Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 52/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 3. gr. — 64. gr. 2. mgr.  

Hjón — Sköttun hjóna — Ótakmörkuð skattskylda — Takmörkuð skattskylda — Framfærslufé — Framfærslufé frá maka — Lífeyrir — Heimilisfesti — Áætlun framfærslufjár — Málsmeðferð áfátt — Úrskurður ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að í athugasemdadálki skattframtals síns árið 1987 gat kærandi þess, að eiginmaður hennar, A, væri búsettur erlendis og greiddi skatta af tekjum sínum þar. Framtal þeirra hjóna yrði sent síðar, þegar eiginmaðurinn kæmi að utan. Það skattframtal barst skattstjóra þann 14. apríl 1987.

Skv. gögnum málsins hefur skattstjóri áætlað kæranda 500.000 kr. sem skattskylt framfærslufé frá eiginmanni á grundvelli 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. í kæru til skattstjóra, dags. 11. ágúst 1987, var af hálfu kæranda farið fram á niðurfellingu þessa tekjuliðs, þar sem í raun væri verið að tvískatta eiginmann kæranda. Til vara var farið fram á, að fjárhæð framfærslufjárins yrði lækkuð í 213.080 kr. sem jafngilti lífeyri ásamt tekjutryggingu fyrir einstakling frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir árið 1986. Þess var getið, að kærandi hefði fyrir um það bil tveimur árum flust til landsins vegna veikinda, en eiginmaður hefði af atvinnuástæðum ekki getað flust heim ennþá. Hann greiddi skatta af tekjum sínum ytra.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar í kæruúrskurði, dags. 24. maí 1988, og ákvað, að áætlun hans á framfærslufé skv. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 skyldi óbreytt standa. Segir svo í úrskurðinum:

„Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands, þjóðskrá, var kærandi heimilisfastur á Íslandi allt árið 1986. Voru allar tekjur hans því framtals- og skattskyldar á íslandi hvar sem þeirra var aflað þ.m.t. framfærslufé frá eiginmanni sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum, en þar segir orðrétt.

„Sé svo ástatt hjá hjónum að annar hvor makanna er skattskyldur hér á landi skv. 1. gr. en hinn makinn ber ekki ótakmarkaða skattskyldu hér á landi vegna ákvæða samninga Íslands við önnur ríki eða af öðrum ástæðum, þá skal sá maki sem skattskyldur er hér á landi skattlagður sem einstaklingur. Til tekna hjá honum skal telja allar sérafla- og séreignatekjur hans í samræmi við ákvæði um ótakmarkaða skattskyldu hér á landi að viðbættu sannanlegu framfærslufé frá hinum makanum. Sé eigi unnt að færa sönnur á slíkt framfærslufé skal skattyfirvöldum heimilt að áætla sanngjarnt og hæfilegt framfærslufé með hliðsjón af öllum aðstæðum hjónanna.“

Við álagningu 1987 áætlaði skattstjóri kæranda framfærslufé kr. 500.000, skv. nefndri 2. mgr. 64. gr. Á framtali kæranda 1987 koma ekki fram aðrar tekjur en tekjur af fasteign kr. 424. Ljóst má því vera að kærandi hefur fengið framfærslufé frá eiginmanni sínum. Kærandi hefur ekki í kæru fært sönnur á slíkt framfærslufé, en í varakröfu er farið fram á lækkun framfærslufjár í kr. 213.080, sem jafngildi lífeyri ásamt tekjutryggingu fyrir einstakling frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir árið 1986. Með vísan til lokamálsliðar nefndrar 2. mgr. 64. gr. stendur áætlun skattstjóra á framfærslufé óbreytt.“

Með kæru, dags. 30. maí 1988, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Þykir bera að skilja kæruna svo, að ítrekaðar séu þær kröfur, sem settar voru fram í kærunni til skattstjóra, dags. 11. ágúst 1987.

Með bréfi, dags. 9. desember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtri málsmeðferð skattstjóra og málsatvikum að öðru leyti þ.á m. úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. maí 1987, varðandi álagningu á kæranda gjaldárið 1986, þykir bera að fella hina umdeildu tekjuviðbót niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja