Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 537/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 77. gr. — 99. gr. 1. mgr. — 106. gr. 1. og 3. mgr.  

Skattframtal síðbúið — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Eignarskattsstofn — Sameignarfélag — Stofnfé — Nafnskráð stofnfé — Eignarskattsákvörðun — Rökstuðningur — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Vítaleysisástæður

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1987. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæru, dags. 7. ágúst 1987, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningunni og boðaði, að nánari greinargerð yrði send síðar. Með bréfi, dags. 28. október 1987, sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans árið 1987 til skattstjóra og fór fram á, að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987. Með kæruúrskurði, dags. 30. október 1987, féllst skattstjóri á kröfu kæranda með eftirgreindum breytingum, sem kærðar hafa verið til ríkisskattanefndar:

1. Hækkun eignarskattsstofns. Skattstjóri hækkaði eignarskattsstofn í hinum kærða úrskurði um 124.100 kr. á þeim forsendum, að stofnfé hefði verið dregið frá eignum, en kærandi er sameignarfélag. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 24. nóvember 1987, fer umboðsmaður kæranda fram á, að þessari breytingu verði hnekkt með vísan til 77. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

2. Álag á skattstofna. Skattstjóri bætti 25% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda hefðu engar skýringar verið gefnar á þeim drætti, sem varð á framtalsskilunum af hálfu kæranda. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 24. nóvember 1987, fer umboðsmaður kæranda fram á, að álagið verði fellt niður, þar sem kæranda sé ekki um það að kenna, að framtalsskilin drógust. Því hafi valdið atvik, er varði umboðsmanninn, sem annast hafi framtalsgerðina, erfiðleikar í starfsmannahaldi hans, sem nánar er lýst, og starfsálag á skrifstofu hans.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„1. Fallist er á fyrri kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum gögnum og með vísan til 77. gr. laga nr. 75/1981.

2. Varðandi kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við er ítrekuð krafan um að hið kærða álag standi óhaggað.“

Um 1. tl. Krafa kæranda er tekin til greina um þetta kæruatriði með vísan til 77. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 2. tl. Hin kærða álagsbeiting þykir eigi nægilega rökstudd af hendi skattstjóra í hinum kærða úrskurði. M.a. eru fyrri framtalsskil kæranda ekkert reifuð þar og eigi heldur af hálfu ríkisskattstjóra í kröfugerð hans í málinu. Af fyrirliggjandi gögnum verður það eitt ráðið um þetta atriði, að skattframtal kæranda árið 1986 hafi verið síðbúið. Að þessu athuguðu er hið kærða álag niður fellt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja