Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 794/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. — 11. gr. —18. gr. — 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 68/1971 — 7. gr. 1. mgr. E-liður 1. mgr.  

Sameignarfélag — Söluhagnaður eignarhluta í sameignarfélagi — Sjálfstæður skattaðili — Lögskýring — Söluhagnaður lausafjár — Frávísun vegna vanreifunar — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Síðbúin framtalsskil — Lagaheimild

Kæra umboðsmanns kæranda dags. 12. maí 1987, er svohljóðandi:

„Í fyrsta lagi er því mótmælt að reikna umbjóðendum mínum tekjur af bifreið þeirri, sem til stóð, að A. fengi sem greiðslu er samrekstri lauk í X s.f.

Eins og fram kemur í uppgjöri X s.f. 1985 gekk bifreið þessi aftur til upphaflegs seljanda, þar sem ekki var staðið í skilum við hann. Í samræmi við þetta var bifreiðin færð til eignar hjá X s.f. í árslok 1985, enda skuldaði félagið allt andvirði hennar sbr. tilfærða skuld í efnahagsreikningi félagsins. Af þessu sést að eðli máls er, að umbjóðandi minn fékk aðeins greiddar kr. 220.000 upp í sinn hlut með peningum og víxlum, og þeir reyndust sumir vafasamir að hans sögn. Sá hluti eignarhluta A. sem greiðast átti með bílnum voru því aðeins orðin tóm, og er í því sambandi vitnað í skýringu nr. eitt, með ársr. X 1985. Krafa mín varðandi þetta atriði er því sú, að teknahækkun skattstjórans í hinum kærða úrskurði verði lækkuð um kr. 220.000 eða álitið matsverð bílsins.

Varðandi umfjöllun skattstjóra um úttekt umbjóðanda míns úr X s.f. 1985 sé ég ekki ástæðu til að eyða mörgum orðum. Í fyrsta lagi er reiknað andvirði bílsins ekki hluti af úttektinni af augljósum ástæðum sem skýra sig í ársreikningi félagsins.

Einnig skal á það bent að ekki verður fallist á það sjónarmið skattstjóra, sem lesa mætti út úr forsendum úrskurðarins, að sjálfgefið sé að skattleggja mismun einkaúttektar eitt ár og reiknaðra launa sama ár. Um þetta atriði ætti ekki að þurfa að fjölyrða en ég bendi á uppgjör X 1984 og 1985, skýringar með þeim.

Hitt atriðið sem kært er í úrskurði skattstjóra er beiting 15% viðurlaga.

Í uppgjöri X s.f. 1985 kemur fram að B., sem var hinn eigandi félagsins, hafði verið sjúklingur. B. þessi sá einnig að mestu um pappírsmál samrekstrarins. Af þessu leiddi, að ekki reyndist unnt að ljúka uppgjöri félagsins fyrr en eftir miðjan júlí. Fyrir þetta leið umbjóðandi minn þótt hann gæti lítið sem ekkert við því gert. Því fer ég eindregið þess á leit við háttvirta ríkisskattanefnd, að umrædd viðurlög verði felld niður.

Krafa mín í kæru þessari er því sú að hagnaður af sölu umbjóðanda míns í X s.f. verði lækkaður um kr. 220.000 og 15% viðurlög verði felld niður, og skattstofnar lækkaðir til samræmis við það. Einnig krefst ég þess að álagður launaskattur og launatengd gjöld, sem lögð voru á umbjóðanda minn v/greiddra launa verði lækkuð um helming. Ástæður þess eru, að skattstjóri segir stofn hans til launaskatts og launatengdra gjalda af greiddum launum vera kr. 655.505, sem eru allar launagreiðslur X s.f. Af þessum stofni ber umbjóðanda mínum að greiða 50% álagðra gjalda en B. sameiganda hans ber að greiða hinn helminginn.“

Með bréfi, dags. 8. febrúar 1988, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Áminnst sameignarfélag var eigi sjálfstæður skattaðili og eiga þá ákvæði 18. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt ekki við hvorki samkvæmt orðum sínum, tilgangi né forsögu, sbr. í þeim efnum 1. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, svo og greinargerð í frumvarpi fyrir nefndri 18. gr. Verður því að telja að um hafi verið að ræða sölu á hlutdeild kæranda í eignum félagsins. Ber í þessu tilviki að fara með þá sölu, að því er varðar ákvörðun og meðferð söluhagnaðar, eftir ákvæðum laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt um hagnað af sölu lausafjár. Kærandi hagaði ekki framtali sínu í samræmi við þetta og hefir ekki úr því bætt í kæru til ríkisskattanefndar. Þykir því kæra hans verða að sæta frávísun að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja