Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 435/1988

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 —10. gr. —14. gr. 1., 2. og 3. mgr.  

Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Stofnverð — Verðbreytingarstuðull — Útreikningur söluhagnaðar — Fasteignamatsverð — Fasteignamat ríkisins

Málavextir eru þeir, að kærandi seldi hlutdeild sína í hesthúsi. Samkvæmt gögnum málsins nam söluverð þess 310.000 kr. Með úrskurði, dags. 15. september 1986, gerði skattstjóri kæranda að greiða skatta af helmingi söluverðsins eða 155.000 kr. með því að það væri kæranda hagstæðara heldur en að telja söluhagnað að fjárhæð 196.255 kr. til skattskyldra tekna. í nefndum úrskurði skattstjóra var fasteignamat hins selda talið hafa numið 1.430.000 gkr. þann 1. desember 1979 eða 14.300 nýkr. Verðbreytingarstuðull væri 7.9542 og framreiknað stofnverð eignarinnar því 113.745 kr. og söluhagnaður yrði því 196.255 kr.

Úrskurði skattstjóra var skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 10. október 1986. Með bréfi, dags. 9. nóvember 1986, var gerð nánari grein fyrir málinu. Þar er m.a. frá því greint, að kærandi hafi á árunum 1973—1974 fengið aðstöðu ásamt félögum sínum til að byggja hesthús í X. Smíði hússins hafi að mestu verið lokið á árunum 1978—1980. Fasteignamat hesthússins miðað við 1. desember 1983 hafi verið 252.000 kr. Þá er þess getið í kærubréfinu til ríkisskattanefndar, að allar upplýsingar frá fasteignamati um eignarhluta kæranda miðað við 1. desember 1979 hafi verið mjög óljósar á þeim tíma og eflaust hafi farið fram endurmat eignarinnar eftir það.

Með bréfi, dags. 26. febrúar 1987, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Umboðsmaður kæranda ritaði bréf, dags. 18. febrúar 1988, til Fasteignamat ríkisins. í bréfinu er óskað eftir upplýsingum um fasteignamat hesthúss þess er kærandi seldi þ.m. hvort fram hafi farið endurmat á því á eignarhaldstíma kæranda.

Þann 27. maí 1988 barst ríkisskattanefnd bréf frá Fasteignamati ríkisins varðandi hesthús það, er í máli þessu greinir. í því er gerð grein fyrir fasteignamati hússins. Þar segir m.a.:

„Athugun á gögnum og vettvangsskoðun hafa leitt í ljós að 1976 var hesthúsið sem var 386 m3, skráð sem matshluti nr. 22 og hlaðan sem var 1.564 m3, skráð sem matshluti 23. 1983 er framkvæmt mat vegna nýbyggingar sem tengist þessum húsum, og fær þetta nýja hús matshlutanúmer hlöðunnar. Afleiðingin er sú að matshluti 22 stækkar sem nemur hans hluta í hlöðunni, mhl. 23.

Þannig að leiðrétting á skráningu tímabilið 1979 til 1983 er að öllu óþörf, aðeins þarf að lesa rétt út úr skránni.

Árið 1983 er þáverandi matshluta 23 hlöðunni, skipt í þrjá jafna parta, því ætti hlutur matshluta 22 í þáverandi matshluta 23 að vera 1/3.

Fasteignaskrá 25.11. 1979

Mhl. Eining hesthús

22 01—01 Sérhæfð bygging 123.0 m2 Mannvirki Lóð

Mat g.kr. 9.800.000 2.469.000

hlaða

23 01—01 Sérhæfð bygging 287,0 m2 Mannvirki Lóð

Mat g.kr. 16.313.000 10.005.000

Mat á mhl. 22 plús hluti í mhl. 23.

Mannvirki 9.800.000 + 16.313.000/3) = 15.238.000

Lóð 2.469.000 + (10.005.000/3) = 5.804.000

Samtals (gamlar krónur) 21.042.000

Eignarhluti A. var 17.86%, sem gefur 3.758.000 gamlar krónur.“

Með hliðsjón af framangreindu bréfi frá Fasteignamati ríkisins hefur skattstjóri í hinum kærða úrskurði lagt til grundvallar of lágt stofnverð nefnds hesthúss við útreikning söluhagnaðar þess þ.e. 14.300 nýkr. í stað 37.580 nýkr. Framreiknað stofnverð hússins verður því 37.580 nýkr. x 7.9542 eða 298.919 nýkr. Söluverð hússins var 310.000 kr. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins, að kærandi hafi greitt sölulaun vegna sölunnar. Skattskyldur söluhagnaður verður því 11.081 kr. Tekjuviðbót á skattframtali kæranda 1985 vegna sölu hesthúss lækkar því úr 155.000 kr. í 11.081 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja