Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 604/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. og 2. mgr. og B-liður — 23. gr. — 31. gr. 1. tl. — 95. gr. — 96. gr. — 100. gr. 8. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Áætlun — Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Launatekjur — Atvinnurekstrartekjur — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Launþegi — Launauppgjöf — Vátryggingaumboð — Framsending til skattstjóra — Framsending — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Umboðssala — Umboðsstarfsemi — Rekstrarkostnaður — Fyrning — Fyrnanleg eign — Sölutap — Reiknað endurgjald — Rekstrartap — Skattframtal tortryggilegt — Skattframtal vefenging — Vefenging skattframtals

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1987. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæru, dags. 27. ágúst 1987, barst skattstjóra skattframtal kæranda og eiginkonu hans árið 1987, dagsett sama dag. Var farið fram á, að álagi vegna síðbúinna framtalsskila yrði ekki beitt.

Með kæruúrskurðum, dags. 29. október 1987, féllst skattstjóri á að byggja á tekjuframtali eiginkonu kæranda án álags vegna síðbúinna framtalsskila, en hafnaði framtalsskilum kæranda sjálfs. Framtalinu hafði fylgt ársreikningur kæranda fyrir árið 1986 vegna rekstrar umboðs fyrir A og B. Skattstjóri benti á, að tekjur á rekstrarreikningi væru eingöngu tekjur frá vátryggingafélögum þessum samtals að fjárhæð 1.043.187 kr., en tekjur þessar væru launatekjur samkvæmt kaupuppgjöf greiðenda. Umboðsmaður kæranda hefði með bréfi, dags. 20. október 1987, sent ljósrit af óundirrituðu og ódagsettu skjali, er í yfirskrift væri nefnt samningur (þ.e. milli kæranda og A). Með því að ekki yrði séð, að skjal þetta væri undirritað, breytti það engu um launauppgjöf A. Með vísan til þessa yrði ekki annað séð en kærandi tæki laun sem launamaður skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 en ekki sem atvinnurekandi. Skv. því væru honum færðar til tekna 1.043.187 kr. sem laun í reit 21 í framtalinu. Þá væri 15% álagi bætt við skattstofna skv. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 1987, sendi kærandi skattstjóra ljósrit af þeim samningi, sem fyrr greinir, undirrituðum og dagsettum 12. janúar 1985. Fór hann jafnframt fram á, að skattálagning yrði endurskoðuð í samræmi við samninginn. Með bréfi, dags. 1. desember 1987, hefur skattstjóri framsent ríkisskattanefnd bréf þetta með nefndu fylgigagni þess, þar sem það hafi borist í kærufresti til nefndarinnar.

Með bréfi, dags. 11. ágúst 1988, gerir ríkiskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum gögnum er fallist á kröfu kæranda að telja fram sem sjálfstæður rekstraraðili en jafnframt er þess krafist að nefndin neyti heimilda skv. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 og sendi skattstjóra framtal kæranda til meðferðar og álagningar að lögum.“

Kærandi hefur lagt fram ljósrit af undirrituðum og dagsettum samningi við A um þau umboðsstörf, sem í málinu greinir. Með hliðsjón af samningi þessum svo og úrskurði ríkisskattanefndar nr. 472, 8. september 1988, út af aðstöðugjaldsálagningu á A á X-firði og gagna í því máli þykir bera að fallast á það með kæranda, að þetta starf hans teljist sjálfstæð starfsemi svo sem kærandi byggði á í skattskilum sínum, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu. Við meðferð skattframtalsins í kæruúrskurði sínum, dags. 29. október 1987, byggði skattstjóri hins vegar á því, að um launatekjur væri að ræða svo sem fram hefur komið og gerði þær breytingar, sem af þeirri niðurstöðu leiddi. Hefur skattframtalið því sætt efnisúrlausn af hendi skattstjóra og verður því eigi talið, að ákvæði 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi hér við svo sem ríkisskattstjóri álítur í kröfugerð sinni í málinu. Þar greindrar heimildar verður því eigi neytt. Skv. rekstrarreikningi fyrir árið 1986 vegna nefndrar umboðsstarfsemi kæranda nema rekstrartekjur 1.043.187 kr. Rekstrargjöld nema 1.372.657 kr., þ.á m. bifreiðakostnaður 518.000 kr. að meðtalinni fyrningu jeppabifreiðar, sem færð er í efnahagsreikningi sem fyrnanleg eign, er eigi verður séð að fái staðist. Auk þessa nemur ferða- og viðskiptakostnaður 87.230 kr. Þá gjaldfærði kærandi tap 237.059 kr. af sölu annarrar jeppabifreiðar, er færð hafði verið sem fyrnanleg eign í ársreikningi. Gjaldfærð laun á rekstrarreikningi nema 123.940 kr. en ekkert reiknað endurgjald var tilfært af hendi kæranda og reyndar engar tekjur tilgreindar í tekjuhlið skattframtals hans. Skv. framansögðu nam tap af rekstri nefnds umboðs kæranda 566.529 kr. Þessi skattskil kæranda þykja með þeim ólíkindum í heild sinni og einstökum atriðum, að skattlagning verður eigi byggð á þeim óbreyttum og án nánari skýringa. Að þessu virtu og svo sem mál þetta liggur fyrir þykir bera að vísa kærunni frá. Að svo stöddu verður byggt á þeim skattstofnum, sem skattstjóri ákvað þó þannig að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, er niður fellt, enda var álagið ranglega ákvarðað 15%, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, og skattstjóri hefur sjálfur fallið frá beitingu álags í tilviki eiginkonu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja