Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 238/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 51. gr. — 106. gr. 1. mgr. 2. ml.  

Rekstrarkostnaður — Vaxtagjöld — Reiknað endurgjald — Úttekt úr rekstri — Rekstrarskuldir — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Síðbúin framtalsskil — Vítaleysisástæður — Gengismunur

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986. Þann 4. júlí 1986 barst skattstjóra skattframtal kærenda árið 1986 samkvæmt áritun hans á það um móttöku þess. Með framtalinu fylgdi bréf frá umboðsmanni kæranda þar sem hann fór fram á að álagi vegna síðbúinna framtalsskila yrði ekki beitt þar sem þau stöfuðu af veikindum hans. Skattstjóri tók framtalið sem skattkæru og kvað upp kæruúrskurð dags. 23. mars 1987. Eru forsendur hans svohljóðandi:

„Meðf. innsendu framtali kærenda er ársreikningur útgerðar, sem er einkarekstur þeirra. Við skoðun á framtali og ársreikningi kom m.a. eftirfarandi í ljós: Á árinu eru reiknuð laun I. við útgerðina kr. 600.000,- og Þ. kr. 300.000,- en úttekt þeirra úr rekstri er kr. 5.970.210,-. Á framtali í reit 62 er talin fram hagnaður af útgerð kr. 666.818,- og er það í fyrsta sinn á 6 ára tímabili sem rekstrartekjur koma til skattlagningar. Í ár er fyrsta árið sem Þ. eru reiknuð laun, en ekki eru gefnar skýringar á vinnuframlagi hennar, og um árabil hafa reiknuð laun I. verið óskiljanlega lág og fyrir neðan framfærslumörk, enda ekki í samræmi við úttekt úr rekstri, sbr. ár 1984 reiknuð laun kr. 227.000,- úttekt úr rekstri kr. 969.367,-, og ár 1983 reiknuð laun kr. 214.544,- úttekt úr rekstri kr. 549.476,-. Úttekt eigenda umfram framtalinn hagnað og reiknuð laun vegna vinnuframlags er ekki greiðsla á kostnaði vegna öflunar tekna atvinnurekstrar, heldur úttekt fjármuna úr rekstri vegna þeirra eigin þarfa. Úttektin er fjármögnuð með lántökum atvinnurekstrar og í rekstrarreikningi eru gjaldfærðir vextir og verðbætur kr. 5.108.576,89. Skattstjóri getur ekki fallist á að vextir af lánum vegna einkaþarfa eigenda sé rekstrarkostnaður vegna öflunar tekna útgerðar í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 og því frádráttarbær kostnaður. Fjármagnskostnaður ársins á þessum hluta lána er því áætlaður kr. 2.220.000,- og gjaldfærðir vextir og verðbætur útgerðar lækkaðir um sömu fjárhæð í kr. 2.888.576,89. Að gerðri breytingu verður hagnaður ársins kr. 14.643.742,36 og hreinar tekjur af atvinnurekstri færðar í reit 62 á tekjuframtali I. kr. 3.886.818,-. Jafnframt er greinargerð um aðstöðugjaldsstofn leiðrétt og gjaldstofn lækkaður í kr. 33.521.556,-.

Skattstjóri hefur ákveðið að nýta sér heimild sína skv. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 til beitingar 15% álags á gjaldstofna. Umboðsmaður kæranda hefur hvorki sannað eða gert sennilegt með framlagningu gagna að þau málsatvik hafi verið til staðar, er hann ber fyrir sig, né fært að því rök að orsakasamband sé milli veikinda sinna og síðbúinna framtalsskila nú er leiði til þess að fella beri niður álag samkvæmt ákvæðum 3. mgr. greinarinnar, þ.e. að um einstakt tilfallandi tilvik sé að ræða sem sé afleiðing veikinda.“

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 21. apríl 1987 og fylgdi henni kröfugerð í bréfi dags. 23. júní 1987. Eru þar svofelldar kröfur gerðar:

„1. Lækkun vaxtagjalda um kr. 2.220.000,- verði felld niður.

2. 15% álag á gjaldstofna verði fellt niður.

Til vara er farið fram á að stofn til verðbreytingarfærslu 31/12 1984 verði leiðréttur.“

Með bréfi dags. 2. desember 1987 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Skattstjóri þykir eigi hafa sýnt fram á að kærandi, eiginmaður, hafi í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1985 offært vaxtagjöld, þ.m.t. gengismun af þeim langtímaveðskuldum, sem tilfærðar eru á efnahagsreikningi. Er því fallist á fyrri lið aðalkröfu kæranda.

Eftir atvikum er álagsbeiting skattstjóra felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja