Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kæra ríkisskattstjóra
  • Skattlagning hjóna

Úrskurður nr. 532/1999

Gjaldár 1998

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 1. mgr. 3. tölul.   Lög nr. 30/1992, 3. gr. 2. mgr., 5. gr. 1. mgr. (brl. nr. 96/1998, 1. gr.)  

Litið var á athugasemd ríkisskattstjóra í kröfugerð embættisins vegna kæru kærenda til yfirskattanefndar sem kæru vegna úrskurðar skattstjóra. Þótti rétt að taka kæru ríkisskattstjóra, sem barst innan kærufrests vegna úrskurðar skattstjóra, til efnismeðferðar, enda teldist kæruefni málsins ekki hafa verið markað til hlítar af hálfu kærenda á skattstjórastigi. Var fallist á kröfu ríkisskattstjóra sem varðaði offærðar fyrningar. Kæra kærenda, sem voru hjón, laut að skiptingu hreinna tekna til skattlagningar hjá þeim, annars vegar vegna sameiginlegs rekstrar þeirra og hins vegar vegna hlutdeildar í hagnaði sameignarfélags sem ekki var sjálfstæður skattaðili. Yfirskattanefnd taldi ekki efni til að draga í efa að kærendur hefðu bæði starfað að hinum sameiginlega rekstri, þannig að skipta bæri hreinum tekjum af rekstrinum á milli þeirra í samræmi við vinnuframlag. Þá var byggt á því að þau hefðu bæði staðið fyrir rekstri sameignarfélagsins og var skipting hreinna tekna milli þeirra áætluð með jafnri skiptingu.

I.

Með kæru, dags. 9. desember 1998, hefur umboðsmaður kærenda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 11. nóvember 1998. Efni kærunnar lýtur að því að í skattframtali 1998 var allur hagnaður af sjálfstæðum atvinnurekstri kærenda, sem eru hjón, talinn til tekna hjá öðrum kærenda, þ.e. A, samtals 942.498 kr. Í kærunni fer umboðsmaðurinn fram á að umræddum tekjum verði skipt jafnt á milli kærenda þannig að í hlut hvors komi 471.249 kr. Fram kemur í kærunni að fyrir mistök hafi tekjurnar eingöngu verið taldar til tekna hjá kæranda, A. Máli sínu til stuðnings vísar umboðsmaðurinn til þess að A hafi verið í fullri vinnu hjá öðrum vinnuveitanda og kærandi, B, því sinnt atvinnurekstrinum meira. Þá hafi reiknað endurgjald B numið 250.000 kr. en reiknað endurgjald A 50.000 kr.

II.

Með bréfi, dags. 29. janúar 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt 1. mgr. 3. töluliðar 63. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt skal telja hreinar tekjur af atvinnurekstri til tekna hjá því hjóna sem stendur fyrir rekstrinum og skattleggja þær með öðrum tekjum þess. Samkvæmt 2. mgr. sama töluliðar ber að skipta tekjum af rekstrinum í hlutfalli við vinnuframlag hvors um sig. Samkvæmt skattframtali var vinnuframlag kæranda A metið á 50.000 kr. en vinnuframlag kæranda B á 250.000 kr. Er því ljóst að lagaheimild brestur til að færa tekjur af rekstrinum að jöfnu hjá kærendum svo sem krafist er í kæru.

Samkvæmt skráningu í virðisaukaskattsskrá stendur kærandi A einn fyrir rekstri sínum og á skattframtölum 1992 til 1998 hefir kærandi A tilgreint atvinnurekstrartekjur en kærandi B ekki þótt henni hafi verið reiknuð laun vegna starfa að rekstri öll árin. Telur ríkisskattstjóri samkvæmt því einsýnt að kærandi B standi ekki að neinu leyti fyrir greindum rekstri og að hafna beri öllum kröfum kærenda. Ekki er ágreiningur í málinu um fjárhæð reiknaðs endurgjalds kærenda.

Leiðrétta þarf rekstrarhagnað á framtali um 8.282 kr. til hækkunar því „ramsabox og tökuvél“ hafa samkvæmt fyrningaskýrslu með framtalinu verið fyrndar sem því nemur niður fyrir lögboðið niðurlagsverð.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. febrúar 1999, var kærendum gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn til skýringar og tjá sig um kröfugerð ríkisskattstjóra. Í svari umboðmanns kærenda, dags. 22. febrúar 1999, er þeim hluta kröfugerðar ríkisskattstjóra, er fjallar um upplýsingar úr virðisaukaskattskrá, mótmælt. Bendir umboðsmaður kærenda á að einungis 3% af heildartekjum rekstrar kærenda sé virðisaukaskattskyldur. Megin hluti teknanna sé vegna tónlistarflutnings og plötusölu sem báðir kærendur hafi tekið þátt í og nemi hann um 90% af heildartekjum rekstrarins. Umboðsmaður kærenda tekur fram í bréfi sínu að ekki séu gerðar athugasemdir við hækkun rekstrarhagnaðar vegna mistaka við gerð fyrningarskýrslu. Í niðurlagi bréfsins er krafa um breytingu á tekjufærslu rekstrarhagnaðar kærenda ítrekuð.

III.

Líta verður á athugasemd ríkisskattstjóra í niðurlagi kröfugerðar hans, dags. 29. janúar 1999, sem kæru á úrskurði skattstjóra frá 11. nóvember 1998, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, og er kæran komin fram innan kærufrests samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 96/1998. Þegar til þess er litið að kæruefni máls þessa verður ekki talið hafa verið markað til hlítar af hálfu kærenda á skattstjórastigi með kæru umboðsmanns kærenda til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1998, þykir rétt að taka kæru ríkisskattstjóra til efnisumfjöllunar. Af hálfu kærenda er fallist á hækkun hreinna tekna um 8.282 kr. vegna lækkunar gjaldfærðra fyrninga. Af þessari breytingu leiðir og hækkun hreinnar eignar í reit 01 á skattframtali kærenda um sömu fjárhæð.

Skattframtali kærenda árið 1998 fylgdi annars vegar ársreikningur X sf. er starfrækti hljómplötuútgáfu, en sameignarfélag þetta er ekki sjálfstæður skattaðili, og hins vegar ársreikningur kærenda, undir nöfnum þeirra beggja, vegna tónlistarflutnings o.fl. Hreinar tekjur af hvorutveggja rekstrinum samtals 942.498 kr., þ.e. 72.701 kr. af hinum sameiginlega rekstri og 869.797 kr. vegna hlutdeildar í rekstri X sf., voru færðar í tekjuframtal kæranda, A. Krafa kæranda er að þessum hreinu tekjum verði skipt að jöfnu milli þeirra. Ekki þykja efni til að draga í efa að kærendur starfi bæði að hinum sameignlega rekstri þannig að skipta beri hreinum tekjum af rekstrinum milli þeirra, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 3. tölul. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Eins og fram er komið nam reiknað endurgjald kæranda, A, við hinn sameiginlega rekstur 50.000 kr. en reiknað endurgjald kæranda, B, við þann sama rekstur 250.000 kr. Samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði ber að skipta hreinum tekjum af rekstri, sem hjón starfa sameiginlega við, í hlutfalli við vinnuframlag hvors um sig og telja til tekna hjá hvoru hjóna. Samkvæmt þessu og með tilliti til lækkunar gjaldfærðra fyrninga um 8.282 kr., sbr. kröfu ríkisskattstjóra sem kærendur hafa fallist á, ber að telja til tekna hjá kæranda, A, 13.497 kr. og hjá kæranda, B, 67.486 kr. Hvað varðar rekstur á vegum X sf. þá verður ekki séð samkvæmt framansögðu að kærendur hafi starfað við hann, enda hefur hvorugt þeirra reiknað sér endurgjald við þann rekstur. Í kæru virðist hinu gagnstæða þó haldið fram. Samkvæmt skráðum upplýsingum eru kærendur bæði eigendur að sameignarfélaginu. Þykir því mega byggja á því að þau standi bæði fyrir þeim rekstri í skilningi 3. tölul. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Að því virtu og með vísan til niðurlagsákvæðis 2. mgr. 3. tölul. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 þykir rétt að áætla skiptingu hreinna tekna milli kærenda vegna X sf. og ákvarða jafna skiptingu, þ.e. 434.898 kr. að hlut hvers um sig.

Samkvæmt framansögðu verða hreinar tekjur kæranda, A, af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali árið 1998 448.395 kr. og hreinar tekjur kæranda, B, 502.384 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kærenda er tekin til greina þó þannig að hreinar tekjur kæranda, A, í reit 62 í skattframtali árið 1998 verða 448.395 kr. og hreinar tekjur kæranda, B, í reit 62 í skattframtali árið 1998 verða 502.384 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja