Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 359/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 8. tl.  

Arður — Arðsfrádráttur — Reiknaður arður — Greiddur arður — Hlutafélag — Jöfnunarhlutabréf — Hlutafé — Uppgjörsaðferð, breyting — Frádráttarregla

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er hlutafélag, dró frá tekjum sínum í skattframtali árið 1987 arð samtals að fjárhæð 450.000 kr., sbr. 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Annars vegar var um að ræða greiddan arð vegna 1985 að fjárhæð 150.000 kr. en hins vegar reiknaðan arð 1986 að fjárhæð 300.000 kr. Með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1987, að fyrrgreindur arðsfrádráttur hefði verið lækkaður úr 450.000 kr. í 300.000 kr. með því að frádráttur þessi takmarkaðist við 10% af nafnverði hlutafjár, sbr. ákvæði 8. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 og b- og c-lið 5. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á fyrrnefndu lögunum.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 10. ágúst 1987. Svofelldar skýringar og röksemdir færði umboðsmaðurinn fram í kærunni:

„Eins og fram kemur í ársreikningi félagsins 1986 og skattframtali þess 1987 greiddi félagið hluthöfum 10% arð á árinu 1986 eða 150.000 kr. vegna hlutafjáreignar í árslok 1985. Á árinu 1986 var hlutafé félagsins tvöfaldað með útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Var reiknaður 10% arður af hlutafjáreign í árslok 1986 og fjárhæðin 300.000 kr. skuldfærð í efnahagsreikningi og færð til frádráttar á skattframtali sbr. lokamálslið 8. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Nemur heildarfrádráttur vegna arðs því 450.000 kr. þar sem um breytingu á uppgjörsaðferð er að ræða frá fyrra ári.“

Með kæruúrskurði, dags. 5. október 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til röksemda í bréfi sínu, dags. 28. júlí 1987.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. október 1987, og þess krafist, að lækkun skattstjóra á tilfærðum arðsfrádrætti verði hnekkt. Er bent á, að sökum breytingar á uppgjörsaðferð sé tilfærður arðsfrádráttur í skattframtali 1987 vegna tveggja ára. Þá segir svo í kærunni:

„Samkvæmt 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum er arður frádráttarbær frá tekjum þess árs sem hann er reiknaður af. Hafi félag haft þá frádráttarreglu að telja 10% arð til frádráttar á útborgunarári og ákveður að breyta um reglu og reikna og færa 10% arð vegna ársins er talið að slík ákvörðun leiði til þess að á því ári sem breytingin er gerð komi til frádráttar 10% arður vegna beggja áranna.“

Með bréfi, dags. 29. apríl 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með vísan til rökstuðnings umboðsmanns kæranda fellst ríkisskattstjóri á kröfu hans.“

Með hliðsjón af því að kærandi er í ársreikningi sínum árið 1986 og skattframtali árið 1987 að breyta um frádráttarreglu varðandi arðsfrádrátt, þykir mega fallast á kröfu hans í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja