Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 379/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 91. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 98. gr. — 99. gr. 1. mgr. l. ml. — 101. gr. 3. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Framtalsskylda — Hlutafélag — Hlutafélagaskrá — Skráning hlutafélags — Síðbúin framtalsskil — Kæra, síðbúin — Kærufrestur — Áætlun — Álag — Álagningarlok — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem er hlutafélag, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1987. Við frumálagningu opinberra gjalda þetta gjaldár sætti kærandi því áætlun skattstofna af hálfu skattstjóra að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu skattstofna skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Hinn 26. október 1987 barst skattstjóra skattframtal kæranda árið 1987 og er það dagsett 20. október 1987.1 athugasemdadálki framtalsins kom fram, að hlutafélagið hefði verið stofnað á árinu 1986 og gengið frá gögnum þar að lútandi og þau send til skráningar. Síðan hefði borist tilkynning um, að formgalli væri á gögnum og þyrfti að berast leiðrétting til þess að fá hlutafélagið skráð. Þau gögn hefðu aldrei verið send inn og því hefði verið talið, að félagið væri ekki skráð og í framhaldi af því hefði verið hætt við stofnum þess. Engin framtalsgögn hefðu borist né nein vísbending um, að félagið væri komið á skrá, fyrr en álagningarseðillinn kom. Honum hefði ekki reynst unnt að svara vegna anna. Var farið fram á niðurfellingu gjaldanna.

Með kæruúrskurði, dags. 1. desember 1987, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni með því að kærufrestur hefði runnið út 29. ágúst 1987, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og auglýsingar skattstjóra, dags. 31. júlí 1987, birtrar í Lögbirtingablaði sama dag, um lok álagningar skv. 98. gr. sömu laga.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. desember 1987, og þess farið á leit, að innsent skattframtal verið lagt til grundvallar nýrri álagningu.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 12. apríl 1988:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Með hlíðsjón af málavöxtum þykir þó mega lækka áætlun hans.

Vegna tilvísunar umboðsmanns kæranda í skýringar á skattframtali telur ríkisskattstjóri rétt að eftirfarandi komi fram:

Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár 11. apríl 1988 var hlutafélagið skráð 6.03.1986. Gerð var munnleg athugasemd um stofnsamning þ.e. varðandi endurskoðendur félagsins og hlutafjárloforð. Úr þessum ágöllum var bætt með nýjum stofnsamningi og er skráning félagsins því enn óbreytt.“

Hinn kærða frávísunarúrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta, enda hefur af hálfu kæranda eigi verið sýnt fram á, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því, að kært væri til skattstjóra í tæka tíð eða upplýst um önnur þau atvik, er réttlætt gætu, að kæran fengi efnisúrlausn, enda fær það eigi staðist í kröfugerð ríkisskattstjóra að krefjast staðfestingar á hinum kærða frávísunarúrskurði og fallast jafnframt á lækkun áætlunar. Þess skal getið kæranda til leiðbeiningar, að ríkisskattanefnd hefur eigi hliðstæða heimild til breytinga á áður álögðum opinberum gjöldum og ríkisskattstjóra er veitt með 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja