Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 773/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 73/1980 — 37. gr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Umboðssala — Ferðaskrifstofa — Rekstrarkostnaður

Málavextir eru þeir, að í greinargerð um aðstöðugjaldsstofn, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1987 voru 4.846.825 kr. dregnar frá við ákvörðun stofnsins sem skil vegna umboðssölu. Kærandi er ferðaskrifstofa. Skattframtal kæranda árið 1987 barst skattstjóra í kærufresti til hans. Með kæruúrskurði, dags. 30. nóvember 1987, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1987 í stað áætlunar. Skattstjóri gerði þá breytingu, að hann hækkaði aðstöðugjaldsstofn kæranda úr 643.591 kr. skv. greinargerð um aðstöðugjaldsstofn í 5.490.416 kr. með vísan til 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, enda væri ekki á það fallist, að starfsemi kæranda félli undir umboðssölu. Benti skattstjóri í þessu sambandi á efnahagsreikning kæranda í heild sinni og afskrift tapaðra skulda.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. desember 1987. í kærunni segir svo:

„Framtal til aðstöðugjalds var byggt á því, að um umboðssölu hafi verið að ræða. Skattstjóri fellst ekki á það í úrskurði sínum og bendir á efnahagsreikning í heild sinni og afskrift tapaðra skulda því til stuðnings.

Tekjur ferðaskrifstofunnar byggjast á umboðslaunum frá þeim aðilum sem seld er þjónusta fyrir. Þeir eru helstir, A hf. og B hf. Umboðslaunin eru 9 til 10% eftir atvikum. í þessu sambandi skal tekið fram, að í ljós hefur komið að einir þrír sölureikningar hafa verið tekjufærðir 1986 í stað 1987, (ferð ekki farin fyrr en í janúar 1987). Afskrifaðir reikningar eru lágar upphæðir sem urðu til vegna mistaka í sölu er ferðaskrifstofan taldi sig eiga sök á. Um lánastarfsemi er yfirleitt ekki að ræða hjá ferðaskrifstofunni, enda ekki til þess fjármagn, þar sem gert er upp við ferðaaðila jöfnum höndum.

Því er farið fram á með tilliti til ofangreindra atriða og gagna málsins að úrskurði skattstjórans í Reykjavík um aðstöðugjald vegna álagðra gjalda 1987 verð breytt, og innsent aðstöðugjaldsframtal félagsins lagt til grundvallar álagningu.“

Með bréfi, dags. 23. nóvember 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Ekki verður af framsetningu ársreiknings kæranda eða öðrum gögnum ráðið að um umboðslaunatekjur sé að ræða og er því krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Eigi verður annað ráðið af málsgögnum en að umrædd fjárhæð hafi verið rekstrarkostnaður kæranda sjálfs og þykja skýringar hans eigi hafa leitt annað í ljós. Að svo vöxnu þykir rétt að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja