Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 611/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr. 5. mgr.  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Arfur — Íbúðarhúsnæði, ósamþykkt — Eignarhluti í íbúð — Fasteign — Fasteign, sérstök — Eignaskiptasamningur — Fjölbýlishús

Málavextir eru þeir, að kærendur sóttu um húsnæðisbætur til skattstjóra á sérstökum eyðublöðum RSK 3.14, dags.5. febrúar 1989, sem fylgdu skattframtali kærenda 1989.

Með bréfum, dags. 26. júlí 1989, synjaði skattstjóri kærendum um húsnæðisbætur og kemur þar m.a. fram:

„Með vísan til C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og reglugerðar nr. 76/1988, með síðari breytingum, tilkynnist yður eftirfarandi:

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fram koma í umsókn yðar um húsnæðisbætur, sbr. og skattframtöl yðar, þá eigið þér ekki rétt á húsnæðisbótum álagningarárið 1988 skv. tilgreindum ákvæðum laga og reglugerðar.

Málavextir eru þeir að fasteign sú er umsókn yðar varðar, þ.e. A telst ekki vera fyrsta íbúð yðar í skilningi tilgreindra ákvæða laga og reglugerðar, þar sem þér hafið átt B frá árinu 1980 og eigið enn.“

Synjun skattstjóra á húsnæðisbótum var kærð með bréfi, dags. 26. ágúst 1989. Þar segir m.a. að umsókn kærenda um húsnæðisbætur varði íbúð kærenda að A, sem sé hin fyrsta, sem kærendur hafi keypt til eigin nota. Ekki sé hægt að líta svo á, að „íbúðarhúsnæði“ að B sé fyrsta íbúðarhúsnæði kærenda. Hluti B sé fyrirframgreiddur arfur til kæranda, X, sem hann hafi ekki haft nein umráð yfir. Þá sé hér um að ræða 64 m2 tvískipt ris, sem aldrei hafi fengist samþykkt sem íbúðarhúsnæði og því ekki lánshæft hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Þessi hluti B hafi því aldrei fengist viðurkenndur sem íbúðarhúsnæði af opinberum aðilum. Opinberir aðilar geti ekki annars vegar viðurkennt ofangreint ris sem íbúðarhúsnæði þegar þeim henti, þ.e. Skattstofa Reykjavíkur, en hins vegar neitað um samþykki þess sem íbúðarhúsnæði, þ.e. Húsnæðisstofnun ríkisins.

Með úrskurði, uppkveðnum 28. september 1989, synjaði skattstjóri kærunni, og segir þar m.a.:

„Samkvæmt 69. gr. C-lið laga nr. 75/1981, sbr. 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 76/1988, með síðari breytingum, telst íbúð sem maður eignast fyrir arf ekki hans fyrsta íbúð ef eignarhluti hans í íbúðinni er innan við 34%. Þar eð þér eignist 100% í B fyrir arf, þá telst sú íbúð yðar fyrsta íbúð skv. skilningi laganna, og ekki skiptir það máli þótt um ósamþykkta íbúð sé að ræða.“

Kærendur hafa skotið máli þessu til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. október 1989. Kemur þar m.a. fram, að kærendur töldu eignarhlut sinn í B vera innan við 34%. B hafi á sínum tíma verið byggt sem einbýlishús, en síðan verið skipt upp í fleiri íbúðir. Væri húsið samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins 273,7 m2 sem skiptust þannig: Kjallari 96,2 m2, hæð 113,5 m2 og tvískipt ris 27,0 m2 og 37,0 m2. Kærendur gerðu þá kröfu með vísan til tilvitnaðra laga og reglugerðar í úrskurði skattstjóra, dags. 28. september 1989, að úrskurður skattstjóra yrði endurskoðaður og kærendum greiddar húsnæðisbætur.

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 27. apríl 1990, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Hinn kærða úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja