Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 540/1988
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 91. gr. — 100. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr. Lög nr. 73/1980 — 36. gr. — 37. gr. 4. mgr.
Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsskyld starfsemi — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Verslun — Útgáfustarfsemi — Trúfélag — Firmaskrá — Firmatilkynning — Atvinnurekstur — Aðstöðugjaldsstofn — Framtalsskylda — Skattskylda — Kærufrestur — Kæruheimild ríkisskattstjóra
I
Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 áætlaði skattstjóri kæranda, sem er trúfélag manna utan þjóðkirkjunnar, sbr. lög nr. 18/1975, gjaldstofn til álagningar aðstöðugjalds að viðbættu 25% álagi skv. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hvorki lá fyrir skattframtal árið 1987 frá kæranda né aðstöðugjaldsgreinargerð, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Af vinnugagni skattstjóra er liggur fyrir í málinu, verður ráðið, að aðstöðugjald hafi verið lagt á vegna verslunar- og útgáfustarfsemi kæranda.
Með kæru, dags. 26. ágúst 1987, var aðstöðugjaldsálagningunni mótmælt af hálfu kæranda með þeim rökum, að ekki væri um aðstöðugjaldsskyldu að ræða, þar sem enginn atvinnurekstur væri stundaður heldur einungis kirkjuleg starfsemi.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 19. október 1987. Þar vísar skattstjóri til þess, að samkvæmt tilkynningum til Firmaskrár Reykjavíkur, dags. 1. september 1986, reki kærandi í Reykjavík annars vegar verslun og hins vegar bókaforlag. Tilgangur starfsemi þessarar sé annars vegar verslun með bækur, hljóðritanir, myndefni, gjafavörur, kennslugögn o.fl. og hins vegar hvers konar útgáfustarfsemi. Samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, séu félög, sjóðir og stofnanir, er um ræðir í 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, undanþegin aðstöðugjaldsskyldu að því marki, sem þau reki ekki atvinnu. Nefnd starfsemi kæranda sé ekki undanþegin aðstöðugjaldsskyldu, þ.e.a.s. kærandi teljist reka atvinnu. Samkvæmt þessu hafnaði skattstjóri kröfu kæranda en lækkaði stofn til aðstöðugjaldsins úr 5.000.000 kr. í 300.000 kr. með hliðsjón af söluskattsskýrslum. Skattstjóri bætti sem áður 25% álagi á stofninn.
II
Með bréfi, dags. 19. nóvember 1987, til skattstjóra voru af hálfu kæranda gerðar athugasemdir við aðstöðugjaldsálagninguna. Bréf þetta framsendi skattstjóri til ríkisskattanefndar sem kæru til nefndarinnar. í bréfinu segir svo:
„Með bréfi þessu vil ég gera smá athugasemd við bréf yðar en hún er sú að bókaforlagið og verslunin er sjálfstæð eining og ber sitt eigið nafnnúmer og greiðir öll þau gjöld og skatta sem á það er lagt, en hins vegar ekki söfnuðurinn, því að hann annast eingöngu kirkjulega starfsemi.
Hins vegar hef ég athugað hvernig þessu er háttað hjá hliðstæðum aðilum og fékk ég þá uppgefið að hjá þeim eru ekki greidd aðstöðugjöld. Því spyr ég því greiða sumir en ekki allir ? Beri forlagi okkar hins vegar að greiða þetta umrædda gjald þá veit ég að þeir munu ekki skorast undan því, en þeim upplýsingum ber þá að koma til þeirra.“
III
Með bréfi, dags. 28. júlí 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 18. nóvember 1987. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.
Telji ríkisskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan meintan formgalla er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
IV
Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnismeðferðar. Samkvæmt tilkynningum til Firmaskrár Reykjavíkur, dags. 1. september 1986, rekur kærandi, sem er trúfélag, fyrrgreind tvö verslunar- og útgáfufyrirtæki, sbr. gögn málsins, þ.á m. ársyfirlit sölugjalds árið 1986. Samkvæmt þeim yfirlitum nam heildarvelta kæranda árið 1986 vegna myndbandaleigu, bókabúðar og gjafavara alls 335.562 kr. tilgreint fyrir desember 1986. Heildarvelta bókaforlags samkvæmt ársyfirliti sölugjalds 1986 nam 6.353.674 kr. er skiptist á öll söluskattstímabil ársins. Þá liggja fyrir veltutölur forlags þessa samkvæmt ársyfirlitum sölugjalds fyrir árin 1984 og 1985. Af hálfu kæranda var skattframtali árið 1987 eigi skilað og hefur kærandi eigi verið krafinn um það, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá liggja hvorki fyrir ársreikningar né greinargerð um aðstöðugjaldsstofn af hendi kæranda. Hið umdeilda aðstöðugjald byggist á áætlun skattstjóra eins og fram hefur komið. Eins og málið liggur fyrir verður í úrskurði þessum einungis fjallað um þá skattlagningu. Kærandi mótmælir aðstöðugjaldsálagningunni annars vegar með þeim rökum að hún beinist að röngum aðila og hins vegar á þeim grundvelli að enginn atvinnurekstur sé stundaður heldur einvörðungu kirkjuleg starfsemi. Með skírskotun til fyrrnefndra tilkynninga til Firmaskrár Reykjavíkur er eigi fallist á fyrstnefndu málsástæðuna. Í ljósi sömu tilkynningar og málsgagna að öðru leyti þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á neitt það, er leyst geti hann undan aðstöðugjaldsskyldu vegna nefndrar starfsemi, skv. 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Kærandi hefur enga grein gert fyrir aðstöðugjaldsstofni af sinni hálfu. Eins og fyrr segir lækkaði skattstjóri hinn áætlaða aðstöðugjaldsstofn verulega í hinum kærða úrskurði, dags. 19. október 1987, með hliðsjón af söluskattsskýrslum kæranda fyrir árið 1986. Eigi verður séð, að gögn þessi gæfu tilefni til þessarar lækkunar. Með því að ríkisskattstjóri hefur hvorki neytt heimildar 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 til þess að kæra til hækkunar né gert kröfu um hækkun í þessu máli þykir verða að láta við ákvörðun skattstjóra sitja að svo stöddu, en vísa kærunni frá ríkisskattanefnd.