Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 731/1988
Gjaldár 1988
Lög nr. 46/1987 Lög nr. 45/1987 Lög nr. 75/1981 — 98. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.
Kæra síðbúin — Kærufrestur — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Laun — Laun í staðgreiðslu — Húsaleigutekjur
Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1988, sem óbreytt var lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Með kæru, dags. 28. ágúst 1988, er barst skattstjóra degi síðar skv. áritun hans á kæruna um móttöku hennar, mótmælti kærandi álagningunni. Taldi kærandi álagninguna byggjast á þeirri reglu, að skattleggja bæri launatekjur tekjuársins 1987 væru þær til muna hærri en tekjur árið 1986. Gerði kærandi grein fyrir hækkun tekna tekjuársins 1987, er stafaði af því, að kærandi hefði verið við háskólanám erlendis 1986 og ekki komið til starfa hér á landi, fyrr en í október það ár. í ljósi þessa fór kærandi fram á niðurfellingu tekjuskatts og útsvars gjaldárið 1988. Kærandi gat þess, að hann hefði ekki fengið álagningarseðil í hendur, fyrr en á síðustu dögum kærufrests vegna dvalar í X. Var þess farið á leit af kæranda hálfu, að kæran yrði tekin til greina, þótt hún væri framkomin eilítið of seint.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 20. september 1988, og vísaði henni frá sem of seint framkominni. Skírskotaði skattstjóri til þess, að skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing, dags. 29. júlí 1988, hefði birst í 88. tbl. Lögbirtingablaðs, dags. 29. júlí 1988. Kærufrestur hefði skv. þessu runnið út 27. ágúst 1988. Kæran, sem móttekin væri 29. ágúst 1988, væri samkvæmt þessu of seint fram komin.
Með kæru, dags. 17. október 1988, hefur kærandi skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer fram á, að álagður tekjuskattur á tekjur ársins 1987 verði felldur niður. Kærandi ítrekar þau rök og málsástæður, er fram komu í kæru, dags. 28. ágúst 1988, til skattstjóra.
Með bréfi, dags. 29. nóvember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Að virtum framkomnum skýringum kæranda á því, að eigi tókst að kæra í tæka tíð til skattstjóra, verður eigi fallist á þá kröfu ríkisskattstjóra að staðfesta hinn kærða frávísunarúrskurð skattstjóra. Er kæran því tekin til efnislegrar meðferðar. Samkvæmt gögnum málsins var lagt á samkvæmt skattframtali kæranda gjaldárið 1988 óbreyttu í samræmi við gildandi reglur. Kærandi virðist álíta, að í hans tilviki hafi verið beitt ákvæðum 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, varðandi skattlagningu launa tekjuársins 1987 í þargreindum sérstökum tilfellum. Eigi verður séð, að það hafi verið gert. Hins vegar þykir rétt að benda kæranda á, að hann hefur skv. framtali árið 1988 húsaleigutekjur að fjárhæð 64.017 kr., er komu til skattlagningar við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988, en til þeirra tekna tekur eigi staðgreiðsla skv. lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Kærunni þykir bera að vísa frá ríkisskattanefnd sem tilefnislausri.