Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 733/1988
Gjaldár 1988
Lög nr. 46/1987 — 2. gr. Lög nr. 75/1981 — 95. gr. — 98. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 106. gr. 1. mgr.
Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Áætlun — Kæra síðbúin — Kærufrestur — Vítaleysisástæður — Álagningarlok — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Niðurfellingarhlutfall — Laun — Laun í staðgreiðslu
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæru, dags. 31. ágúst 1988, sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans árið 1988, sem dagsett er sama dag til skattstjóra, og fór þess á leit, að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988, en hin áætlaða álagning felld niður. Umboðsmaðurinn gerði grein fyrir þeim ástæðum, er urðu þess valdandi, að skil skattframtals og kæra drógust úr hömlu. Því hefðu valdið veikindi kæranda og fjarvera vegna þeirra svo sem nánar var gerð grein fyrir. Fór umboðsmaðurinn fram á það við skattstjóra í ljósi þessara aðstæðna, að kæran yrði tekin til efnismeðferðar, þótt hún væri fram komin að liðnum kærufresti.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 20. september 1988. Vísaði hann kærunni frá sem of seint fram kominni. Skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing, er dagsett væri 29. júlí 1988, hefði birst í 88. tbl. Lögbirtingablaðs, dags. 29. júlí 1988. Kærufrestur hefði samkvæmt þessu runnið út 27. ágúst 1988. Kæran, sem dagsett væri 31. ágúst 1988 og móttekin 9. september 1988, væri samkvæmt þessu of seint fram færð.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. október 1988. Umboðsmaðurinn gerir enn grein fyrir síðbúnum framtalsskilum og kæru til skattstjóra. Fer hann fram á, að kæran fái efnismeðferð og innsent skattframtal árið 1988 verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988, en sú álagning ætti að vera 0 kr.
Með bréfi, dags. 29. nóvember 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda: „Ekki hafa borist nein gögn til stuðnings skýringum umboðsmanns kæranda og er því krafist staðfestingar á frávísunarúrskurði skattstjóra.“
Að virtum skýringum kæranda er fallist á kröfu hans og innsent skattframtal árið 1988 lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Rétt þykir að taka fram í ljósi málsgagna og laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, að eigi var rétt af skattstjóra að gera kæranda að greiða hin kærðu gjöld.