Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 569/1988
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.
Vaxtagjöld — Afföll — Íbúðarlán — Vaxtafrádráttur — Byggingaréttur — Húsbygging
Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að leyfa kærendum ekki til frádráttar tekjum í skattframtali þeirra árið 1986 vaxtagjöld af tilgreindum skuldum og afföll af seldum verðbréfum. Taldi skattstjóri gjöld þessi ekki frádráttarbær skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Kærendur hafa mótmælt þessari ákvörðun skattstjóra og krefjast þess aðallega að hún verði felld niður en til vara verulegrar hækkunar vaxtafrádráttar frá því sem skattstjóri ákvað. Benda kærendur m.a. á kröfum sínum til stuðnings að þau hefðu fengið úthlutaðan byggingarétt fyrir einbýlishúsi þann 10. september 1984, greitt gatnagerðargjöld, látið teikna hús og gera verkfræðiteikningar o.fl., en gefist upp og skilað byggingaréttinum þann 21. mars 1985. Vegna þessara húsbyggingartilrauna hefði hin umræddu lánsviðskipti stafað.
Með bréfi, dags. 21. september 1988, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Kærendur þykja eigi hafa sýnt fram á að þeim beri hinn umkrafði frádráttur samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Er því úrskurður skattstjóra staðfestur.