Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 781/1988
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 25. gr. — 32. gr. 2. tl. — 35. gr.
Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrnanleg fasteign — Ræktun — Fyrningargrunnur — Stofnverð — Kaupsamningur — Kaupverð, skipting — Skipting kaupverðs — Sönnun — Fasteignamatsverð
Málavextir eru þeir, að skattstjóri óskaði eftir því með bréfi, dags. 26. maí 1987, að kærandi léti í té upplýsingar og gögn til staðfestingar á liðnum ræktun frá árinu 1985 að fjárhæð 209.500 kr., er færð var á fyrningarskýrslu og uppreiknuð með 269.061 kr. og síðan fyrnd með 6% fyrningu að upphæð 16.144 kr. í svarbréfi kæranda, dags. 10. júní 1987, er m.a. frá því greint, að hluti af þessari ræktun hafi verið keyptur með jörðinni á sínum tíma, en ræktunarkostnaður hafi að öðru leyti verið óverulegur. Svarbréfinu fylgdi ljósrit af afsali fyrir helmingi umræddrar jarðar.
Með bréfi, dags. 7. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, með vísan til 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, að hann hefði gert m.a. þá breytingu á skattframtali hans árið 1987, að fella niður af fyrningarskýrslu fyrningu ræktunar. Á ljósriti afsals hálfrar jarðarinnar X kæmi ekkert fram um kaupverð á ræktun. Þá væri á framtali kæranda árið 1981 ekki gerð nein sérstök grein fyrir þessu kaupverði.
Þessi breyting á skattframtali kæranda árið 1987 var kærð til skattstjóra með bréfi, dags. 27. jiilf 1987. í kærunni sagðist kærandi hafa sent ljósrit af kaupsamningi jarðarinnar, en þar hafi verð ekki verið sundurliðað. Verð ræktunar hafi verið innifalið í kaupverðinu, en því til viðbótar hafi hann ræktað, síðan jörðin var keypt, og því telji hann sér hafa verið heimilt að fyrna ræktunina.
Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu þann 4. nóvember 1987 og synjaði kröfu kæranda. í úrskurðinum segir skattstjóri m.a.:
„Ekkert kemur fram í kæru yðar umfram þær skýringar sem áður hafa borist.
Vitnað er í sendan kaupsamning en með svari yðar barst ljósrit af afsali þar sem ekkert verð kom fram og skv. kæru yðar virðist kaupverð jarðarinnar vera ósundurliðað á kaupsamningi.
Fram hefur komið í svarbréfum yðar viðurkenning á því að hafa þegið ríkisframlög vegna ræktunar og útlagður kostnaður vegna viðbótarræktunar sem ekki er getið um á viðkomandi framtölum hafi verið óverulegur.
Ríkisframlög þessi eru ekki tekjufærð viðkomandi ár en þau ber að færa til frádráttar kaup og/eða kostnaðarverði og kostnað sem eftir stendur ef um hann er að ræða ber að færa á fyrningarskýrslu.
Þar sem ekki verður séð skv. framkomnum gögnum að um umframkostnað sé að ræða, vegna þessa stendur fyrningarskýrsla yðar óbreytt.“
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi umboðsmanns hans, dags. 4. desember 1987, og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar.
Með bréfi, dags. 14. apríl 1988, gerði ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu fyrir gjaldkrefjenda hönd, að kærunni yrði vísað frá ríkisskattanefnd vegna vanreifunar.
Þann 25. apríl 1988 barst ríkisskattanefnd bréf, dags. 22. þess mánaðar, frá umboðsmanni kæranda. Þar segir m.a.:
„Í framhaldi af kæru dags. 4. desember 1987 vegna A, upplýsist að kaupverð jarðarinnar var ekki sértilgreint, þ.e. land, hlunnindi og ræktun, en sbr. ákvæði 25. gr. skattalaga ber að skipta stofnverði í samræmi við fasteignamat á söludegi í slíkum tilvikum.“
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 25. ágúst 1988, gert nýja svohljóðandi kröfugerð í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:
„Í framhaldi af kröfugerð ríkisskattstjóra dags. 14. apríl 1988, sem varðar ofangreindan kæranda, hefur umboðsmaður hans sent ríkisskattanefnd frekari greinargerð kæru sinni til stuðnings. Nefndin hefur sent ríkisskattstjóra málið til endurumsagnar í ljósi þess.
Af þessu tilefni gerir ríkisskattstjóri þá kröfu f.h. gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Í ljósi málsgagna verður eigi talið, að skattstjóri eða ríkisskattstjóri hafi sýnt fram á, að staðhæfing kæranda um ræktun eigi ekki við rök að styðjast. Að því virtu er krafa kæranda tekin til greina, enda þykja eigi efni svo sem á stendur að vefengja fjárhæð umræddrar ræktunar.