Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 432/1988
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl.
Nám — Námsfrádráttur — Námskostnaður — Starfsþjálfun — Endurmenntun — Námskeið — Endurmenntunarnámskeið — Póst- og símaskólinn — Loftskeytamaður
Málavextir eru þeir að kærandi færði sem námsfrádrátt í reit 51 á skattframtali sínu 1987 63.465 kr. (sic), vegna náms í Póst- og símaskólanum 570 kennslustundir árið 1986. Í bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 15. júlí 1987, var tilkynnt að fyrrgreindur námsfrádráttur hefði verið felldur niður og tekjur hækkaðar samsvarandi þar sem starfsþjálfun í launuðu starfi uppfyllti ekki skilyrði 3. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um námsfrádrátt, og frádrátturinn því ekki heimill sbr. leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu framtals. Í kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1987, var niðurfellingu námsfrádráttarins mótmælt og þeirri staðhæfingu skattstjóra að um væri að ræða starfsþjálfun í launuðu starfi. Málavextir hefðu verið þeir, að samkvæmt reglugerð var loftskeytamönnum sagt upp störfum frá og með 1. janúar 1987 (sic). Þeim var gefinn kostur á að stunda endurhæfingarnám hjá Pósti og síma á meðan á uppsagnarfresti stóð. Var ekki um að ræða starfsþjálfun í sérstakt starf og laun ekki greidd af Pósti og síma. Með úrskurði, uppkveðnum 13. október 1987, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um að námsfrádrátturinn yrði látinn óbreyttur standa. Skv. launauppgjöf Pósts og síma hefði kærandi verið þar launaður starfsmaður frá júní til ársloka 1986. Hins vegar hefði því verið haldið fram án frekari rökstuðnings að hann hefði stundað nám í Póst- og símaskólanum síðustu mánuði ársins 1986. Þætti kærandi ekki hafa gert þá grein fyrir námi sínu að unnt væri að fallast á hinn umdeilda námsfrádrátt.
Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. nóvember 1987. Fram kemur að kærandi hafði starfað árum saman sem loftskeytamaður á togara. Með reglugerð var loftskeytamönnum skipað í land (sagt upp störfum) frá 1. janúar 1986. Voru þeim greidd laun fyrir þann tíma sem uppsagnarfresturinn tók. Jafnframt var þeim boðið upp á endurmenntunarnámskeið hjá Pósti og síma. Hvort menn sóttu þessi námskeið var í valdi þeirra sjálfra. Að sögn fór kærandi á þetta námskeið í ársbyrjun 1986, en hefði að sjálfsögðu getað ráðið sig í vinnu á þessum tíma og þegið laun fyrir. Eftir að námskeiðinu lauk hóf kærandi störf hjá Pósti og síma. Fullyrðing skattstjóra þess efnis að kærandi hafi stundað nám seinni hluta ársins 1986 fái því ekki staðist.
Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 6. júní 1988, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
Með hliðsjón af fram komnum gögnum og skýringum er fallist á kröfu kæranda að því marki að námsfrádráttur ákvarðast 2/3 af fullri fjárhæð hans eða 39.020 kr.