Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 67/1989
Gjaldár 1988
Reglugerð nr. 76/1988 Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I og II Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 95. gr. 2. mgr. — 98. gr. — 99. gr. 1. mgr. l.ml. — 100. gr. 8. mgr.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun skattstofna — Kæra síðbúin — Kærufrestur — Álagningarlok — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Húsnæðisbætur — Framsending — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Vaxtaafsláttur — Kæranleiki — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki ákvörðunar skattstjóra — Valdsvið ríkisskattanefndar
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár var kærendum ekki gert að greiða nein opinber gjöld.
Með kæru, dags. 27. ágúst 1988, sendi umboðsmaður kærenda skattstjóra skattframtal þeirra árið 1988, sem dagsett er þann 26. s.m. Bárust gögn þessi skattstjóra þann 29. ágúst 1988 samkvæmt móttökuáritun hans. Í kærunni fór umboðsmaðurinn fram á, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1988. Þá var farið fram á, að umsóknir kærenda um húsnæðisbætur yrðu teknar til úrlausnar, en álitið væri, að kærendur ættu rétt á þeim. Umsóknir þessar eru dagsettar 26. mars 1988.
Með kæruúrskurði, dags. 24. október vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 1. mgr. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing um lok álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1988 hefði birst í Lögbirtingablaði föstudaginn 29. júlí 1988. Síðasti dagur kærufrests hefði því verið laugardagurinn 27. ágúst 1988. A miðnætti þess dags hefði póstkassi skattstofu verið tæmdur. Kærubréfið, sem dags. væri 27. ágúst 1988, hefði verið í póstkassanum mánudaginn 29. ágúst 1988. Kæran væri samkvæmt þessu of seint fram komin og því bæri að vísa henni frá. Kröfu kærenda um húsnæðisbætur tók skattstjóri sérstaklega til úrlausnar með úrskurði, dags. 9. desember 1988, og hafnaði henni með svohljóðandi rökum:
„Réttur til húsnæðisbóta sem þér sækið um er samkvæmt bráðabirgða ákvæði II laga nr. 92/1987 um breyting á lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum, sbr. og C-lið 69. gr. síðarnefndra laga og reglugerð nr. 76/1988 um húsnæðisbætur, sbr. reglugerð nr. 118/1988 um breyting á henni.
Samkvæmt framangreindum ákvæðum er það skilyrði fyrir þessum bótum að um sé að ræða kaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota í fyrsta sinn á árunum 1984—1987.
Samkvæmt umsókn yðar um húsnæðisbætur uppfyllið þér eigi greind skilyrði þar sem ekki er um að ræða kaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota í fyrsta sinn á árunum 1984—1987 en þér áttuð íbúðarhúsnæði áður frá 18.11. 1974 til 20.08. 1981 og er henni því synjað.“
Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. nóvember 1988. Krefst umboðsmaðurinn þess, að innsent skattframtal kærenda árið 1988 verði tekið til efnislegrar meðferðar og jafnframt úrskurðað um rétt kærenda til húsnæðisbóta. Í kærunni segir svo:
„Kærufrestur rann út á miðnætti 27. ágúst 1988 og virðist sem skattstjóri í Hafnarfirði hafi látið standa vakt við póstkassa skattstofunnar, laugardagskvöldið 27. ágúst. Kæra ofangreindra aðila mun hafa komið í umræddan póstkassa skattstofu Reykjanesumdæmis, sunnudaginn 28. ágúst og því legið á borðum starfsmanns skattstofunnar á mánudagsmorgni þann 29. ágúst 1988.
En skattstjóri Reykjanesumdæmis vísar þessari kæru frá. Virðast þessi vinnubrögð opinberra embættismanna vera óeðlileg, stirðbusaleg og ekki til að auðvelda samskipti skattstjóra og endurskoðenda og annarra, sem vinna við gerð skattframtala og skattauppgjöra.
Hjónin A og B skiluðu ekki framtali sínu í framtalsfresti, en engu að síður voru þeim ekki reiknuð opinber gjöld af áætluðum tekjum. Með ofangreindri skattkæru var því eiginlega verið að leiðrétta mistök skattstjórans í Reykjanesumdæmi. Engu að síður er kærunni vísað frá.
Er hér með vísað til margnefndrar skattkæru ofangreindra aðila og beðið um að hún verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá Ríkisskattanefnd. Fylgir viðfest ljósritið af skattkærunni ásamt skattframtali 1988.
Er vonast til að vel verði tekið í beiðni þessa og jafnframt úrskurðað um rétt þeirra hjóna til húsnæðisbóta.“
Með bréfi, dags. 22. desember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Eftir atvikum þykir rétt að hnekkja frávísunarúrskurði skattstjóra og vísa kærunni og innsendu skattframtali kærenda árið 1988 til hans til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, sbr. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá þykir bera í úrskurði þessum að taka til meðferðar kröfu kærenda um húsnæðisbætur, sbr. úrskurð skattstjóra þar um, dags. 9. desember 1988. Þann úrskurð þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans. Rétt er að taka fram, að gengið er út frá því, að skattstjóri ákvarði kærendum hugsanlegan vaxtaafslátt við meðferð sína á hinu innsenda skattframtali, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 49/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og því ákvæði hefur verið breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987.