Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 680/1988
Gjaldár 1987
Lög nr. 73/1980 — 37. gr. 4. mgr. Lög nr. 75/1981 — 106. gr. 1. mgr. Lög nr. 48/1975 Lög nr. 68/1967
Iðnlánasjóðsgjald — Iðnaðarmálagjald — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Álag — Aðstöðugjaldsstofn — Iðnlánasjóðsgjaldsstofn — Álagsheimild — Álagsbeiting skattstjóra
Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1987 féll niður álagning aðstöðugjalds og álagning iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds. Að undangengnum bréfaskriftum skattstjóra, til kæranda og svarbréfum umboðsmanns kæranda, tilkynnti skattstjóri með bréfi, dags. 6. nóvember 1987, um álagningu aðstöðugjalds, iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds nefnt gjaldár. Í bréfi skattstjóra segir m.a.:
„Beitt er 25% álagi á stofn til álagningar iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds, svo sem boðað var í bréfi skattstjóra. Af hálfu skattstjóra þykir ekki ástæða til þess að falla frá álagi samkv. 106. gr. laga, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem ekki var gerð grein fyrir þessum stofni, enda þótt viðurkennt sé nú í bréfi umboðsmanns, að gjaldstofn eigi að vera sá sami og til aðstöðugjalds.“
Álagning iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds nefnt gjaldár var kærð til skattstjóra með bréfi umboðsmanns hans, dags. 3. desember 1987. Var sú krafa gerð að þessi gjöld yrðu lækkuð um 24.060 kr. eða sem samsvari 25% álagi á gjaldstofninn. Færði umboðsmaðurinn m.a. svofelld rök fyrir kröfu sinni:
„Í greinargerð um aðstöðugjaldsstofn árið 1987 sem fylgdi skattframtali félagsins kemur fram að starfsemi félagsins er iðnaður. Í ársreikningi kemur auk þess fram, að aðstöðugjald ásamt iðnaðargjöldum eru reiknuð og færð í ársreikninginn nú eins og undanfarin ár. Félagið hefur frá stofnun greitt iðnaðargjöld enda hefur starfsemi þess alla tíð verið framleiðsla eins og kunnugt er bæði hérlendis og erlendis.
Talið er þess vegna að þrátt fyrir þann ágalla á greinargerð um aðstöðugjaldsstofn að fjárhæð iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjaldsstofns var ekki tilgreind, hafi í ársreikningi og skattframtali komið fram nægjanlegar upplýsingar til þess að byggja rétta álagningu á.“
Skattstjóri kvað upp úrskurð í máli þessu, þann 11. desember 1987, og hafnaði kröfu kæranda með svofelldum rökum:
„Ljóst er, að á framtali kæranda kom hvorki fram að á starfssemi hans skyldi leggja iðnlánasjóðs- eða iðnaðarmálagjald, né heldur á hvaða stofn gjöld þessi skyldu lögð. Haldbær rök fyrir niðurfellingu álags á gjaldstofn þennan hafa því ekki komið og skulu álögð gjöld standa óbreytt.“
Úrskurði skattstjóra hefur af kæranda hálfu verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru umboðsmanns hans, dags. 15. desember 1987. Þar er svofelld krafa gerð:
„Er þess krafist að álagt iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald verði lækkað um kr. 24.060 eða sem nemur álagi á gjaldstofna, þar sem að í framtalsgögnum hafi komið fram nægjanlegar upplýsingar um starfsemi félagsins sem byggja mátti rétta álagningu á ásamt áritun um iðnað og þar sem upplýsingar um aðstöðugjaldsstofn félagsins fylgdu skattframtali.“
Í kærunni til ríkisskattanefndar eru málsatvik rakin og vísað til fyrri bréfaskipta, en síðan segir:
„Komið hefur fram, að við útfyllingu greinargerðar um aðstöðugjald féll niður að endurtaka fjárhæð aðstöðugjaldsstofns í línu fyrir iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjaldsstofn. Hins vegar ber dálkurinn yfirskriftina „iðnaður“. Jafnframt er bent á fjölmörg atriði í framtalsgögnunum þar sem fram kemur að starfsemi félagsins er iðnaður og starfsemi þess þar af leiðandi gjaldskyld til iðnaðargjalda. Er ekki talin ástæða til þess að fjalla sérstaklega um vinnureglur varðandi útfyllingu greinargerðarinnar og álit skattstjóra í því sambandi sbr. bréf hans. Hins vegar má benda á að í lögum um iðnlánasjóð nr. 68/1967 með síðari breytingum og í lögum um iðnaðarmálagjald nr. 48/1975 eru þær skyldur lagðar á skattstjóra að framkvæma álagningu á þá aðila sem gjaldskyldir eru samkvæmt lögunum. Ekki eru í lögunum skýr fyrirmæli um framtalsskyldur gjaldenda með hliðstæðum hætti og er t.d. að finna í 4. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga.“
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 14. október 1988, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Engin lagaheimild er til hinnar kærðu álagsbeitingar og er hún því felld niður.