Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 535/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Kærufrestur — Síðbúin kæra — Póstlagningardagur kæru — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Vaxtagjöld — Leiðrétting skattframtals

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1987 og er kröfugerð umboðsmanns kærenda fyrir ríkisskattanefnd svohljóðandi:

„Þess er krafist að vaxtafrádráttur kr. 214.022 verði tekinn til greina og færður til frádráttar frá tekjum.

Vegna mistaka féll niður hjá framteljanda að færa tölur af blöðum R 3.09 yfir á bls. 4 á skattframtali. Við yfirferð starfsmanna skattstofunnar hefðu þeir átt að sjá að um augljós mistök framteljanda var að ræða og leiðrétta.“

Með úrskurði, dags. 23. október 1987, hafði skattstjóri vísað kæru kærenda dags. 28. ágúst 1987, frá þar eð hún hefði borist honum eftir lok kærufrests, sem hefði verið laugardaginn 29. ágúst 1987, en kæran hefði borist honum 2. september í bréfi póststimpluðu 31. ágúst.

Með bréfi, dags. 6. júní 1988, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kæran er tekin til efnismeðferðar og er fallist á framkomna kröfu af hálfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja