Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 516/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 10. gr. 2. mgr. — 35. gr. — 38. gr. — 45. gr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml.  

Fyrning — Fyrningargrunnur — Stofnverð — Niðurlagsverð — Fyrningarhlutfall — Endurbætur — Endurbygging — Fyrning endurbótar — Skattframtal síðbúið

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1987 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal þeirra árið 1987 barst skattstjóra þann 26. júní 1987 samkvæmt áritun hans á það og tók hann það sem kæru eftir ákvæðum 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með úrskurði, dags. 16. október 1987, lagði skattstjóri hið innsenda skattframtal kærenda til grundvallar álagningu opinberra gjalda á þá að gerðum nokkrum breytingum á því. Sú breyting skattstjóra sem kærð hefur verið til ríkisskattanefndar er:

„Fyrning X kr. 13.937.770 lækkuð í kr. 1.708.564 þar sem niðurlagsverð bátsins er náð sbr. bréf skattstjóra til yðar dags. 19. júlí 1985. Viðbót á árinu 1986 kr. 17.085.636 ber að afskrifa sér og er fyrningarhlutfall 10%.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi umboðsmanns þeirra, dags. 16. nóvember 1987. Í því segir m.a.:

„Skattstjóri hefur lækkað fyrningu X um kr. 12.229.206,-. Ástæðan er sögð sú, að niðurlagsverði bátsins hafi verið náð, en viðbót á árinu 1986 eigi að afskrifa sér, um 10%. Ekki leikur vafi á að afskrifa ber af fyrningargrunni eigna sbr. 35. gr. skattal. og að allar breytingar á sömu eign eiga að færast til hækkunar á fyrningargrunni hennar sbr. sömu gr. Af þessari ástæðu er óskað eftir leiðréttingu á álögðum gjöldum, þar sem fyrning X á augljóslega að vera sú sem hún er í framtali.“

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 14. júlí 1988, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 75/1981 fjallar um áhrif verðbreytinga á stofnverð eigna, en heimilar ekki hækkun á stofnverði eigna vegna endurbóta, viðgerða eða endurbyggingar eftir að nýting er hafin. Slíkar viðbætur ber að eignfæra og afskrifa sérstaklega.“

Úrskurð skattstjóra um hið kærða atriði þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans og kröfugerðar ríkisskattstjóra í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja