Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 419/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. og 2. mgr. — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 52. gr. 3. tl.  

Sameignarfélag — Sjálfstæð skattskylda sameignarfélags — Lögaðili — Félagssamningur — Firmaskrá — Firmatilkynning — Upphaf skattskyldu — Stofnun sameignarfélags — Stofndagur — Aðilaskipti — Framlagt fé — Vextir af framlögðu fé — Reiknað endurgjald — Útleiga — Útleiga atvinnuhúsnæðis — Atvinnuhúsnæði — Málamyndagerningur

Með bréfi, dags. 1. desember 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að endurákvarða áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1986 vegna breytinga, er af því leiddu, að sameignarfélagið X, er kærandi væri meðeigandi að skv. firmaskrártilkynningu, dags. 5. janúar 1985, gæti ekki talist sjálfstæður skattaðili. Félagssamningi hefði ekki verið skilað inn við skráningu sameignarfélagsins, en það væri eitt skilyrða 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir því að teljast sjálfstæður skattaðili. Skv. 2. mgr. nefndrar lagagreinar bæri að skipta tekjum og eignum sameignarfélagsins á milli félagsaðila og skattleggja þær með öðrum tekjum og eignum þeirra. Kvaðst skattstjóri hafa í hyggju að hafna framkomnum ársreikningi X s.f. og fella niður vaxtagjöld á rekstrarreikningi að því marki, er næmi gjaldaliðum eigenda 7.738.119 kr., sbr. 3. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981. Þá yrðu vinnulaun 48.000 kr. millifærð á reiknuð laun eigenda, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Getið var um gjaldstofna vegna X s.f., en eignarhlutdeild kæranda væri 1/3. Gefinn var 10 daga svarfrestur.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 8. desember 1986, var þess getið, að sameignarfélagið X hefði verið stofnað í janúarbyrjun 1985 og fest þá kaup á fasteign. Það hefði orðið að samkomulagi félagsmanna, að X s.f. yrði sjálfstæður skattaðili frá janúarbyrjun 1985. Var þess farið á leit, að skattstjóri skattlegði félagið á þann hátt, enda ekki gerðar athugasemdir við skráningu sameignarfélagsins og það skráð sem sjálfstæður skattaðili frá 5. janúar 1985. Kvaðst umboðsmaðurinn telja, að bindandi samkomulag hefði verið komið á milli aðila við undirritun félagssamnings í janúarbyrjun 1985 og því bæri að skattleggja félagið sem sjálfstæðan skattaðila allt árið 1985. Ekki yrði það lesið út úr 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, að greinin ákvarðaði eða takmarkaði hvenær sameignarfélagið fengi skattalega meðferð sem sjálfstæður skattaðili svo framarlega sem það uppfyllti skilyrði. Efni málsins væri það, að sameignarfélagið hefði verið skráð sem sjálfstæður skattaðili í firmaskrá frá 5. janúar 1985 og við skráninguna hefði sameignarfélagssamningur verið meðfylgjandi. Næst gerðist það í málinu, að skattstjóri reit kæranda annað bréf, sem dagsett er 2. janúar 1987, þar sem hann leiðréttir boðaðar breytingar skv. bréfi sínu, dags. 1. desember 1986, m.t.t. tekjufærslu vegna verðbreytinga svo sem nánar er rakið, er hækkaði gjaldstofna vegna X s.f. Þessu bréfi var svarað af hálfu umboðsmanns kæranda með bréfi, dags. 6. janúar 1987, þar sem vikið var að umræddri tekjufærslu og jafnframt ítrekuð sú ósk, er fram kom í svarbréfi, dags. 8. desember 1986, um að X s.f. yrði skattlagt sem sjálfstæður skattaðili en til vara, að sameignarfélagið yrði skattlagt sem sjálfstæður skattaðili frá 1. október 1985 og tekjum og gjöldum þá skipt hlutfallslega á árið 1985.

Með bréfi, dags. 11. maí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1986 vegna hækkunar skattstofna, er leiddi af rekstri skv. ársreikningi X s.f. Skattstjóri féllst ekki á, að X s.f. hefði stofnast í ársbyrjun 1985, sbr. bréf hans, dags. 1. desember 1986, þar sem tilkynning til Firmaskrár Reykjavíkur hefði ekki borist, fyrr en 1. október 1985. Ekki yrði fallist á, að áhrif þessarar tilkynningar væru afturvirk, sbr. 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981. Hins vegar féllst skattstjóri á varakröfu kæranda, sbr. bréf hans, dags. 6. janúar 1987, þannig að sameignarfélagið yrði skattlagt sem sjálfstæður lögaðili frá og með 1. október 1985. Í samræmi við þetta þætti rétt að skipta framlögðum ársreikningi X s.f. fyrir árið 1985 skv. skattalegri stöðu á þann veg, að félagið yrði ekki sjálfstæður skattaðili frá 1. janúar 1985 til 30. september 1985 að 3/4 hlutum. Vaxtagjöld á rekstrarreikningi félagsins að því marki, er næmi gjaldaliðum eigenda 3/4 hluta af 7.738.119 kr. félli niður með vísan til 3. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981. Þá var tekjufærð verðbreytingarfærsla 393.900 kr., en fyrning 324.332 kr. félli niður úr þessum þætti rekstrar. Þá skipti skattstjóri sérstökum skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði þannig að 3/4 hlutar stofnsins komu í hlut þriggja eigenda fasteignarinnar eða 1/3 af þessum hluta lagður á kæranda. Þá voru vinnulaun 36.000 kr. millifærð á reiknuð laun 18.000 kr. að hlut kæranda. Þá var bakfærð áður ákvörðuð verðbreytingarfærsla hjá kæranda. Ennfremur var arðgreiðsla 164 kr. færð til frádráttar í reit 82. Inneignir pr. 31.12. 1985 hjá X s.f. yrðu óbreyttar.

