Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 521/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 6. gr. — 7. gr. C-liður 1. tl. — 30. gr. 3. mgr. — 60. gr. — 65. gr.  

Sköttun barns — Barn — Skattskyldar tekjur — Afurðatekjur — Beinn kostnaður — Fóðrunarkostnaður — Afurðamiði — Tekjutímabil

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 13. nóvember 1986, boðaði skattstjóri kæranda, að honum yrðu færðar til tekna á skattframtali árið 1986 afurðatekjur 6.379 kr. skv. afurðamiða á son kæranda, A., frá kaupfélagi. Í svarbréfi kæranda, dags. 17. nóvember 1986, kvað hann sér hafa verið ókunnugt um, að sonur sinn væri fjáreigandi, en taldi fóðurkostnað jafnháan afurðatekjunum eiga koma á móti þeim. Næst gerðist það í málinu, að með bréfi, dags. 27. maí 1987, færði skattstjóri umræddar afurðatekjur á skattframtal kæranda árið 1987. Kærandi ítrekaði sjónarmið sín um frádrátt fóðrunar á móti afurðatekjunum í bréfi, dags. 24. júní 1987. Með kæruúrskurði, dags. 18. nóvember 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, þar sem engar kostnaðarnótur fylgdu kæru eða önnur gögn, er sýndu kostnað við fóðrun ærinnar.

Með kæru, dags. 1. desember 1987, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Getur hann þess, að upphaflegt tilefni aðgerða skattstjóra hafi verið afurðamiði vegna afurða 1985. Þetta hefði verið fært á skattframtal hans árið 1987. Krefst hann þess, að skattlagningin verði felld niður.

Með bréfi, dags. 11. ágúst 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að virtum málavöxtum og með hliðsjón af kröfugerð kæranda er fallist á kröfu hans.“

Krafa kæranda er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja