Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 642/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 49/1985   Lög nr. 75/1981 — 68. gr. 1. mgr. — 99. gr. 1. mgr.  

Skattafsláttur — Skattafsláttur vegna húsnæðissparnaðar — Húsnæðissparnaður — Húsnæðissparnaðarreikningur — Bundinn reikningur — Innlegg á húsnæðissparnaðarreikning — Innlánsstofnun — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Sönnun — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að kærandi færði innlegg að fjárhæð 160.000 kr. á húsnæðissparnaðarreikning í reit 90 í skattframtali sínu árið 1987, sbr. lög nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga. Í kæru, dags. 28. ágúst 1987, kvað umboðsmaður kæranda skattafslátt vegna húsnæðissparnaðar að fjárhæð 40.000 kr. hafa fallið niður við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987. Innlegg á húsnæðissparnaðarreikning við banka hefði numið 160.000 kr. á árinu 1986. Með bréfi, dags. 21. október 1987, krafði skattstjóri kæranda annars vegar um ljósrit (eða jafngild gögn) af samningi við innlánsstofnun, þar sem fram kæmi, hvert heildarsparifé skyldi vera á árinu 1986 og hvernig skyldi greiðast, og hins vegar um yfirlit frá innlánsstofnun um hreyfingar reiknings (innborganir, útborganir, vexti og verðbætur) á árinu 1986 svo og stöðu reiknings í árslok 1986. Tók skattstjóri fram, að nauðsynlegt væri að fram kæmi um hvers konar reikning væri að ræða þannig að séð yrði, að reikningurinn uppfyllti skilyrði laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, við hvaða innlánsstofnun og útibú reikningurinn væri og númer hans, hvenær og hversu mikið hefði verið lagt inn á reikninginn á árinu og hver fjárhæð bundinnar innstæðu hefði verið um áramót. Umboðsmaður kæranda svaraði með bréfi, dags. 7. nóvember 1987, og vísaði til aðalútibús bankans um umkrafðar upplýsingar, sbr. 4. gr. laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, þar sem segði, að bankar eða sparisjóðir skyldu ótilkvaddir afhenda skattstjórum slíkar upplýsingar.

Með kæruúrskurði, dags. 24. nóvember 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Skattstjóri byggði á því, að umbeðnar upplýsingar hefðu ekki verið lagðar fram af hálfu kæranda og væri kæran því hvorki nægilega studd rökum né gögnum, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá tók skattstjóri fram, að ljóst virtist vera, að tegund þess bankareiknings, sem lagt hefði verið inn á, þ.e.a.s. „húsnæðisveltureikningur“ banka, væri önnur tegund innlánsreiknings en húsnæðissparnaðarreikningur og uppfyllti því ekki skilyrði laga nr. 49/1985 um slíka reikninga. Þætti því ljóst, að kærandi ætti ekki rétt á umræddum skattafslætti. í kæruúrskurðinum rakti skattstjóri skilyrði laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, varðandi umrædda reikninga, þannig að skattafsláttur skv. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, gæti reiknast vegna húsnæðissparnaðarins.

Með kæru, dags. 21. desember 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krefst umboðsmaðurinn þess, að kæranda verði reiknaður skattafsláttur vegna nefnds húsnæðissparnaðar. Umboðsmaðurinn mótmælir því, að heiti reiknings kæranda við bankann ráði úrslitum í þessum efnum. Meginmáli skipti, að reikningurinn uppfylli skilyrði laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga. Fyrir liggi, að kærandi hafi stofnað reikning við bankann í september 1985 m.a. með umræddan skattafslátt í huga. Hann hefði síðan lagt reglulega inn á reikninginn, fyrst 30.000 kr. ársfjórðungslega, síðan kr. 40.000 ársfjórðungslega árið 1986 eftir að hafa tilkynnt bankanum símleiðis þann 20. janúar 1986 um breytt sparnaðaráform. Kærandi hefði því uppfyllt öll skilyrði laga fyrir umræddum skattafslætti. Kærunni fylgdi ljósrit stofnsamnings umrædds bankareiknings og ljósrit yfirlits yfir hreyfingar og stöðu reikningsins árið 1986.

Með bréfi, dags. 1. nóvember 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda: „Með hliðsjón af framkomnum gögnum og skýringum er fallist á kröfu kæranda.“

Kærandi færði í framtal sitt árið 1987 innlegg á húsnæðissparnaðarreikning á tilskilinn hátt. Við frumálagningu var kæranda eigi reiknaður skattafsláttur vegna þessa húsnæðissparnaðar án þess þó, að honum hefði nein grein verið gerð fyrir breytingu á framtalinu. Þessi málsmeðferð skattstjóra fær eigi staðist. Með vísan til þessa svo og kröfugerða aðila í efnissök málsins er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja