Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 475/1988
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 25. gr. 1. og 2. mgr. — 35. gr.
Stofnverð — Byggingarkostnaður — Kaupverð, skipting — Leigulóð — Leigulóðarréttindi — Fasteign — Gatnagerðargjöld — Fyrningargrunnur — Fasteignamatsverð — Atvinnuhúsnæði
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1987 og er kæran til ríkisskattanefndar svohljóðandi:
„EFNI: Kærð er breyting á skattframtali 1987 fyrir B. en skattstjóri lækkaði tilgreinda fyrningu fasteignar um hlutfall fasteignamats lóðar í kaupverði.
Það er venja og viðurkennt, að byggingarkostnaður fasteigna er: gatnagerðargjöld, teikningar, efni o.þ.h. Heildarfjárhæð þessi er byggingarkostnaður og því fyrningarstofn. Skattyfirvöld hafa aldrei hafnað gatnagerðargjöldum sem hluta af fyrningarstofni. Þess er því óskað að með kaupverð eignarhlutans í X-stræti verði farið eins og um kaup á hverri annarri eign, sem er á leigulóð, og að tilgreind fyrning verði að fullu viðurkennd til frádráttar tekjum.“
Með bréfi, dags. 14. júlí 1988, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Með vísan til ákvæða 2. mgr. 25. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og gagna málsins er úrskurður skattstjóra staðfestur.