Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 639/1988
Gjaldár 1984,1985 og 1986
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður og C-liður 2. tl. — 30. gr. 3. mgr. — 99. gr. — 100. gr.
Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði — Eignatekjur — Kærufrestur — Frávísun vegna síðbúinnar kæru.
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárin 1984, 1985 og 1986. í efnissök snýst mál þetta um það hvort kærandi hafi leigt íbúðarhúsnæði að A á árinu 1983 með þeim hætti að sú útleiga hafi talist til atvinnurekstrar hans og m.a. meðferð skattskylds söluhagnaðar vegna sölu þeirrar eignar á því ári. Fullyrðir kærandi að um atvinnurekstur hafi verið að ræða og bendir í því sambandi á útleigu annarra eigna sinna. Skattstjóri hefur ekki viljað fallast á þá skoðun kæranda og vitnaði í því sambandi til ákvæðis lokamálsgreinar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, svo og fyrri framtalshátta kæranda varðandi umrædda eign. Vegna framangreindra gjaldára hefur skattstjóri kveðið upp þrjá kæruúrskurði sem öllum hefur verið skotið til ríkisskattanefndar.
Með bréfi, dags. 22. október 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málum þessum fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„1. Varðandi kæru á úrskurði skattstjóra dags. 25. feb. 1987 og varðaði gjaldár 1984 er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa engin þau gögn eða málsástæður borist sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
Rétt er að vekja athygli á misritun í úrskurði skattstjóra, að úrskurður hans er sagður kveðinn upp þann 16. janúar 1987, hið rétta er að úrskurðurinn er frá 30. jan.
2. Varðandi kæru á frávísunarúrskurði skattstjóra dags. 25. feb. 1987 og varðaði gjaldár 1985 er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda verður ekki talið að umboðsmaður kæranda hafi sýnt fram á að honum hafi ekki verið unnt að kæra innan tilskilins frests þótt úrskurður skattstjóra um gjaldár 1984 hafi ekki gengið fyrr en 30. jan. 1987.
Rétt er að vekja athygli á misritun í úrskurði skattstjóra; þar er sagt að kærður sé úrskurður skattstjóra dags. 16. jan. 1987 vegna skattframtals 1984, rétt mun vera að úrskurðurinn varðaði skattframtal 1985.
3. Þá er í kæru dagsettri 19. febrúar 1987, móttekinni hjá ríkisskattanefnd þann 20. feb., kærður úrskurður skattstjóra frá 16. janúar 1987. Þar sem kæran verður að teljast of seint fram komin, kærufrestur rann út 15. feb. 1987, er þess krafist að henni verði vísað frá ríkisskattanefnd.“
Ekki er á það fallist að rekstur og útleiga hinnar seldu fasteignar geti talist atvinnurekstur í skilningi laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærunni er því hafnað.