Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 178/1988
Gjaldár 1987
Reglugerð nr. 406/1978 Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 74. gr. 1. mgr. 1. tl. — 95. gr. 2. mgr. Lög nr. 74/1976 Lög nr. 3/1878 — 10. gr.
Dánarbú — Lögaðili — Sjálfstæð skattskylda — Sjálfstæð skattskylda dánarbús — Skipti — Skipti dánarbúa — Dánarfé — Fasteignamatsverð — Eignarskattsstofn — Fasteign — Áætlun — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kæruréttur
Málavextir eru þeir, að skattstjóri áætlaði kæranda eignarskattsstofn við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 á þeim grundvelli, að um væri að ræða dánarbú, er skipt væri hér á landi, sbr. 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki hafði verið talið fram af hálfu kæranda og tilkynnti skattstjóri dánarbúinu með bréfi, dags. 28. júlí 1987, að skattstofnar gjaldáríð 1987 hefðu verið áætlaðir. Skv. gögnum málsins andaðist arfláti, hinn 10. október 1986.
Með bréfi dóttur hinnar látnu, dags. 20. ágúst 1987, fylgdi skattframtal dánarbúsins árið 1987. Skv. framtalinu hafði búið engar tekjur og eina tilgreinda eign þess var húseign að fasteignamati í árslok 1986 257.000 kr. Var þess getið, að húseign þessi væri ónýtt timburhús, er staðið hefði ónotað árum saman. Hefði X-hreppur samþykkt að taka það af skrá og rífa það.
Með kæruúrskurði, dags. 21. september 1987, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 án álags og ákvarðaði eignarskattsstofn 257.000 kr.
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 5. október 1987, er þess krafist af kæranda hálfu, að álagður eignarskattur og eignarskattsauki samtals að fjárhæð 3.085 kr. verði niður felldir með þeim rökum, er fram komu í kærunni til skattstjóra. Kærunni fylgir bréf X-hrepps, dags. 29. september 1987, þar sem fram kemur, að hreppsnefnd hafi hinn 28. september 1987 samþykkt að láta rífa og fjarlægja húsið.
Með bréfi, dags. 23. mars 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar eð kæruefni þetta á ekki undir úrskurð nefndarinnar.“
Kærandi kærir álagðan eignarskatt og eignarskattsauka gjaldárið 1987. Af kröfugerð ríkisskattstjóra verður eigi ráðið, hvað það er, sem að áliti þess embættis firri kæranda kærurétti til ríkisskattanefndar. Frávísunarkröfu ríkisskattstjóra er hafnað. Óumdeilt er að eina eign kæranda sé húseignin er metin var til fasteignamatsverðs á 257.000 kr. í árslok 1986, en eigi virðist hafa verið leitað eftir leiðréttingu þess mats m.t.t. þess, sem upplýst er um eign þessa, sbr. ákvæði laga nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, og reglugerðar nr. 406/1978, um fasteignaskráningu og fasteignamat. Þegar litið er til þess, sem fyrir liggur í máli þessu um dánarfé búsins, sbr. bréf X-hrepps og skýringar umboðsmanns kæranda, verður eigi talið, að í þessu tilviki sé um dánarbú að ræða, er sæti skiptum, sbr. 10. gr. laga nr. 3/1878, skiptalaga, og fellur því eigi undir 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skv. þessu er fallist á kröfu kæranda.