Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 421/1988

Gjaldár 1984—1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. — 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl. og 3. mgr. — 100. gr. 2. mgr.  

Nám — Nám erlendis — Námsstyrkur — Námsfrádráttur — Námskostnaður — Skattskyldar tekjur — Beinn kostnaður — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að í skattframtölum sínum árin 1984 og 1985 færði kærandi til frádráttar tekjum námsfrádrátt vegna doktorsnáms í bókasafnsfræði við háskóla í Bandaríkjunum, að fjárhæð 51.000 kr. í framtali árið 1984 og 63.760 kr. í framtali árið 1985. Með bréfi, dags. 5. mars 1986, krafði skattstjóri kæranda m.a. um staðfest vottorð um nám á árinu 1984 við háskólann til stuðnings námsfrádrætti 63.760 kr. Ef um hefði verið að ræða óreglulegt nám eða nám utan skóla þá skyldi lagður fram tölulegur rökstuðningur fyrir námsfrádrættinum. Skattstjóri benti á, að skv. upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu hefði kærandi verið 52 vikur á launaskrá á árinu 1984. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 14. mars 1986, og lagði fram lýsingu á umræddu doktorsnámi í bókasafns- og upplýsingafræði. Þá vísaði kærandi til úrskurðar skattstjóra, dags. 8. febrúar 1983, þar sem viðurkenndur hefði verið námsfrádráttur vegna doktorsnáms þessa gjaldárið 1982. Kærandi gerði grein fyrir högum sínum, aðstæðum til þess að stunda námið og tilhögun þess svo og kostnaði vegna námsins.

Að þessu loknu hvíldi málið þar til 5. mars 1987, að skattstjóri reit kæranda bréf vegna gjaldársins 1984. Kvað hann hafa komið í ljós, að kærandi hefði fengið námsstyrk að fjárhæð 80.000 kr. á árinu 1983 úr Vísindasjóði Íslands, sem gengið hefði til greiðslu skólagjalda kæranda. Þessi styrkur væri skattskyldur skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, allt að því marki sem næmi veittum námsfrádrætti og væri því fyrirhugað að færa 51.000 kr. til tekna í skattframtali árið 1984. Þessu bréfi skattstjóra svaraði kærandi með bréfi, dags. 14. mars 1987, og gerði grein fyrir greiðslu skólagjalda að fjárhæð 97.884 kr. fyrir árið 1983, en Vísindasjóðsstyrkur hefði numið 80.000 kr. Lagði kærandi fram gögn þessu til staðfestingar og vísaði til 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 varðandi frádráttarbærni kostnaðar á móti styrkfjárhæðinni. Þá gerði kærandi grein fyrir aukakostnaði sem rannsóknarverkefni á borð við doktorsritgerð hefði í för með sér. Þá gat kærandi þess, að þessu starfi væri nú lokið og hefði doktorsritgerðin verið varin 23. janúar 1987.

Með bréfi, dags. 30. mars 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld gjaldárin 1984 og 1985 hefðu verið tekin til endurákvörðunar m.a. vegna lækkunar námsfrádráttar bæði árin. Skattstjóri féllst á frádrátt kostnaðar á móti styrk úr Vísindasjóði gjaldárið 1984, en í framhaldi af því féllst hann ekki á, að kæranda bæri fullur námsfrádráttur vegna náms erlendis 51.000 kr., enda virtist námið hafa verið stundað hérlendis að mestu leyti og utan skóla. Þætti hæfilegt að heimila námsfrádrátt, sem svaraði til 3 mánaða náms erlendis eða 25.500 kr. Með sömu rökum lækkaði skattstjóri tilfærðan námsfrádrátt gjaldárið 1984 úr 63.760 kr. í 31.880 kr. eða sem svaraði til 3 mánaða náms.

Af hálfu kæranda var þessum breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 27. apríl 1987. Kærandi benti á, að árið 1983 hefði hann verið í leyfi frá kennslu við Háskóla Íslands frá janúar til september og helgað þetta leyfi doktorsnáminu svo sem nánari grein var gerð fyrir. Varðandi árið 1984 vísaði kærandi til 40% rannsóknarskyldu háskólakennara svo og vinnu við námið í fríum, er meta yrði sem framlag við námið þó svo að það ár hefði hann ekki verið í leyfi frá kennslu.

Með kæruúrskurði, dags. 25. maí 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, enda hefði kærandi ekki sýnt fram á með rökstuddri greinargerð eða framlagningu gagna, að honum bæri hærri námsfrádráttur en ákvarðaður hefði verið með bréfi, dags. 30. mars 1987.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. júní 1987. Mótmælir kærandi breytingum skattstjóra. Kærandi gerir enn grein fyrir umræddu doktorsnámi, tilhögun þess, aðstæðum til ástundunar námsins og kostnaði við það. Kærunni fylgdu nokkur gögn þ.á m. staðfesting Háskóla Íslands á rannsóknarleyfi kæranda.

Með bréfi, dags. 23. mars 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Í bréfum skattstjóra, dags. 5. mars 1986 og 5. mars 1987, kemur vefenging umræddra frádráttarliða í skattframtölum kæranda árin 1984 og 1985 eigi nægilega skýrt fram. Þrátt fyrir það þykir eigi næg ástæða til þess að ómerkja hinar kærðu breytingar skattstjóra af þessum sökum. Gjaldárið 1984 hefur kærandi fært námsfrádrátt miðað við fullt nám erlendis. Skattstjóri hefur lækkað þennan frádrátt þannig að hann miðist við þriggja mánaða nám. Þá hefur skattstjóri á það fallist, að kæranda beri kostnaður til frádráttar á móti fengnum styrk frá Vísindasjóði Íslands að fjárhæð 80.000 kr. þannig að eigi komi til skattgreiðslu vegna styrks þessa, en námsstyrkur þessi er skattskyldur skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því marki sem veittum námsfrádrætti nemur, sbr. leiðbeiningar ríkisskattstjóra við útfyllingu framtals framtalsárið 1984. Hámarksnámsfrádráttur vegna náms erlendis gjaldárið 1984 nam 51.000 kr. svo sem kærandi tilfærði og krefst í máli þessu, en skattstjóri lækkaði í 25.500 kr. í ljósi meðferðar skattstjóra á nefndum styrk hefur kæranda í reynd verið veittur ríflegur frádráttur vegna umrædds náms gjaldárið 1984. Með því að ríkisskattstjóri hefur hvorki neytt heimildar sinnar eftir 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 í máli þessu til þess að kæra úrskurð skattstjóra né gert kröfu um breytingu á ákvörðun hans í máli þessu verður látið við þessa ákvörðun skattstjóra sitja. Rétt þykir að svo vöxnu að vísa kærunni frá að því er tekur til gjaldársins 1984. Þegar það er virt sem upplýst er um nám kæranda árið 1984, þ.á m. það að kærandi sýnist hafa sinnt náminu aðallega hérlendis það ár þá þykir ákvörðun skattstjóra á fjárhæð námsfrádráttar gjaldárið 1985 kæranda eigi óhagstæð. Er úrskurður skattstjóra staðfestur varðandi gjaldárið 1985.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja