tilviki og er það ekki rétt.

Við biðjumst velvirðingar á því hve kæran berst seint, en það stafar af því, að skrifstofunni var lokað í byrjun árs 1983 og hafa úrskurðir skattstjórans í Reykjavík því ekki borist umbjóðanda mínum. Við framtalsgerð 1987 kemur í ljós, að skattar hafa verið lagðir á félagið. Þegar farið var að kanna hvað þetta var, þá fengum við ljósrit af þessum úrskurðum þann 10.6.1987. Af framansögðu er ljóst að við höfðum ekki tök á að kæra fyrr. Það er von okkar að í ljósi framansagðs verði kæran tekin fyrir þó hún sé of seint fram komin.“

Með bréfi, dags. 10. mars 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún virðist of seint fram komin.

Telji ríkisskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan meintan formgalla er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með vísan til þeirra skýringa, sem fram koma í kæru, þykir mega taka hana til efnismeðferðar, þótt hún hafi borist að liðnum kærufresti. Vegna kröfugerðar kæranda í máli þessu skal tekið fram, að breytingar þær, sem skattstjóri ákvarðaði hinn 2. júní 1986 voru eigi kærðar til hans og liggur því enginn kæranlegur úrskurður fyrir, sem tekur til þeirra. Verða þær því eigi til úrlausnar í úrskurði þessum. Með vísan til 2. mgr. 7. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er krafa kæranda tekin til greina þó þannig, að lækkun skattstjóra á tilfærðu rekstrartapi frá fyrri árum stendur óhögguð, þar eð ákvörðun hans, dags. 2. júní 1986, var ekki kærð svo sem fyrr segir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja