Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 377/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 3. gr. 2. og 5. tl. — 71. gr. 2. og 3. tl.  

Takmörkuð skattskylda — Húsaleigutekjur — Tekjur af fasteign — Eftirlaun — Álagning skattstjóra

Kærandi er búsettur í Svíþjóð. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 var á því byggt, að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 1987 vegna leigutekna af fasteign og eftirlauna frá X-kaupstað, sbr. 2. og 5. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtali í samræmi við þetta hafði verið skilað af hálfu kæranda árið 1987.

Með kæru, dags. 24. ágúst 1987, fór umboðsmaður kæranda fram á endurskoðun á tekjuskattsútreikningi kæranda. Með kæruúrskurði, dags. 30. nóvember 1987, tók skattstjóri fram með vísan til 2. og 5. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981 og 2. tl. 71. gr. sömu laga, að í ljós hefði komið, að álagning tekjuskatts væri rétt miðað við innsent skattframtal.

Með kæru, dags. 14. desember 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer fram á endurskoðun á útreikningi tekjuskatts gjaldárið 1987, þar sem hann telji álagninguna ranga.

Með bréfi, dags. 20. apríl 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með vísan til 2. og 5. tölul. 3. gr. og 2. og 3. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981 er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra enda ekki annað séð en að álagningin sé lögum samkvæmt.“

Með vísan til 2. og 5. tl. 3. gr. og 2. og 3. tl. 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að staðfesta hina kærðu tekjuskattsálagningu skattstjóra, enda á því byggt og óumdeilt í máli þessu, að kærandi beri takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 1987.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja