Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 194/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 54. gr. 1. mgr. — 106. gr.  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Bundinn reikningur — Binditími — Innlánsstofnun — Viðskiptabanki — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Álag vegna vantalins skattstofns — Úttekt af fjárfestingarsjóðsreikningi

I

Málavextir eru þeir, að gjaldárið 1986 dró kærandi fjárfestingarsjóðstillag að fjárhæð 92.100 kr. frá tekjum sínum til skatts, sbr. samræmingarblað, er fylgdi skattframtali hans árið 1986.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 1987, fór skattstjóri fram á það við kæranda, að hann legði fram staðfestingu frá innlánsstofnun, er sýndi hvenær fjárfestingarsjóðsreikningur hefði verið myndaður og innlagða fjárhæð, sbr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Gefinn var 12 daga svarfrestur. Með bréfi, dags. 20. febrúar 1987, sendi kærandi reikningsyfirlit yfir fjárfestingarsjóðsreikning við X-banka. Skv. yfirlitinu höfðu 50.000 kr. verið lagðar inn á reikninginn hinn 27. maí 1986 og fjárhæðin ásamt vöxtum og verðbótum eða alls 53.420 kr. tekin út hinn 27. nóvember 1986.

Með bréfi, dags. 26. febrúar 1987, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að færa honum fyrrgreint fjárfestingarsjóðstillag til skattskyldra tekna í reit 62 í skattframtali hans árið 1986 auk 25% álags á hækkun skattstofna, sem af þessu leiddi, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Forsendur skattstjóra fyrir þessu voru svohljóðandi:

„Á ársreikningi með skattframtali yðar 1986 var tillag í fjárfestingarsjóð kr. 92.100 dregið frá skattskyldum tekjum yðar og bar yður því að hafa helming þeirrar fjárhæðar á bundnum reikningi í sex mánuði a.m.k. frá 1. júní 1986 að telja skv. ákvæðum 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981.

Á yfirliti frá X-banka dags. 31.12.1986, sést að þér tókuð hina bundnu fjárhæð á fjárfestingarsjóðsreikningi út þann 27. nóvember 1986.“

Með bréfi, dags. 2. mars 1987, fór kærandi fram á, að fyrirhuguð tekjufærsla vegna úttektar bundinnar innstæðu á fjárfestingarsjóðsreikningi yrði látin niður falla. Kærandi kvaðst hinn 27. desember 1986 hafa beðið sparisjóðsdeild X-bankans að annast millifærslu á bundinni innstæðu vegna tillags í fjarfestingarsjóð inn á hlaupareikning sinn í sama banka, þegar heimild væri til þess skv. lögum, enda hefði verið fyrirhugað að leysa fjárfestingarsjóðinn upp á árinu. Fjárhæðin hefði samdægurs verið færð inn á hlaupareikninginn. Þetta hefði ekki samræmst ákvæðum laga um tímamörk og hefði munað 4 dögum, en bankinn hefði millifært féð samdægurs. Kærandi varpar því fram, hvort bönkum beri ekki skylda til að framfylgja lögum í slíku tilfelli, enda hefði skýrt verið tekið fram við innlegg, að það væri vegna fjárfestingarsjóðs. Einnig mætti spyrja, hver ætti að bera skaðann af slíkum mistökum. Hann hefði engan hag haft af því, að millifærslan var framkvæmd 4 dögum of fljótt. Einu áhrif millifærslunnar hefðu orðið þau, að staðan á hlaupareikningnum hefði verið 127.003 kr. í lok mánaðarins í stað 73.583 kr. sem ella hefði orðið. Með bréfinu fylgdu gögn um þessar ráðstafanir.

Með bréfi, dags. 20. mars 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1986 vegna niðurfellingar umrædds frádráttar vegna fjárfestingarsjóðstillags 92.100 kr. og hækkunar tekna um samsvarandi fjárhæð að viðbættu 25% álagi. Tók skattstjóri fram, að lagaheimild skorti til þess að taka tillit til þess misskilnings, er fram kæmi í bréfi kæranda, dags. 2. mars 1987.

Með kæru, dags. 15. mars (sic) 1987, er barst skattstjóra 21. apríl 1987, mótmælti kærandi breytingum skattstjóra og krafðist niðurfellingar á þeim gjaldahækkunum, sem skattstjóri hafði ákvarðað. Kvaðst kærandi vilja ítreka það, að umrædd bankainnstæða vegna fjárfestingarsjóðsfrádráttar hefði í raun verið bundin í bankanum í rúma 6 mánuði, þó svo að um millifærslu milli bankareikninga hefði verið að ræða eins og fram hefði komið í bréfi, dags. 2. mars 1987.

Með kæruúrskurði, dags. 22. maí 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda um að frádráttur vegna fjárfestingarsjóðstillags yrði tekinn til greina. Kæmi skýrt fram í 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, hver væru skilyrði fyrir frádráttarbærni fjárfestingarsjóðstillags, þ.e.a.s. að innborganir séu bundnar í sex mánuði frá og með fyrsta degi næsta mánaðar eftir innborgunarmánuð. Hins vegar féllst skattstjóri á að falla frá beitingu álags skv. heimildarákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981 með tilliti til þess, hvernig málið lægi fyrir.

I

Kæruúrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. júní 1987. Krefst hann þess, að breytingar skattstjóra verði niður felldar og vísar til rökstuðnings í bréfum sínum til skattstjóra, dags. 2. mars 1987 og 15. mars (sic) 1987. ítrekar kærandi, að hann hafi falið X-banka að annast millifærslu af fjárfestingarsjóðsreikningi sínum, þegar hann hefði uppfyllt skyldur sínar skv. lagaákvæðum um slíkan reikning.

III

Með bréfi, dags. 10. mars 1988, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

V

Kærandi uppfyllti eigi skilyrði 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, um binditíma innborgunar á bundinn reikning við X-banka og var umrædd innstæða tekin út 27. nóvember 1986 skv. gögnum málsins. Þykir því bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra, enda þykja skýringar kæranda á tildrögum umræddra ráðstafana eigi fá breytt þessari niðurstöðu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja