Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 420/1988
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 32. gr. 1., 4. og 5. tl. — 38. gr. 7. tl. — 44. gr. 1. mgr. 2. ml. — 54. gr.
Fyrnanleg eign — Fyrning — Viðskiptavild — Kaupverð verslunar — Skipting kaupverðs verslunar — Vörumerki — Firmanafn — Kaup á rétti til vörumerkis — Einkasöluréttur — Erlend umboð — Innflutningsverslun — Fyrning tekjufærslu — Fjárfestingarsjóðstillag — Stofnkostnaður — Eignarréttur — Viðskiptasambönd — Ófyrnanleg eign
Málavextir eru þeir, að skattframtali kærenda árið 1986 fylgdi m.a. ársreikningur verslunarinnar X fyrir árið 1985, er kærandi, A, starfrækti. í fyrningarskýrslu var tilfært kaupverð verslunar þessarar 3.000.000 kr. sem fyrningargrunnur og af því reiknuð 20% almenn fyrning eða 600.000 kr., er gjaldfærð var í rekstrarreikningi verslunarinnar.
Í bréfi til kæranda, A, dags. 12. ágúst 1986, kvað skattstjóri hafa komið í ljós við endurskoðun ársreiknings verslunarinnar X, að fyrndar hefðu verið eignir „sem bera nafnið „W“, innréttingum, sem keyptar hafa verið fyrir kr. 3.000.000“, eins og segir í bréfinu. Skoraði skattstjóri á kæranda að gera grein fyrir skiptingu kaupverðs milli viðskiptavildar og innréttinga þannig að unnt yrði að ákvarða fyrningargrunn, en viðskiptavild teldist ekki meðal fyrnanlegra eigna. Gefinn var 10 daga svarfrestur. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 19. ágúst 1986, var vísað til þess, að keyptur eignarréttur að verðmætum hugverkum og auðkennum teldist fyrnanleg eign samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og væri vörumerki m.a. nefnt sem dæmi. í tilviki kæranda væri um að ræða vörumerki, þar sem keypt hefði verið nafn fyrirtækisins „X“ og einnig ýmis erlend vörumerki, sem hann hefði einkarétt á til innflutnings. Samkvæmt þessu og 7. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, hefði vörumerki (nefnt „W“ í bókum fyrirtækisins) verið fyrnt um 20% eins og innréttingar og þess vegna ekki verið talin ástæða til að greina á milli innréttinga og vörumerkis í bókum fyrirtækisins, enda hefði sundurliðun á þessu tvennu ekki komið fram í kaupsamningi. Ef meta ætti innréttingar sérstaklega, teldi kærandi ekki fjarri laga að virða þær á 700.000 kr. en vörumerki á 2.300.000 kr. eða samtals 3.000.000 kr. Því var eindregið mótmælt, að vörumerki teldust ekki meðal fyrnanlegra eigna. Þess var krafist til vara, ef lækka ætti fyrningar, að tekið yrði tillit til óráðstafaðs rekstrarhalla að fjárhæð 235.692 kr. (sbr. samræmingarblað), óbókfærðrar niðurfærslu útistandandi skulda 64.245 kr. og vörubirgða 220.584 kr. vegna verslunarinnar X.
Með bréfi, dags. 21. maí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að endurákvarða áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1986, enda væri ekki á það fallist, að kaupverð á fyrirtækisheitinu „X“ og einkaréttur á innflutningi undir erlendum vörumerkjum væri fyrnanleg eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hér væri ekki um varanlega rekstrarfjármuni að ræða, er notaðir væru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og rýrnuðu að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur. Kvaðst skattstjóri hafa í hyggju að breyta rekstrarreikningi verslunarinnar X á þann veg, að gjaldfærðar fyrningar lækkuðu um 460.000 kr. og yrðu 140.000 kr., þ.e.a.s. 20% af 700.000 kr., sem væri verðmæti innréttinga samkvæmt mati kæranda. Niðurstaða rekstrarreiknings verslunarinnar yrði eftir þessa breytingu rekstarhagnaður að fjárhæð 314.260 kr. en var rekstartap að fjárhæð 145.749 kr. Á samræmingarblaði R4.05 yrði rekstrarhagnaður að fjárhæð 224.308 kr., en auk verslunarinnar X hafði kærandi með höndum rekstur annarrar smásöluverslunar svo og heildverslunar. Þá tók skattstjóri fram, að í eignahlið efnahagsreiknings yrði færð viðskiptavild að fjárhæð 2.300.000 kr. og bókfært verð innréttingar 560.000 kr. Eignir alls yrðu 6.355.743 kr. og óráðstafað eigið fé hækkaði um 460.000 kr. og yrði 2.991.072 kr., er færðist á samræmingarblað. Skuldir umfram eignir yrðu 1.530.708 kr. þ.e. niðurstaða efnahagsreikninganna þriggja.
