Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 570/1988
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 106. gr. 2. og 3. mgr.
Vantaldar tekjur — Launatekjur — Launamiði — Álag á vantalinn skattstofn — Vítaleysisástæður
Málavextir eru þeir, að skattstjóri reit kæranda bréf, dags. 5. nóvember 1987, þar sem segir
m.a.:
„Samkvæmt launamiða árið 1987 — launagreiðslur 1986 — frá A h.f., hafið þér fengið greidd laun kr. 58.940,-, en þessara launatekna er ekki getið á skattframtali yðar.
Rökstuddar skýringar óskast.
Athygli er vakin á því að, ef um er að ræða vantaldar tekjur, hefur skattstjóri í hyggju að færa þær til tekna á skattframtal yðar 1987, að viðbættu 25% álagi skv. 106. gr. laga nr. 75/1981, og endurákvarða opinber gjöld í framhaldi af því.“
Þá var óskað eftir, að skriflegt svar ásamt gögnum kæmi innan 10 daga frá dagsetningu fyrirspurnarbréfsins.
Með bréfi skattstjóra, dags. 7. desember 1987, var tilkynnt, að þar eð svar hefði ekki borist við ofangreindu bréfi frá 5. nóvember, hefðu tekjur verið hækkaðar um launagreiðslu frá A h.f. kr. 58.940. Jafnframt var bætt 25% álagi á tekjuhækkun skv. 106. gr. laga nr. 75/1981.
Í kæru til skattstjóra, dags. 22. desember 1987, fór umboðsmaður kæranda þess á leit, að ofangreint álag yrði fellt niður, og segir þar m.a.:
„Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum féllu niður af skattframtali umbj. m. 1987 þessi laun frá A h.f. Á þessu er í sjálfu sér engin skýring nema, ef vera kynni, að launin hafi fallið niður við vélritun. Uppkast að framtalinu er ekki lengur til staðar og því eigi unnt að staðreyna þetta.“
Með úrskurði, uppkveðnum 21. mars 1988, féllst skattstjóri ekki á kröfu kæranda, þar eð ekki hefði verið sýnt fram á, að þær ástæður hefðu legið fyrir, er leiddu til þess að fella bæri niður álag samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.
Umboðsmaður kæranda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 20. apríl 1988, og kemur þar m.a. fram:
„Umbj. m. telur, að laun sín frá A h.f. hafi vegna mistaka við vélritun skattframtalsins 1987 fallið niður. Launamiði frá fyrirtækinu var til staðar, þegar framtalið var fært í letur.
Um ásetningsbrot er því ekki að ræða, heldur mannleg mistök. Því fer umbj. m. fram á það, að viðurlög verði felld niður.“
Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 14. júlí 1988, lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:
„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á, að tilvik kæranda sé þess eðlis, að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geti átt við.“
Úrskurður skattstjóra er staðfestur, enda þykir kærandi eigi hafa gefið fullnægjandi skýringar á því, að umræddar tekjur voru eigi taldar fram í skattframtali 1987.