Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 615/1990
Gjaldár 1986-1988
Lög nr. 75/1981 — 11. gr. — 14. gr. — 16. gr. — 25. gr. — 27. gr. — 106. gr. 2. mgr.
Bújörð — Jarðarsala — Sala bújarðar — Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Íbúðarhúsnæði — Land — Land bújarðar — Ófyrnanleg náttúruauðæfi — Ófyrnanleg náttúruauðæfi á bújörðum — Söluhagnaður af landi bújarðar — Söluhagnaður af ófyrnanlegum náttúruauðæfum bújarða — Hlunnindi bújarða — Ræktun — Söluhagnaður lands og ófyrnanlegra náttúruauðæfa bújarða færður til lækkunar á stofnverði eigna — Dreifing skattskylds söluhagnaðar — Söluhagnaður, dreifing — Dreifingartímabil söluhagnaðar — Kaupsamningur — Söluár — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Söluverð — Söluverð, skipting — Skipting söluverðs — Söluhagnaður, skattfrjáls
Málavextir eru þeir, að kærandi seldi eignarhlut sinn í jörðinni X. Kaupandi var sonur kæranda A. Nokkur aðdragandi varð að sölu þessari, sem lýst er í gögnum málsins. Hefur kærandi gert þá grein fyrir tildrögum sölunnar, að hún hafi tekið ákvörðun um að selja eignina og hætta búrekstri með öllu. Hafi hún keypt íbúð að Y á árinu 1984. Á árinu 1985 hafi orðið að samkomulagi, að tveir synir kæranda, A og B, keyptu 50% hvor af eignarhluta kæranda í X. Ekkert hefði orðið úr þessari sölu, þar sem B hefði hætt búskap og flust af jörðinni í desember 1985. Á árinu 1986 hefði orðið að samkomulagi, að öll börn kæranda keyptu hvert sinn hluta í jörðinni eða 1/6 hvert. Þau kaup hefðu gengið til baka nema salan til A, þar eð hreppurinn hefði ákveðið að nýta sér forkaupsrétt sinn lögum samkvæmt. Hefði þá verið ákveðið að selja A, er væri ábúandi á jörðinni, alla jörðina í stað þess að selja hreppnum. Hefði A þannig keypt eignarhluta kæranda í jörðinni fyrst 1/6 með kaupsamningi, dags. 26. ágúst 1986, og síðan 5/6 með kaupsamningi, dags. 1. febrúar 1987. Við sölu til A hefði verið gengið út frá sama verði og um hefði samist á árinu 1985 og hefði vísitala í skuldabréfum verið miðuð við það verðlag, sem þá hefði verið. Söluverð nam alls 3.600.000 kr., er greitt var að öllu leyti með skuldabréfum til 10 ára vísitölutryggðum miðað við lánskjaravísitölu 1266 stig (okt. 1985) og með hæstu meðalvöxtum.
Kærandi gerði grein fyrir sölunni í eignabreytingadálki í skattframtali sínu árið 1987 og taldi söludag vera 1. október 1986. Enga grein gerði kærandi fyrir útreikningi og uppgjöri söluhagnaðar og færði sér engan slíkan hagnað til tekna.
Að undangengnum bréfaskiptum tók skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1986, 1987 og 1988 til endurákvörðunar þann 25. nóvember 1988 vegna skattlagningar söluhagnaðar af nefndri jarðarsölu. Skattstjóri taldi heildarfjárhæð skattskylds hluta söluhagnaðarins nema 1.299.887 kr., en þar var um að ræða söluhagnað vegna ræktunar 420.787 kr., útihúsa 218.500 kr. og lands og hlunninda 660.600 kr., en söluhagnaður vegna sölu íbúðarhúss var skattfrjáls. Við ákvörðun söluhagnaðarins miðaði skattstjóri við, að salan hefði farið fram á árinu 1985. Af hálfu kæranda hafði með bréfi, dags. 25. janúar 1988, verið farið fram á, að söluhagnaði vegna hlunninda og lands 660.600 kr. yrði varið til lækkunar á stofnverði íbúðar að Y, sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þá hafði í bréfi þessu verið farið fram á að neyta heimildar 27. gr. laga þessara til dreifingar hins skattskylda söluhagnaðar til skattlagningar á 7 árum, enda hefði allt söluverðið verið greitt með skuldaviðurkenningum til 10 ára. Skattstjóri synjaði kröfu kæranda um lækkun stofnverðs íbúðarhúsnæðis að Y um fjárhæð söluhagnaðar lands og hlunninda, enda hefði sú eign verið keypt í mars 1984. Hins vegar féllst skattstjóri á dreifingu söluhagnaðarins til skattlagningar á 7 árum skv. 27. gr. laga nr. 75/1981 eða 185.698 kr. til skattlagningar árlega á framtölum 1986–1992. Þá bætti skattstjóri 25% álagi á vantalda skattstofna gjaldárin 1986–1988.
Af hálfu kæranda voru kröfur hans ítrekaðar í kæru, dags. 23. desember 1988, til skattstjóra. Með kæruúrskurði, dags. 6. janúar 1989, synjaði skattstjóri kærunni að því undanskildu, að hann féllst á að fella niður 25% álag á vantalda skattstofna gjaldárin 1986 og 1987, en ekki gjaldárið 1988.
Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. febrúar 1989, og boðaði kröfugerð síðar. Barst hún í bréfi, dags. 21. apríl 1989, svohljóðandi:
„Mótmælt er þeirri ákvörðun skattstjóra að beita álagi á þann skattskylda söluhagnað, sem hann taldi vantalinn á skattframtali 1988. Úrskurður skattstjóra í þessum máli var ekki kveðinn upp fyrr en 6. janúar sl. Afstaða skattstjóra til kröfugerðar umbjóðanda míns lá ekki fyrr fyrir. Var ekki unnt við gerð skattframtals að sjá fyrir að skattstjóri mundi alfarið hafna kröfugerð umbjóðanda míns. Er því farið fram á fyrir ríkisskattanefnd að álagi verið ekki beitt á hugsanlegan skattskyldan söluhagnað gjaldárið 1988.
Ítrekuð er sú krafa að hagnaður af sölu lands og hlunninda verið færður til lækkunar á framreiknuðu stofnverði íbúðar að Y. Samkvæmt upplýsingum umbjóðanda míns var hún með búrekstur á jörðinni frá árinu 1961 til og með 1983. Hefur hún því stundað búskap á jörðinni a.m.k. síðustu 3 ár af síðastliðnu 8 árum fyrir sölu. Að öðru leyti vísast til þess rökstuðnings sem fram kemur í bréfi mínu til skattstjóra frá 12. (sic) desember sl.“
Með bréfi, dags. 30. maí 1990, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda kröfugerð í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„a) Eftir atvikum er fallist á að hið kærða álag verði fellt niður.
b) Að því virtu sem upplýst er í máli þessu þykir mega líta á sölu bújarðarinnar og kaup íbúðar kæranda sem eina samhangandi atburðarás og er fallist á kröfu kæranda skv. þessum lið kærunnar.“
Líta verður svo á, að eigi sé neinn ágreiningur í máli þessu um ákvörðun og fjárhæð skattskylds söluhagnaðar kæranda á eignarhluta hennar í X, heldur einungis um það, hvort kæranda sé heimil nýting 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, til lækkunar stofnverðs keyptrar íbúðar að Y um fjárhæð þess hluta hins skattskylda söluhagnaðar, sem stafar af landi og hlunnindum bújarðarinnar, þ.e. 660.600 kr., jafnframt því að krafist er niðurfellingar álags gjaldárið 1988. Þegar litið er til allra atvika og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra þykir, mega taka báðar kröfurnar til greina. Lækkar þá fjárhæð söluhagnaðar til skattlagningar í 639.287 kr., er kemur til skattlagningar á 7 árum 91.326 kr. hvert ár. Skattstjóri hefur talið söluna fara fram á árinu 1985 og verður eigi séð, að kærandi andæfi því í kröfugerð sinni fyrir ríkisskattanefnd. Skattstjóri hefur ákveðið skattlagningartímabilið gjaldárin 1986–1992. Það fær eigi staðist og ber að telja tekjuárið 1986 fyrsta ár dreifingartímabils. Samkvæmt því kemur söluhagnaðurinn til skattlagningar gjaldárin 1987–1993 91.326 kr. hvert ár.