Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 241/1988

Gjaldár 1987

Skattskylda — Ótakmörkuð skattskylda — Takmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Lögheimili — Hagstofa Íslands — Starf erlendis — Framtalsskylda — Áætlun — Ríkisskattstjóri

Málavextir eru þeir, að kærandi sem er erlendur ríkisborgari með lögheimili á íslandi, taldi ekki fram tekjur á skattframtali sínu 1987. Í athugasemdadálki framteljanda var þess getið að kærandi hefði dvalið í Luxemburg sl. 2 ár. Skattstjóri sendi kæranda fyrirspurnarbréf, dags. 25. maí 1987. Fram kom í bréfi skattstjóra, að þar sem ekki væri séð að kærandi hefði haft neitt sér til framfærslu árið 1986 gæti skattframtal hans 1987 ekki staðist. Skoraði skattstjóri á kæranda að leggja fram rökstuddar skýringar studdar skriflegum gögnum. Svar barst ekki frá kæranda og með bréfi, dags. 28. júlí 1987, áætlaði skattstjóri kæranda skattstofna auk 25% álags með vísan til 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. í kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1987, kom fram að kærandi hefði ekkert unnið á íslandi sl. 2 ár. Hefði hann dvalið í Luxemburg þann tíma, en kosið að halda lögheimili á íslandi af persónulegum ástæðum. Með kærunni fylgdi ljósrit af úrskurði ríkisskattstjóra vegna álagningar opinberra gjalda gjaldársins 1986. Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu 28. október 1987. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefði kærandi verið skráður með lögheimili og aðsetur á Íslandi allt árið 1986. Hefði hann því verið framtals- og skattskyldur hér á landi af öllum tekjum sínum og eignum sbr. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tilvitnað bréf ríkisskattstjóra, dags. 2. mars 1987, staðfesti framtals- og skattskyldu kæranda. Niðurfelling ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kæranda 1986 þætti ekki hafa fordæmisgildi varðandi álagningu 1987. Engin grein hefði verið gerð fyrir tekjum og framfærslu kæranda 1986. Vísaði skattstjóri kærunni frá sem órökstuddri.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. nóvember 1987. Að sögn var kærandi við nám og störf sem hljóðfæraleikari í Luxemburg 1986. Gerir kærandi grein fyrir tekjum sínum þar og ástæðu þess að hann vilji eiga lögheimili hér á landi.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 2. mars 1988, er svohljóðandi:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra um höfnun framtals kæranda. Eftir atvikum, með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fyrir liggja, þykir mega lækka áætlun skattstjóra um 100.000 kr.“

Ljóst þykir að kærandi var ekki heimilisfastur hér á landi á árinu 1986 í skilningi 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá liggur fyrir að hann hafði hvorki þær tekjur hér á landi né átti hann þær eignir á árinu 1986 sem leiða ættu til skattskyldu hans hér á landi eftir ákvæðum 3. gr. nefndra laga. Var kærandi því eigi skattskyldur aðili hér á landi eftir ákvæðum I. kafla sömu laga þegar kom til álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1987. Er því öllum ákvörðunum skattstjóra í máli þessu hnekkt og öll álögð gjöld felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja