Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 410/1988

Gjaldár 1986

Reglugerð nr. 245/1963 — 17. gr. B-liður 3. tl.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 15. gr. 2. mgr. — 91. gr. — 96. gr. — 99. gr.  

Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi söluhagnaðar — Atvinnurekstur — Tómstundastarf — Hrossasala — Fylgigögn skattframtals — Sönnun — Málsmeðferð skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Rökstuðningur — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Rökstuðningi úrskurðar áfátt

I

Málavextir eru þeir, að í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1986 gat kærandi um sölu á hrossi til X. Söluverð var 32.000 kr. Hrossaeign sína í árslok 1985 færði kærandi í reit E 8 í eignahlið þess, fjögur tryppi, sex hesta og tvær hryssur. Með bréfi, dags. 10. mars 1987, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að færa honum nefnda fjárhæð 32.000 kr. til tekna og gaf 30 daga svarfrest. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 23. mars 1987, var hinni boðuðu tekjufærslu mótmælt á þeim grundvelli, að umrædd sala teldist ekki til atvinnurekstrar kæranda heldur sala á lausafjármunum, er ekki væru notaðir í atvinnurekstri. Hrossaeign kæranda hefði á undanförnum árum verið færð í E 8 í eignahlið skattframtals og ekki verið gerð rekstrarskýrsla vegna þessa.

Með bréfi, dags. 28. apríl 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að honum hefðu verið færðar til tekna 14.730 kr. (14.370 kr. í reynd skv. álagningarseðli) vegna umræddrar hrossasölu og áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1986 endurákvörðuð í samræmi við það. Fjárhæðina ákvarðaði skattstjóri þannig, að frá söluverði hrossins 32.000 kr. dró hann bústofnsskerðingu 17.630 kr. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 27. maí 1987, með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda væri hér um lausafé að ræða, sem ekki væri notað í atvinnurekstri heldur sem tómstundagaman. Með kæruúrskurði, dags. 15. október 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, enda kæmi ekkert fram í kæru, er rökstyddi niðurfellingu eða frekari lækkun teknanna og tekið hefði verið tillit til bústofnsskerðingar. Þá gat skattstjóri um misræmi í tilfærðri hrossaeign milli ára.

II

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. október 1987, og þess krafist, að tekjuviðbót skattstjóra verði felld niður með skírskotun til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þeirra skýringa, sem fyrr er getið. Þess er getið, að kostnaður vegna þeirrar tómstundaiðju kæranda að iðka reiðmennsku hafi verið allverulegur, en ekkert rekstraryfirlit hafi verið haldið, þar sem ekki hafi verið litið á þetta sem atvinnurekstur. Þá er gerð grein fyrir misræmi í tilgreiningu á hrossaeign milli ára.

III

Með bréfi, dags. 27. maí 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Eins og mál þetta liggur fyrir og með vísan til fyrirliggjandi gagna er fallist á kröfu kæranda.“

IV

Skattstjóri hefur talið, að kærandi hefði hrossakaup að atvinnu. Ekkert í fyrirliggjandi málsgögnum, þ.á m. skattframtölum 1984—1987 incl., gat gefið honum tilefni til þeirrar niðurstöðu. Er umrædd sala einu viðskipti kæranda með hross árin 1983—1986 eftir því sem framtöl bera með sér. Þá þykir málsmeðferð skattstjóra hafa verið áfátt. M.a. var kærandi eigi krafinn gagna í samræmi við niðurstöðu skattstjóra um starfsemi þessa, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, og ákvarðanir skattstjóra eru eigi nægilega rökstuddar. Að þessu virtu og með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, er krafa kæranda tekin til greina, enda liggur eigi annað fyrir en hugsanlegur söluhagnaður sé skattfrjáls skv. téðu ákvæði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja