Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 411/1988

Söluskattur júlí-des. 1985

Reglugerð nr. 486/1982 — 15. gr. — 24. gr. 3. mgr.   Lög nr. 10/1960 — 8. gr. 4. mgr. — 21. gr. 2. mgr. 1. og 2. tl.  

Söluskattur — Söluskattsskyld velta — Söluskattsskil — Söluskattsálag — Myndbandaleiga — Skattrannsókn — Skattrannsóknarstjóri — Fylgiskjöl — Bókhaldsgögn — Myndbönd

Að undangenginni athugun rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á bókhaldi og söluskattsskýrslum kæranda, sem rekur sælgætisverslun og myndbandaleigu, vegna söluskattstímabilanna júlí til og með desember 1985, endurákvarðaði ríkisskattstjóri honum sölugjald fyrir þessi tímabil. Byggði ríkisskattstjóri endurákvörðun sína á því, að í skýrslu rannsóknardeildarinnar kæmi fram, að kærandi virtist hafa oftalið liðinn „keypt með sölugjaldi“ á söluskattsskýrslum sínum fyrir umrætt tímabil og þar með vantalið söluskattsskylda veltu. Vantalin söluskattsskyld velta samkvæmt skýrslunni fyrir söluskattstímabilin júní til og með desember 1985 næmi samtals 343.014 kr.

Með bréfi, dags. 27. janúar 1987, gerði umboðsmaður kæranda athugasemdir við skýrslu rannsóknardeildar. Taldi umboðsmaðurinn, að þau fylgiskjöl í bókhaldi kæranda, er hafnað hefði verið til frádráttar á söluskattsskýrslu sem frádráttarbær leiga á myndböndum, væru í raun frádráttarbær kostnaðarfylgiskjöl í fyllilega lögmætu formi. Á þeim kæmi bæði fram upplýsingar um söluskattsupphæð og að um leigu hefði verið að ræða. Til stuðnings athugasemdum sínum, sendi umboðsmaður kæranda ljósrit af nokkrum reikningum.

Með úrskurði, dags. 12. febrúar 1987, gerði ríkisskattstjóri kæranda að greiða viðbótarsölugjald af meintri vantalinni söluskattsskyldri veltu fyrir söluskattstímabilin júlí til og með desember 1985. Taldi ríkisskattstjóri í úrskurðinum, að vantalin söluskattsskyld velta kæranda þetta tímabil næmi 332.389 kr. Hafði hann þá lækkað áðurnefnda fjárhæð, þ.e. 343.014 kr. skv. skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, um 10.625 kr. á grundvelli upplýsinga, er fram komu í athugasemdabréfi umboðsmanns kæranda frá 27. janúar 1987. Kæranda var samkvæmt úrskurðinum gert að greiða viðbótarsölugjald að fjárhæð 66.478 kr. og álag, reiknað fram til 16. febrúar 1987, að fjárhæð 92.451 kr. eða samtals 158.929 kr.

Álagt viðbótarsölugjald var af kæranda hálfu kært til ríkisskattstjóra með bréfi umboðsmanns hans, dags. 25. febrúar 1987. Með kærubréfinu fylgdu ljósrit af fylgiskjölum „er varða leigu á myndböndum og greiddur hefur verið söluskattur af X sbr. ákvæði 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 486, 23. ágúst 1982.“

Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð í málinu, dags. 31. júlí 1987. í honum féllst ríkisskattstjóri á að heimila kæranda að telja þar tilgreinda reikninga samtals að fjárhæð 111.616 kr. til frádráttar á söluskattsskýrslum kæranda til viðbótar við þá reikninga sem fallist hafði verið á í hinum kærða úrskurði. í úrskurði ríkisskattstjóra segir m.a.:

„Að öðru leyti verður ekki fallist á að heimila kæranda að telja reikninga vegna öflunar myndbanda frá veltu sinni á söluskattsskýrslum. Til að unnt sé að lækka söluskattsskylda veltu vegna kaupa á leigurétti myndbanda með söluskatti verða viðkomandi reikningar að bera það ótvírætt með sér að um sé að ræða leigu á myndböndum og að söluskattur hafi verið greiddur. Þeir reikningar eða kvittanir sem kærandi sendir ljósrit af og ekki verður fallist á til frádráttar fullnægja ekki skilyrðum söluskattslaga um form fylgiskjala þannig að unnt sé að fallast á lækkun söluskattsskyldrar veltu sem þeim fjárhæðum nemur er þar greinir, sbr. 15. gr. reglugerðar um söluskatt nr. 486/1982 og 2. mgr. 28. gr. laga um söluskatt nr. 10/1960.“

Með úrskurðinum lækkaði ríkisskattstjóri fjárhæð meintrar vantalinnar söluskattsskyldrar veltu hjá kæranda fyrir söluskattstímabilin júlí til og með desember 1985 úr 332.389 kr. í 220.772 kr. Viðbótarsölugjald lækkaði úr 66.478 kr. í 44.154 kr. og álag úr 92.451 kr. í 80.152 kr.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði ríkisskattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 14. ágúst 1987. Kærunni fylgir tvö staðfestingarskeyti frá tveimur rétthöfum myndbanda þess efnis, að reikningar frá þeim yfir myndbönd til kæranda hafi verið fyrir leigu á höfundarétti til tveggja ára. Að öðru leyti vísar kærandi til áðursendra gagna til ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 5. október 1987, gert svofellda kröfu í kærumáli þessu fyrir gjaldkrefjanda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Varðandi staðfestingarskeyti frá A og B h.f. sem kærandi sendir með kæru sinni skal tekið fram að ríkisskattstjóri hefur í hinum kærða úrskurði miðað við að um hafi verið að ræða leigu á myndböndum frá þessum aðilum. í þeim tilvikum að reikningar frá B h.f. og A liggja fyrir hefur því verið fallist á heimild kæranda til að draga þá frá á söluskattsskýrslum sínum sem keypt með sölugjaldi.

Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að umrædd staðfestingarskeyti raski á nokkurn hátt hinum kærða úrskurði. Er því ítrekuð krafan um staðfestingu hans.“

Af skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra um athugun á söluskattskilum kæranda fyrir tímabilið júlí til og með desember 1985, verður eigi ráðið, að athuguð hafi verið söluskattskil þeirra aðila, er kærandi átti viðskipti við með myndbönd, til þess að sannreyna, hvort söluskattur kynni að hafa verið innheimtur og greiddur af þeim, þótt það kæmi ekki nægilega skýrt fram á tilteknum vörureikningum í bókhaldi kæranda. Rannsóknin þykir því eigi hafa leitt í ljós, svo öruggt megi telja, að söluskattur hafi ekki verið innheimtur í viðskiptum þeim er þetta mál snýst um. Að þessu virtu þykir eigi verða hjá því komist að fella niður hið kærða viðbótarsölugjald ásamt reiknuðu álagi.

Álag samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 21. gr. sömu laga vegna söluskattstímabilanna júlí til og með desember 1985 reiknað fram til 15. júní 1988 alls 115.508 kr. fellur niður.

Alls nemur niðurfelling viðbótarsölugjalds auk álags vegna ofanritaðra tímabila 185.929 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja