Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 201/1988

Söluskattur mars og apríl 1986

Reglugerð nr. 486/1982 — 7. gr. — 10. gr. 3. og 4. tl. — 14. gr. 4. tl.   Lög nr. 10/1960 — 7. gr. 3. tl. — 9. gr. — 21. gr. 2. mgr. 1. og 2. tl.  

Söluskattur — Söluskattsskyld velta — Heildarandvirði — Molun — Hörpun — Tilboðsverk — Verksamningur — Vélavinna — Akstur

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á sölugjaldi vegna söluskattstímabilanna mars og apríl 1986. Byggði skattstjóri þá ákvörðun sína á því að „heildarsöluverð á hörpun og mölun efnis fyrir Vegagerð ríkisins er söluskattsskyld sala“ og óheimilt sé „að draga tilkostnað við efnisvinnsluna frá útsöluverði þar sem söluskattur leggst á endanlegt verð vörunnar, vinnunnar eða þjónustunnar, þó svo um tilboðsverk sé að ræða. Akstur og þ.h. er eingöngu frádráttarbær, sé hann seldur sérstaklega“, svo sem frá segir í bréfi skattstjóra dags. 25. júní 1986.

Af hálfu kæranda er þess krafist fyrir ríkisskattanefnd að umrædd ákvörðun skattstjóra verði felld niður þar sem með henni hefði kæranda verið gert að greiða söluskatt af skattfrjálsri þjónustu.

Með bréfi, dags. 10. mars 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Sá þáttur í starfsemi kæranda sem hér um ræðir felst í mölun á grjóti og er starfsemin söluskattsskyld. Meginregla söluskattslaga er sú að öll heildarvelta samkvæmt verksamningi myndar stofn til söluskatts, sbr. 9. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt, sbr. 3. og 4. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 486/1982. Ekki er hægt að fallast á þá aðferð kæranda að telja einungis reiknaða vélanotkun til söluskattsstofns. Ekki verður heldur fallist á að kærandi hafi heimild til að draga frá heildarveltu þann kostnað sem hann telur sig hafa af flutningi tækja sinna milli vinnustaða, uppsetning aðstöðu á vinnustað o.fl. Þessir liðir eru kostnaðarliðir í starfseminni og mynda hluta í verði hinnar seldu vinnu, sbr. fyrrnefnt ákvæði söluskattslaganna.“

Eftir því sem fram kemur í gögnum máls þessa um verk þau sem kærandi tók að sér fyrir Vegagerð ríkisins er ljóst að talsverður þáttur í þeim hafi verið fólginn í flutningum sem undanþegnir eru söluskatti. Eigi leit skattstjóri til þess við hina kærðu endurákvörðun sína. Þá þykir mál þetta tölulega vanreifað af hálfu aðilja þess. Þegar til þessa er litið þykir eigi verða hjá því komist að fella að svo stöddu alfarið niður hinar kærðu sölugjaldshækkanir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja