Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 536/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 3. gr. — 64. gr. 2. mgr.  

Hjón — Sköttun hjóna — Ótakmörkuð skattskylda — Takmörkuð skattskylda — Framfærslufé — Framfærslufé frá maka — Lífeyrir — Leiðrétting skattframtals

Málavextir eru þeir, að kærandi gat þess í afhugasemdadálki skattframtals síns árið 1987, að eiginmaður hennar, er væri breskur ríkisborgari, hefði starfað í Bretlandi allt árið 1986. Kvaðst kærandi hafa fengið frá honum nauðsynlegan lífeyri. Með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, að í reit 21 í skattframtali árið 1987 hefði verið fært framfærslufé, er teldist hæfilega áætlað 300.000 kr., sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981. Var álagningunni mótmælt í kæru, dags. 28. ágúst 1987. Með kæruúrskurði, dags. 30. nóvember 1987, ákvað skattstjóri að álögð opinber gjöld gjaldárið 1987 skyldu óbreytt standa.

Með kæru, dags. 21. desember 1987, skaut umboðsmaður kæranda kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krafðist niðurfellingar á tekjuviðbót skattstjóra. Fylgdi kærunni ljósrit af skuldabréfi að fjárhæð 1.138.144 kr., er láðst hefði að geta á framtalinu. Frekari rökstuðningur var lagður fram í bréfi, dags. 8. júlí 1988.

Með bréfum, dags. 27. júní og 28. júlí 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Eins og málsmeðferð skattstjóra var háttað og að virtum málsatvikum að öðru leyti er tekjuviðbót skattstjóra niður felld.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja