Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 470/1988
Gjaldárið 1986
Reglugerð nr. 748, 3. nóv. 1983 Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 53. gr. 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. l.ml. — 100. gr. 8. mgr. — 106. gr. 1. mgr.
Verðbreytingarfærsla — Séreignasjóður — Inneign í séreignasjóði — Stofnfjársjóður ísl. fiskiskipa — Sjávarútvegur — Sjóðir sjávarútvegs — Félagsgjöld — Stjórnmálafélag — Félagsgjöld til stjórnmálafélags — Ferðakostnaður — Tölvukostnaður — Gjafir til menningar— og líknarmála — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Síðbúin framtalsskil — Alag vegna síðbúinna framtalsskila — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Frávísun vegna vanreifunar
Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1986. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu stofna skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu umboðsmanns kærenda var álagningin kærð með kæru, dags. 20. ágúst 1986, og farið fram á, að opinber gjöld gjaldárið 1986 yrðu reiknuð að nýju skv. skattframtali, er síðar yrði sent. Með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1986, vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Umboðsmaður kærenda skaut frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. nóvember 1986, og boðaði, að greinargerð yrði send síðar. Með bréfi, dags. 3. desember 1986, barst ríkisskattanefnd skattframtal kærenda árið 1986, er farið var fram á af þeirra hálfu, að lagt yrði til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 1986 án álags vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. greinargerð þar um. Þess var farið á leit, að skattframtalinu yrði vísað til hlutaðeigandi skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, þar sem framtalið hefði ekki áður sætt efnisúrlausn hjá skattstjóra, sbr. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með úrskurði nr. 692 frá 9. desember 1986 vísaði ríkisskattanefnd kærunni ásamt skattframtali vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1986 til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.
Hinn 3. júní 1987 kvað skattstjóri upp nýjan kæruúrskurð, þar sem hann féllst á að byggja álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1986 á hinu innsenda skattframtali með ýmsum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Ágreiningur máls þessa varðar nokkrar þessara breytinga svo sem hér segir:
1. Verðbreytingarfærsla. Skattstjóri gerði þá breytingu á útreikningi kæranda á verðbreytingarfærslu, sbr. skýrslu þar um í framtalsgögnum, að hann felldi inneignir í séreignasjóðum 1.496.935 kr. úr þessum útreikningi. Taldi hann inneignir þessar ekki geta talist til þeirra eigna, er mynduðu stofn til útreiknings verðbreytingarfærslu skv. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hækkaði hann stofn til tekjufærslu um þessa fjárhæð eða úr 5.154.509 kr. í 6.651.444 kr. og tekjufærslufjárhæð því úr 1.478.313 kr. Í 1.907.634 kr. í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 29. júní 1987, hefur umboðsmaður kæranda mótmælt þessari breytingu skattstjóra. Í bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 22. apríl 1987, kemur fram, að um sé að ræða inneign í stofnfjársjóði íslenskra fiskiskipa svo og innstæður í hinum ýmsu sjóðum í sjávarútvegi og fiskvinnslu, er ýmist séu til skamms eða langs tíma og/eða sameiginlegir lánasjóðir til þess að veita hinum ýmsu aðilum í sjávarútvegi fyrirgreiðslu. Í kæru til ríkisskattanefndar kemur fram, að innstæður þessar séu lausar til útborgunar, þegar þess sé krafist, svo sem um bundnar bankainnstæður væri að ræða, með uppsagnarákvæðum, enda séu vextir af innstæðum þessum reiknaðir og færðir í bókhaldi. Telur umboðsmaðurinn, að sýna þurfi fram á það, ef ekki eigi að taka þessar eignir með í útreikningi verðbreytingarfærslu.
Í kröfugerð sinni í málinu, dags. 6. júní 1988, féllst ríkisskattstjóri á það, að umræddir séreignasjóðir séu meðal þeirra eigna, er myndi stofn til verðbreytingarfærslu, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
2. Félagsgjöld. Á aðalrekstrarreikningi fiskverkunar og útgerðar voru gjaldfærð félagsgjöld að fjárhæð 78.380 kr. Þennan gjaldalið felldi skattstjóri niður í hinum kærða úrskurði, dags. 3. júní 1987, á þeim forsendum, að ekki kæmi fram til hvaða félags eða félaga hefði verið greitt. Engin grein væri gerð fyrir þessum lið og ekki þætti Ljóst, hvort um rekstrarkostnað skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 væri að ræða. í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 29. júní 1987, er þess krafist, að gjaldaliður þessi verði tekinn til greina með vísan til ljósrita af kvittunum vegna þessa liðs, er kærunni fylgdu. í kröfugerð sinni, dags. 6. júní 1988, féllst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda varðandi þetta kæruatriði með hliðsjón af framkomnum skýringum.
3. Gjafir og styrkir. A fyrrgreindum aðalrekstrarreikningi voru gjaldfærðar gjafir og styrkir 232.562 kr. Þennan gjaldalið felldi skattstjóri niður í hinum kærða úrskurði, dags. 3. júní 1987, á þeim forsendum, að greiðslur þessar hefðu ekki verið færðar á launamiða og engar skýringar væru fyrir hendi varðandi þessa kostnaðarliði. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 29. júní 1987, er þess krafist af hálfu umboðsmanns kæranda, að þessi gjaldaliður verði tekinn til greina með vísan til gagna, er fylgdu kærunni. Í kröfugerð sinni í málinu, dags. 6. júní 1988, féllst ríkisskattstjóri á, að gjafir að fjárhæð 101.365 kr. dragist frá tekjum á grundvelli 3. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. framlagðar kvittanir.
4. Ferðakostnaður og tölvukostnaður. Á nefndum aðalrekstrarreikningi nam gjaldfærður ferðakostnaður 560.219 kr. og tölvukostnaður 669.045 kr. Þessa liði lækkaði skattstjóri um 600.000 kr. Síðarnefnda gjaldaliðinn lækkaði skattstjóri á þeim forsendum, að engin tölva væri eignfærð og aðkeypt tölvuþjónusta hefði ekki verið færð á launamiða. Varðandi fyrrnefnda gjaldaliðinn tók skattstjóri fram, að hann væri óeðlilega hár og ósundurliðaður. Í kæru segir svo um þessa liði:
„Ljósrit yfir gögn vegna „FERÐAKOSTNADUR“ og „TÖLVUKOSTNADUR“. Varðandi liðinn „tölvukostnaður", þá kom sonur framteljanda til starfa hjá fyrirtækinu á árinu 1980, átti hann Commodore-tölvu, sem hann vann á á vegum fyrirtækisins, og þar af leiðandi aldrei eignfærð, en ýmiss útgjöld vegna tölvuvinnslunar hafa verið gjaldfærð í bókum fyrirtækisins í gegnum árin, eins og venja er hjá öllum fyrirtækjum. Fskj. 1416 hefur færst á vitlausan reikning, hefði átt að færast á viðhald og rekstur tækja.“
Í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 6. júní 1988, segir svo um þessi kæruefni:
„Gerð er krafa um að þessir liðir verði felldir brott úr rekstrarreikningi kæranda enda hefur ekki verið sýnt fram á tengsl þeirra við öflun tekna hans, tryggingu þeirra eða viðhaldi. Flest bendir til þess að hér sé um einkaneyslu að ræða sem telst ekki vera rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. t.d. kostnað vegna heimsreisu með Útsýn 245.684 kr., reikning frá Flugleiðum vegna ferðar A.A. 110.460 kr., mikill kostnaður vegna blómagjafa, m.a. til sængurkonu, o.fl.“
Um 1. tl. Þrátt fyrir það, að af hendi kæranda liggi eigi fyrir alveg fullnægjandi greinargerð um umrædda séreignasjóði þykir þó með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra varðandi þetta kæruefni mega taka kröfu kæranda til greina að því er það áhrærir.
Um 2. tl. Með skírskotun til framlagðra gagna er fallist á kröfu kæranda varðandi gjaldfærð félagsgjöld þó að frádregnum 500 kr. sem er gjöf til Sjálfstæðisfélags X.fjarðar skv. málsgögnum, er eigi verður talin frádráttarbær hvorki skv. 1. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 né 3. mgr. 1. tl. sömu lagagreinar, sbr. og ákvæði reglugerðar nr. 748, frá 3. nóvember 1983, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl. Fjárhæð gjaldaliðs þessa verður því 77.880 kr.
Um 3. tl. Kærandi hefur lagt fram gögn varðandi gjaldfærðar gjafir og styrki, en engar skýringar gefið á einstökum liðum. Kæran þykir því vanreifuð af hendi kæranda og þykir því bera að vísa þessu kæruatriði frá þó að undanskildum gjaldfærðum gjöfum að fjárhæð 101.365 kr., sem þykir mega taka til greina á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra.
Um 4. tl. Skattstjóri hefur lækkað gjaldfærðan ferða- og tölvukostnað um samtals 600.000 kr. Þótt þessi lækkun skattstjóra þyki eigi svo markviss sem skyldi þá þykir rétt að láta hana að svo stöddu óhaggaða standa, þegar litið er til framlagðra gagna um gjaldaliði þessa svo og skýringa kæranda, sem eru alveg ófullnægjandi.