Af hálfu kæranda var nefnd endurákvörðun skattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 10. júní 1987, og boðað, að rökstuðningur yrði sendur innan tíðar. Með kæruúrskurði, dags. 28. september 1987, synjaði skattstjóri kærunni, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. október 1987, og er þess krafist, að skattframtal árið 1986 verði lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986. Málavextir, málsástæður og lagarök eru svohljóðandi í kærunni:

„Málavextir eru þeir, að Sameignafélagið X var skráð sem sjálfstæður skattaðili frá 5. janúar 1985 hjá Firmaskrá Reykjavíkur, en skráning fór fram hinn 1. október 1985.

Skattstjóri féllst ekki á að félagið teldist sjálfstæður skattaðili nema frá 1. október til 31. desember, á árinu 1985 og skipti tekjum og gjöldum á milli eigenda félagsins vegna tímabilsins frá 1. janúar til 30. september 1985.

Sameignarfélagið X, var stofnað í byrjun janúar 1985 og festi þá kaup á fasteign. Það var samkomulag félagsmanna að sameignarfélagið yrði sjálfstæður skattaðili frá 1. janúar 1985.

Undirritaður telur að ekki séu svo ótvíræð ákvæði í 2. gr. 3. töluliðs laga 75/1981, að skattstjóra heimilist að neita félaginu og þar með umbjóðanda mínum um að sameignarfélagið teljist sjálfstæður skattaðili frá 1. janúar 1985, eins og það er athugasemdarlaust skráð í Firmaskrá Reykjavíkur frá 5. janúar 1985 og við skráningu var meðfylgjandi sameignarfélagssamningur.“

Með bréfi, dags. 27. maí 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum rökstuðningi með kæru er fallist á að hún fái efnislega meðferð og þess jafnframt krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Um rökstuðning er vísað til úrskurðar skattstjóra frá 11. maí 1987. Ekki hafa borist nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið er gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra um skattalega aðild umrædds sameignarfélags.“

Skv. gögnum málsins, sbr. framtal árið 1985, er liggur fyrir í málinu, hefur kærandi rekið fasteignina í félagi við A og B að jöfnu eða að 1/3 hvert þeirra um sig. Í framtalsgögnum árið 1985, sbr. t.d. greinargerð um aðstöðugjaldsstofn vegna starfsemi árið 1984, er sagt, að hér sé um „húsfélag" að ræða. Eina eign þessa félags í árslok 1984 er nefnd húseign, sem er atvinnuhúsnæði, og tekjur þess eru vegna útleigu húnæðisins. Skv. framtalsgögnum árið 1986 telja nefndir eigendur sig selja fyrrgreinda fasteign á framreiknuðu stofnverði. Kaupandi er sagður sameignarfélagið X. Engin útborgun fór fram vegna viðskipta þessara en andvirðið allt að láni með hæstu lögleyfðu vöxtum. Kaupsamningur er sagður dagsettur 2. janúar 1985. Með tilkynningu, dags. 5. janúar 1985, er birtist í 160. tbl. Lögbirtingablaðs, útg. 13. desember 1985, var tilkynnt um, að nefndir aðilar rækju sameignarfélag í Reykjavík undir nafninu X s.f., er skyldi vera sjálfstæður skattaðili. Af hálfu kæranda er byggt á því, að rekstur umræddrar fasteignar hafi verið á vegum þessa félags allt árið 1985. Er ársreikningur þess fyrir árið 1985, sem fyrir liggur í málinu, miðaður við þetta. Skv. honum er og ljóst, að um er að ræða framhald þess rekstrar, sem kærandi hefur haft með höndum í félagi við nefnda aðila. Ágreiningslaust er í málinu, að gögn um félagsstofnun þessa hafi ekki borist Firmaskrá Reykjavíkur, fyrr en 1. október 1985, og er deiluefnið, hvort miða beri stofndag félagsins við það tímamark eða telja stofnunina hafa farið fram í janúarbyrjun. Skv. málsgögnum verður eigi annað séð en kærandi hafi rekið sameignarfélag ásamt nefndum sameigendum sínum til starfrækslu umræddrar fasteignar. Varð það félag eigi sjálfstæður skattaðili þegar í upphafi, en síðar verður eigi gerð breyting þar á. Þegar litið er til allra atvika varðandi „félagsstofnun“ þá á árinu 1985, sem um ræðir í máli þessu, og þeirra gerninga, sem gerðir hafa verið í tengslum við hana, verður eigi talið, að nein sú breyting hafi orðið á fyrrgreindum rekstri, er skattalega þýðingu hafi. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir eigi ástæða til þess að taka frekari afstöðu til ágreiningsefna þess. Kröfum kæranda er hafnað. Skattstjóra er rétt að ákveða skatta kæranda að nýju.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja