Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 685/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 34. gr.  

Viðhaldskostnaður — Endurbætur — Fyrning — Fyrnanleg eign — Bátur — Tvíþætt starfsemi

Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1987 fylgdu tveir ársreikningar, annars vegar vegna byggingastarfsemi og hins vegar vegna rekstrar bátsins X. Samkvæmt rekstrarreikningi árið 1986 vegna bátsins nam tap 1.104.516 kr. Meðal gjaldaliða var tilfærður viðhaldskostnaður að fjárhæð 772.495 kr. Á samræmingarblaði R4.05 leiddi kærandi fram skattstofna vegna rekstrarþátta sinna. Að teknu tilliti til hagnaðar af byggingastarfsemi, umrædds taps vegna X og rekstrartapa frá fyrri árum námu hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtalinu 46.115 kr. Hrein eign færð í reit 01 í skattframtali nam 161.628 kr.

Skattframtal kæranda árið 1987, sem dagsett er 5. júní 1987, barst skattstjóra hinn 18. júní 1987 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Áður en skattstjóri kvað upp kæruúrskurð reit hann kæranda bréf, dags. 1. október 1987, þar sem hann skoraði á kæranda að upplýsa og rökstyðja nokkur atriði framtalsins. Það sem skiptir máli í kærumáli þessu er viðhaldskostnaður X, sem skattstjóri fór fram á, að yrði sundurliðaður og ítarleg grein gerð fyrir því í hverju hann væri fólginn. Jafnframt skyldi rökstutt, að um viðhald væri að ræða en ekki endurbætur. í svarbréfi kæranda, dags. 20. október 1987, var svofelld sundurliðun gefin:

Ný vél, keypt hjá Velti h.f. kr. 479.133
Ísetning vélar kr. 180.257
ýmislegt kr. 113.105
Samtals kr. 772.495

Sú skýring var gefin, að báturinn X hefði verið keyptur til landsins í því skyni að flytja ferðamenn í útsýnisferðir. Til þessara nota hefði þurft gangmikinn bát. Þær upplýsingar og loforð, sem framleiðandi hefði gefið um þetta, hefðu engan veginn staðist. Ekki hefði verið unnt að lögsækja framleiðandann og seljandann, þar sem hann væri nýlega orðinn gjaldþrota. Þær breytingar, sem ráðist hefði verið í, hefðu bæði verið tímafrekar og kostnaðarsamar, en hefðu „í engu breytt þeim eiginleikum bátsins, sem hann átti að prýða, frá fyrstu tíð“, eins og segir í bréfinu.

Með kæruúrskurði, dags. 20. nóvember 1987, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1987 með tilgreindum breytingum þ.á m. varðandi umræddan viðhaldskostnað, sem um er deilt í máli þessu. Um þetta atriði segir svo í kæruúrskurði skattstjóra:

„Gjaldfærður viðhaldskostnaður X kr. 772.495 er felldur niður, þar sem ljóst er af því sem fram kemur í áður nefndu bréfi að um endurbætur er að ræða, en þar er tekið fram að þær breytingar sem gerðar hafi verið hafi í engu breytt þeim eiginleikum bátsins, sem hann átti að prýða frá fyrstu tíð. Viðhaldskostnaður telst einungis sá kostnaður sem felst í því að halda eign í því ástandi sem hún var í þegar hún var keypt. Engu máli skiptir í þessu sambandi hverju framleiðandi hafi lofað. Þessar endurbætur eru því eignfærðar og 10% afskrift kr. 77.250 færð til gjalda. Varðandi gjaldfærslu fyrningar báts og endurbóta á honum skal tekið fram að gengið er út frá því að báturinn verði í framtíðinni notaður til öflunar tekna í atvinnurekstri. Er því gerður fyrirvari um síðari breytingar á þessu atriði komi í ljós að svo verði ekki.“

Að teknu tilliti til annarra breytinga, sem ekki er ágreiningur um, námu hreinar tekjur í reit 62 að þessu gerðu 834.854 kr. og hrein eign í reit 01 613.087 kr.

Með kæru, dags. 18. desember 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Þess er krafist, að breytingu skattstjóra verði hrundið og tilfærður viðhaldskostnaður 772.495 kr. verði leyfður til gjalda. Í kærunni segir svo:

„Ég keypti þennan bát „X“ af norskri skipasmíðastöð fyrir tiltekið verð. Báturinn átti að vera búinn tilteknum kostum, sem samviskusamlega voru tíundaðir í samningum mínum og skipasmíðastöðvarinnar.

Ég stóð við minn hluta samnings okkar, þ.e. greiddi stöðinni þær upphæðir, sem var umsamið, á réttum gjalddögum. Hins vegar stóð skipasmíðastöðin ekki við sinn hluta samkomulagsins. Atti stöðin við fjárhagsvanda að stríða og var tekin til gjaldþrotameðferðar. Mér lukkaðist að ná eignarhaldi á bát mínum. Báturinn var þó þá, ekki í því ástandi sem um var samið og fyrir greitt. Hér taldi ég betri „hálfan“ skaða en allan. Umsamið verð fyrir bátinn á sínum tíma var afar eðlilegt í alla staði. Vera má, að ég hafi gert mig sekan um það í upphafi, að eignfæra bát þennan á því verði, er ég keypti hann. Hann var þá stundina sannarlega ekki kaupverðsins virði.

Hins vegar er auðsætt, að ekki myndi bæta úr skák, að eignfæra að auki þann kostnað, sem ég hef haft af því, að koma bátnum í hið upphaflega fyrirhugaða ástand. Slíkt er vart vænlegt til að gefa rétta mynd af verðgildi þess, sem eignfært er. Þykir mér trúlegt, að sumstaðar væri slíkt talið ósæmilegt, svo vægilega sé til orða tekið.“

Með bréfi, dags. 25. október 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt skýringum kæranda sjálfs stafaði umræddur kostnaður af því að koma bátnum í það horf, sem notkun hans var talin krefjast, þ.e.a.s. auka ganghraða hans með vélarskiptum.

Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á, að heimilt sé að gjaldfæra þennan kostnað, hvorki sem viðhaldskostnað skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, né á öðrum grundvelli. Að svo vöxnu þykir bera að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja