Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 409/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. 2. mgr. — 3. gr. 1. og 2. tl. — 70. gr. 2. mgr. — 71. gr. 1. og 2. tl.  

Takmörkuð skattskylda — Dvalartími — Lögheimili — Heimilisfesti — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Laun hérlendis — Launatímabil — Nám — Námsstyrkur

Málavextir eru þeir, að skattstjóri sendi kæranda fyrirspurnarbréf, dags. 25. maí 1987, og óskaði eftir upplýsingum um dvalartíma hans hér á landi árið 1986. Í svarbréfi kæranda, dags. 2. júní 1987, kom fram að hann hefði dvalið hér á landi í sumarleyfi sínu 1986, nánar tiltekið frá 6. júní til 21. ágúst 1986. Miðaði skattstjóri álagningu opinberra gjalda 1987 við þriggja mánaða dvalartíma kæranda hérlendis 1986. í kæru til skattstjóra, dags. 14. ágúst 1987, var farið fram á lækkun opinberra gjalda á þeim forsendum að tekjur þær sem kærandi hefði talið fram væru 8 mánaða laun frá banka en bankinn hefði greitt kæranda laun á meðan hann var við nám erlendis gegn því að hann starfaði fyrir bankann eftir heimkomu. Væri því ekki hægt að miða við dvalartíma kæranda hérlendis við ákvörðun tekjuskattsstofns. Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í málinu 6. október 1987. Samkvæmt gögnum málsins væri dvalartími kæranda hér á landi 3 mánuðir á árinu 1986. Með vísan til 1. mgr. 1. tl. 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. mgr. 1. tl. 70. gr. sömu laga væri kærunni synjað.

Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. nóvember 1987. Að sögn kom kærandi heim til starfa við bankann í júní 1986 og starfaði þar til ágústloka sama ár. Bankinn greiddi laun út árið, þar með talinn tvöfaldan desembermánuð eða í 8 mánuði alls, meðan kærandi var að ljúka námi í tölvufræðum. Var þetta bundið þeim skilyrðum að kærandi kæmi til starfa við bankann að námi loknu. Er þess krafist að skattalegt lögheimili kæranda verði úrskurðað hér á landi, með hliðsjón af málavöxtum og opinber gjöld 1987 endurákvörðuð með hliðsjón af því.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f. h. gjaldkrefjenda, dags. 29. apríl 1988, er svohljóðandi:

„1. Að kröfu um ákvörðun á heimilisfesti verði vísað frá ríkisskattanefnd, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981.

2. Fallast má á að um þann hluta tekna sem kærandi hlaut frá íslenskum aðila á árinu 1986, á þeim tíma sem kærandi var ekki búsettur hér á landi, fari eftir ákvæðum 2. tl. 71. gr. laga nr. 75/1981 og 25. gr. laga nr. 73/1980, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981. Þar sem upplýsingar um fjárhæð þeirra tekna liggur ekki fyrir, þykir mega fallast á að ríkisskattanefnd áætli hlutfall þeirra tekna af heildartekjum.“

Kærandi ber takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. og 2. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. og 2. tl. 71. gr. sömu laga, vegna launatekna frá bankanum vegna starfa þar 6/6 — 21/8 1986 og námsstyrks frá bankanum eftir því sem skýringar kæranda upplýsa. Skipting greiðslna frá bankanum liggur ekki fyrir í málinu, en skv. launauppgjöf greiðanda var heildargreiðslan tilgreind sem vinnulaun vegna 28 vikna vinnu. Að fengnum skýringum kæranda í kæru, dags. 14. ágúst 1987, mátti skattstjóra vera ljóst að ákvæðum 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981 varð eigi beitt á þann stofn er hann byggði á. Af þessum sökum þykir rétt að hnekkja álagningu skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja