Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 591/1988
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 28. gr. 2. tl.
Örorkubætur — Miskabætur — Varanleg örorka — Skattskyldar tekjur — Eingreiðsla — Eignaauki skattfrjáls — Skattfrjáls eignaauki — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Vinnuslys — Slysabætur
Með úrskurði, dags. 15. maí 1987, vísaði ríkisskattanefnd frá að svo stöddu kæru kæranda, dags. 11. febrúar 1987, út af álagningu opinberra gjalda á hann gjaldárið 1986 þar eð boðaður rökstuðningur hafði eigi borist.
Með bréfi, dags. 1. desember 1987, fer umboðsmaður kæranda fram á, að úrskurðurinn frá 15. maí 1987 verði endurupptekinn. í bréfinu gerir umboðsmaðurinn m.a. svofellda grein fyrir málinu:
„Í framtali umbj.m. árið 1986 er framtalið undir liðnum „eignabreytingar“ að umbj.m. hafi lent í umferðarslysi í árslok 1984, en hann varð fyrir vörulyftara á athafnasvæði A. h.f. og varð af þeim sökum óvinnufær stóran hluta framtalsársins.
Bætur þær sem umbj.m. hlaut úr ábyrgðatryggingu vörulyftarans frá Almennum tryggingum h.f. voru vegna varanlegrar örorku (18%) svo og fyrir miska. Bætur voru ákvarðaðar sem eingreiðsla og lækkaðar vegna skattahagræðis. Með vísan til 2. mgr. 28. gr. 1. nr. 75/1981 teljast bætur þessar ekki til tekna.“ Bréfi sínu lætur umboðsmaðurinn fylgja m.a. eftirtalin gögn: Ljósrit af lögregluskýrslu með fylgiskj. Læknisvottorð, dags. 6. júní 1985. Örorkumat, dags. 24. október 1985. Þá hefur vegna þessa máls borist staðfesting, dags. 12. september 1988, frá Almennum tryggingum hf. þess efnis, að kærandi hafi fengið greiddar slysabætur, eingreiðslu, að fjárhæð 963.195 kr. frá því félagi vegna slyss þess er um ræðir í máli þessu.
Í lok bréf síns til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaðurinn þá kröfu, að úrskurði skattstjóra verði hrundið og skattframtal umbjóðanda síns verði lagt til grundvallar álagningu með áorðinni leiðréttingu.
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 21. september 1988, gert svofelldar kröfur í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:
„Í nefndum úrskurði var kæru ofangreinds aðila vísað frá ríkisskattanefnd þar sem áður boðaður rökstuðningur hafði ekki borist. Nú hefur verið bætt úr því með bréfi sem barst nefndinni þann 1. des. 1987.
Í tilefni af framkomnum viðbótarrökstuðningi fellst ríkisskattstjóri á að áðurnefndur úrskurður verði endurupptekinn og með hliðsjón af framlögðum gögnum og með vísan til 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981 er fallist á kröfu beiðanda.“
Fallist er á beiðni um endurupptöku úrskurðar ríkisskattanefndar frá 15. maí 1987. Krafa kæranda um, að slysabætur að fjárhæð 963.195 kr. verði ekki taldar til tekna á skattframtali hans árið 1986, er tekin til greina með vísun til 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.