Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 567/1988
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. og 2. mgr. og B-liður — 96. gr.
Skattframtal tortryggilegt — Vefenging skattframtals — Skattframtal ófullnægjandi — Framfærslueyrir — Áætlun skattstjóra — Reiknað endurgjald — Leiðrétting skattframtals — Sönnun — Sjálfstæð starfsemi — Húsnæðishlunnindi
Málavextir eru þeir, að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 sættu kærendur áætlun skattstjóra á gjaldstofnum með því að þeir höfðu ekki talið fram til skatts. Með kæru, dags. 9. ágúst 1987, sendi umboðsmaður kærenda skattstjóra skattframtal árið 1987 og fór fram á að það yrði lagt til grundvallar álagningu gjalda í stað áætlunar áður og án álags. Með úrskurði, dags. 29. október 1987, hafnaði skattstjóri þessari kröfu af svofelldum ástæðum: „Þegar tekið er tillit til tekna, gjalda og eignabreytinga sem fram koma á skattframtali árið 1987 og ársreikningi vegna ársins 1986, sbr. skattframtal gjaldársins 1986, kemur í ljós að lífeyrir til framfærslu fjögurra manna fjölskyldu nemur innan við 60.000 krónum sem ekki fær staðist.“ Hins vegar féllst skattstjóri á að lækka áður gerðar áætlanir sínar með tilliti til innsendra gagna.
Með bréfi, dags. 13. nóvember 1987, hefur umboðsmaður kærenda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer fram á að fallið verði frá ákvörðun skattstjóra og framtal kærenda lagt til grundvallar nýrri álagningu. Vegna þeirrar ástæðu, er leiddi til höfnunar skattstjóra á framtalinu sem álagningargrundvelli, tekur umboðsmaður kærenda fram eftirfarandi: „Meðf. er ljósrit af úrskurði Skattstofu þar sem fram kemur að skattframtali ofangreindra aðila var hafnað þar sem lífeyrir til framfærslu var ekki nægur samkv. framtali. Af vangáningi láðist að geta námslána sem A. fékk á tekjuárinu 1986 skv. meðf. greinarg. frá Lánasjóði ísl. námsmanna, rúmlega 200.000,00. Auk þessa hafði B. tekjur sem „dagmamma“ skv. meðf. greinargerð frá Félagsmálastofnun, kr. 238.032,00.“
Með bréfi, dags. 27. júní 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra. Að vísu eru sendar með kæru upplýsingar um tekjur og lántökur kærenda en þær verða að teljast ófullnægjandi þar sem ekki er gerð grein fyrir tekjum þeim sem kærandi B. hafði sem dagmamma, nema hvað vísað er til gjaldskrár samtaka daggæslukvenna og reiknað með 3 börnum í fullri gæslu. Hér er um að ræða sjálfstæða starfsemi kæranda og ber honum að skila inn rekstursreikningi vegna þessa svo og að reikna sér laun vegna starfs síns, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Þá þykir rétt að benda á að ekki verður séð að kærendur greiði neina húsaleigu og ekki telja þau sér til tekna hlunnindi vegna húsnæðis sem þeim er þó skylt að gera.“
Með vísan til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra þykir bera að vísa kærunni frá að svo stöddu.