Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 783/1988

Gjaldár 1988

Reglugerð nr. 76/1988   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II.   Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 7. tl. — 69. gr. C-liður — 98. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Rekstrartap — Yfirfæranlegt rekstrartap — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Álagningarlok — Vítaleysisástæður — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Húsnæðisbætur — íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Kæranleiki — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki ákvörðunar skattstjóra

Málavextir eru þeir, að skattstjóri byggði skattlagningu gjaldárið 1988 á skattframtali kæranda árið 1988, dags. 8. maí 1988, með þeirri breytingu þó, að hann leyfði ekki frádrátt rekstrartaps fyrri ára frá hreinum tekjum af sjálfstæðri starfsemi kæranda 575.585 kr. Rekstrartap þetta nam alls framreiknað 1.439.615 kr. Með kæru, dags. 31. ágúst 1988, var þessi breyting kærð af hálfu umboðsmanns kæranda. í þessu sambandi var þess getið, að kærandi hefði ekki talið fram fyrir árin 1985 og 1986. Skattframtölum þessum hefði verið skilað 10. maí 1988 til skattstjóra Vesturlandsumdæmis. Skv. framtölunum væri um yfirfæranlegt tap að ræða. Þá krafðist umboðsmaður kæranda þess að honum yrðu ákvarðaðar húsnæðisbætur og gat þess í því sambandi, að skv. fyrrnefndum framtölum nyti kærandi mjög takmarkaðs vaxtafrádráttar.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 21. september 1988, og vísaði henni frá sem of seint fram kominni. Skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing, dags. 29. júlí 1988, hefði birst í 88. tbl. Lögbirtingablaðs, dags. 29. júlí 1988. Kærufrestur hefði samkvæmt þessu runnið út 27. ágúst 1988. Kæran, sem dagsett væri 31. ágúst 1988 og móttekin 1. september 1988, væri samkvæmt þessu of seint fram komin.

Með kæru, dags. 20. október 1988, hefur umboðsmaður kæranda skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Þess er krafist, að frávísun skattstjóra verði hnekkt og kæruefni tekin til efnismeðferðar. í kærunni segir svo:

„Það er rétt sem fram kemur í bréfi Skattstjórans í Reykjavík að samkvæmt auglýsingum í Lögbirtingablaði þann 29. júlí 1988 var tilkynnt að kærufrestur mundi renna út 27. ágúst.

Það sem skeði hins vegar í framhaldi af því var, að nokkrir starfsmenn ríkisskattstjóra og skattstofa létu hafa ýmislegt eftir sér í fjölmiðlum. Eitt af því var að kærufrestur væri „út ágústmánuð". Ég var búinn að senda viðskiptavinum mínum bréf og biðja þá að senda inn upplýsingar til að hægt væri að kæra álagningu, ef þörf krefði. Hins vegar skeði það í framhaldi af þessum yfirlýsingum í fjölmiðla, að fæstir höfðu samband fyrr en alveg í lok ágúst. Þannig komu fjórir að kvöldi 31. ágúst og báru fyrir sig yfirlýsingar skattstofumanna!

Ég hlýt að gera ráð fyrir að þeir aðilar sem koma fram fyrir hönd embætta skattstjóra, hafi til þess umboð og að yfirlýsingar sem þeir gefa séu með samþykki viðkomandi embættis. Raunar þótti mér ekkert athugavert við það í þessu tilviki að gefinn væri lengri frestur (breytingar yfir í staðgreiðslu).

Ég geri því þá kröfu að áður innsend kæra til Skattstofu Reykjavíkur verði tekin til efnislegrar meðferðar. Náist þessi krafa ekki fram hlýt ég að fara í skaðabótamál við embætti skattstjóra í Reykjavík til að bæta viðskiptavini mínum það tjón sem hann hefur orðíð fyrir vegna yfirlýsinga „opinberra skattasérfræðinga“.

Ég get ef óskað er sent inn ljósrit af blaðagreinum, sem bera með sér þær upplýsingar að kærufrestur sé „út ágúst“. Bréf skattstjóra í Reykjavík barst mér í hendur í gær (29. okt.) og hef ég því ekki haft tíma til að afla efnislegra gagna. Mig rekur (sic) hins vegar grun í, að fleiri en ég hafi tekið eftir þessum yfirlýsingum en ég. Þegar mér hefur gefist tóm til að afla þessara gagna, mun ég senda Ríkisskattanefnd þau um hæl.“

Með bréfi, dags. 9. desember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir öllum atvikum er frávísunarúrskurði skattstjóra hrundið og kæran tekin til efnismeðferðar fyrir ríkisskattanefnd. Eigi verður séð af málsgögnum, að kæranda hafi verið gerð grein fyrir þeirri breytingu varðandi yfirfæranlegt rekstrartap fyrri ára og frádrátt þess, sem í málinu greinir. Að því athuguðu og með vísan til Úrskurðar skattstjóra Vesturlandsumdæmis, dags. 4. október 1988, varðandi álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárin 1985—1987 er krafa kæranda varðandi þetta kæruatriði tekin til greina. Kærandi krafðist húsnæðisbóta í kærunni til skattstjóra, dags. 31. ágúst 1988. Í málinu liggur fyrir afrit efnisúrlausnar skattstjóra um þetta atriði, dags. 31. október 1988, þar sem þessari kröfu kæranda er hafnað. Rök skattstjóra eru þau, að á skattframtali árið 1988 sé ekkert íbúðarhúsnæði talið til eignar og engin gögn lögð fram af hálfu kæranda, er staðfestu, að íbúðarkaup hefðu átt sér stað. Kæruefni þetta þykir bera að taka til efnisúrlausnar í úrskurði þessum eins og það liggur fyrir. Með vísan til 69. gr. C laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, og reglugerðar nr. 76/1988, um húsnæðisbætur með síðari breytingum, þykir bera að staðfesta synjun skattstjóra á þessu kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja