Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 383/1988
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 106. gr. 2. og 3. mgr.
Álag vegna vantalins skattstofns — Vantaldar tekjur — Álagsbeiting — Vítaleysisástæður — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan
Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram á skattframtali sínu 1987, laun frá X sf. 321.000 kr. Skattstjóri sendi kæranda fyrirspurnarbréf, dags. 11. desember 1987, þar sem fram kom að samkvæmt launamiða frá sama launagreiðanda hefðu greidd laun árið 1986 numið 421.000 kr. Sú skýring var gefin á þessum mismun í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 7. janúar 1988, að við gerð reikningsskila fyrir X sf. hefði komið í ljós að laun til kæranda voru vantalin um 100.000 kr. Var þá gerður viðbótarlaunamiði sem sendur var skattstjóra með framtali X sf. Kærandi hafði þá fyrir alllöngu skilað inn sínu skattframtali með upphaflegri launatölu. Hefði hann ekki óskað eftir breytingum á skattframtali sínu, þar sem hann taldi að sögn að umboðsmaðurinn gengi frá þeim breytingum. Með bréfi, dags. 15. janúar 1988, hækkaði skattstjóri tekjur kæranda um hin vantöldu laun, að viðbættu 15% álagi sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæru til skattstjóra, dags. 19. janúar 1988, var þess krafist að 15% álagið sem skattstjóri beitti yrði fellt niður með vísan til 3. mgr. 106. gr. téðra laga. Með úrskurði, uppkveðnum 5. febrúar 1988, synjaði skattstjóri kærunni. Kæranda bæri sjálfum að fylgjast með launum sínum og gæta þess að uppgjöf launagreiðanda væri rétt. Yrði ekki séð að fram hefðu komið nein rök, sem leystu kæranda undan ábyrgð á framtali sínu. Auk þess væri beiting álagsins mjög hófleg, eða 15% í stað heimilaðs 25% álags.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með svofelldri kæru:
„Framteljandi kærir beitingu 15% viðurlaga á vantaldar tekjur.
Við gerð skattframtals 1987 voru tekjur færðar inn skv. sendum launamiða, frá X sf. kr. 321.000.
Við uppgjör X sf. um vorið kom í ljós að sendur hafði verið rangur launamiði, var þá sendur leiðréttingarlaunamiði að upphæð kr. 100.000 til A.
Vegna misskilnings milli A og umboðsmanns, taldi hvor að hinn hefði sent til skattstjóra ósk um breytingu á framtali, svo reyndist þó ekki vera og viðbótarlaunin því bætt á A með viðurlögum.
A telur, og vísar þar til 3. mgr. 106. gr. skattalaga að hann hafi talið fram samkvæmt bestu samvisku og að viðbótarlaun hafi ekki komið fram vegna óviðráðanlegs misskilnings.“
Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 9. maí 1988, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Að virtri málsmeðferð skattstjóra og rangri beitingu álagsákvæða 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 er hið kærða álag fellt niður.