Í bréfi, dags. 14. júní 1987, mótmælti umboðsmaður kæranda hinum fyrirhuguðu breytingum skattstjóra. Hann upplýsti, að í kaupsamningi um verslunina X hefði ekki verið sundurliðað sérstaklega kaupverð innréttinga, kostnaður við að fá að nota erlend vörumerki og fyrirtækisheitið X. Hann vísaði til mats síns á verðmæti innréttinga 700.000 kr. og réttar til erlendra vörumerkja og fyrirtækisheitisins 2.300.000 kr. Kvað hann kæranda reka aðra smásöluverslun „M“ svo og heildverslun og undir nöfnum þeirra verslana hygðist hann selja hluta þeirra vörumerkja, er fengist hefðu með kaupunum á versluninni X. Með þetta í huga teldi kærandi að meta mætti kostnað við að fá erlendu vörumerkin á allt að 1.500.000 kr. en fyrirtækisheitið „X“ og innlendu viðskiptasamböndin á 800.000 kr. Umboðsmaðurinn gat þess, að ekki væri um einkaleyfi að ræða heldur greiðslu (1.500.000 kr.) fyrir að fá að selja erlendu vörumerkin hér á landi, enda hefði kærandi enga tryggingu fyrir því að halda erlendu vörumerkjunum alla ævi. Smávægilegur samdráttur í sölu gæti leitt það af sér, að hann missti einhver umboð eða að aðrir og stærri aðilar kæmust yfir umboðin. Þá hefði komið í ljós, að nokkur umboð (vörumerki), sem kærandi hefði haldið, að hann væri einn með, væru seld hjá fleiri aðilum á íslandi, þ.á m. danskt merki „E“ og nokkur frönsk merki. Hefði kærandi hætt innflutningi á þessum merkjum. Einnig hefðu gæði ekki verið eins og búist hefði verið við, sbr. enskt merki „B“ (kjólar) þannig að innflutningi á því hefði verið hætt og engar bætur fengist vegna þessa. Í ljósi þessa og með vísan til 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var þess krafist, að leyft yrði að fyrna fjárhæðina 1.500.000 kr., er teldist kostnaður við að fá erlendu merkin, og tilfærðar fyrningar á rekstrarreikningi verslunarinnar X lækkuðu þar af leiðandi úr 600.000 kr. í 440.000 kr. og niðurstaða á samræmingarblaði yrði því rekstartap að fjárhæð 75.692 kr. Til vara var þess krafist, að leyft yrði að fyrna á móti hagnaði, sbr. samræmingarblað, atvinnurekstrarhúsnæði heildverslunar A vegna tekjufærslu vegna verðbreytinga.
Með bréfi, dags. 6. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinna boðuðu breytinga og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1986, er af þeim leiddi, sbr. skattbreytingaseðla til kæranda, dags. sama dag. Tók skattstjóri fram, að í svarbréfi kæranda, dags. 14. júní 1987, hefðu ekki komið fram þau rök, er breytt gætu fyrri ákvörðun skattstjóra um endurákvörðun, sbr. bréf hans, dags. 21. maí 1987. Af hálfu umboðsmanns kæranda var endurákvörðun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 21. ágúst 1987, og þess krafist, að tekið yrði tillit til þeirra upplýsinga, sem komið hefðu fram í bréfi, dags. 14. júní 1987. Þá var ítrekuð krafan um heimild til fyrninga á móti tekjufærslu vegna verðbreytinga í ársreikningi heildverslunar A, sbr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Sú fyrningarfjárhæð yrði lokaniðurstaða á samræmingarblaði. Þá var að því vikið af hálfu umboðsmanns kæranda, að svo virtist sem frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri 68.000 kr. hefði verið felldur niður víð endurákvörðunina svo sem nánar var lýst. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 7. september 1987, og hafnaði aðalkröfu kæranda en féllst á varakröfu hans varðandi síðastnefnda fyrningu á móti tekjufærslu vegna verðbreytinga. Þá féllst skattstjóri á kröfu kæranda um leiðréttingu vegna fjárfestingarfrádráttar. Varðandi öflun hinna erlendu vörumerkja tók skattstjóri fram, að hann teldi þau kaup ekki falla undir 4. tl. 32. gr. laga nr. 75/1981. Ekki væri um að ræða kaup á eignarrétti, þ.e.a.s. hin erlendu vörumerki yrðu ekki eign kæranda að neinu leyti. Þá yrðu umrædd kaup ekki fyrnd samkvæmt ákvæðum 5. tl. 32. gr. nefndra laga, enda ekki á það fallist að um stofnkostnað væri að ræða. Skattstjóri hafnaði því að um væri að ræða fyrnanlegar eignir samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981 en áleit, að keypt hefði verið fyrirtækisnafn, innlend og erlend viðskiptasambönd og viðskiptavild fyrir 2.300.000 og kostnaður vegna þessa væri ófyrnanlegur og færðist að fullu til eignar.
Með kæru, dags. 5. október 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krafa umboðsmannsins er sú, að heimilað verði að fyrna 1.500.000 kr. með vísan til 4. og 5. tl. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. rökstuðning í bréfi til skattstjóra, dags. 14. júní 1987.
Með bréfi, dags. 25. apríl 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Að virtum öllum málavöxtum þykir eigi hafa verið sýnt fram á það af hálfu kæranda, að fjárhæð fyrnanlegra eigna í kaupverði umrædds verslunarrekstrar hafi verið hærri en þær 700.000 kr., sem skattstjóri hefur ákvarðað. Með þessari athugasemd þykir bera að staðfesta niðurstöðu skattstjóra í máli þessu.