Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 3/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 13. gr. 1. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 33. gr. — 44. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Fyrning — Fyrningartími — Upphaf fyrningar — Rekstrarhlé — Sérstök fyrning — Fyrning, sérstök — Söluhagnaður — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Sérstök fyrning á móti skattskyldum söluhagnaði — Rekstrarkostnaður — Útleiga — Atvinnurekstur — Atvinnuhúsnæði — Útleiga atvinnuhúsnæðis

Kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:

„Málavextir eru þeir að skattstjóri tilkynnti umbjóðanda okkar með bréfi dags. 27. júlí 1988 að sérstök fyrning að fjárhæð kr. 1.593.805 væri felld niður, þar sem félagið ætti ekki fyrnanlega eign skv. 32. gr. tekjuskattslaganna. Frestaður söluhagnaður kr. 1.815.271 teldist því til tekna með 10% álagi. Þá voru einnig felldir niður gjaldaliðirnir „Annar rekstrarkostnaður“ kr. 161.228 og afskriftir kr. 12.290, þar sem þeir væru ekki gjöld til öflunar tekna ársins.

Með kæru dags. 15. ágúst s.l. mótmæltum við f.h. A þessum breytingum skattstjóra og bentum á að aðalrekstur félagsins sem er að eiga húsnæði til útleigu hefði að mestu legið niðri á árinu 1987, þar til nýtt húsnæði var keypt í desember 1987 og að tilfærður rekstrarkostnaður tengdist því að halda utan um eignir og skuldir félagsins í því millibilsástandi, sem hefði skapast þar til nýtt húsnæði var keypt.

Í kæru okkar var af misgáningi vitnað til 2. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, þar sem vitna átti til 2. málsliðar 1. mgr. 13. gr. laganna. Ekki getur skipt máli hér að fasteign sú, sem keypt var í desember hafi ekki gefið af sér leigutekjur á árinu 1987, þar sem eignin var keypt í því augnamiði að afla tekna í atvinnurekstri. Má í þessu sambandi vísa til svipaðra ákvæða í 2. málsgrein 16. gr. laganna.

Hvað varðar niðurfellingu „Annars rekstrarkostnaðar“ og „Afskrifta“ sem skattstjóri gerði með vísan til þess að þessir kostnaðarliðir væru ekki gjöld til öflunar tekna ársins, skal það upplýst að þessir kostnaðarliðir tengjast beint og óbeint umsjón með eignum og skuldum félagsins og útvegunar á nýju húsnæði til útleigu fyrir félagið og hljóta því að teljast frádráttarbærir skv. 1. tölulið 31. gr. laga nr. 75/1981.“

Með bréfi, dags. 9. nóvember 1989, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Fallist er á kröfu kæranda nema hvað varðar gjaldaliðinn „kaupleigugreiðslur“ en ekki hefur verið sýnt fram á tengsl þeirra greiðslna við tekjuöflun kæranda.“

Engin efni þykja til annars en að fallast á kröfur kæranda í máli þessu. Fallist er á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja