Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 78/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun skattstofna — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Móttökudagur skattframtals — Sönnun

Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1987. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu skattstofna samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kærenda árið 1987, sem undirritað er af kærendum þann 8. apríl 1987, tók skattstjóri sem kæru samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í málinu þann 18. janúar 1988. Féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kærenda til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1987 að gerðum nokkrum breytingum á því, sem ekki hafa verið kærðar til ríkisskattanefndar, en að viðbættu 25% álagi vegna síðbúinna framtalsskila skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. nefndra laga.

Með kæru, dags. 20. janúar 1988, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer fram á, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna kærenda vegna síðbúinna framtalsskila, verði fellt niður. í kærunni segir m.a.:

„Ástæðan fyrir ofangreindu er sú að umbjóðendur mínir undirrituðu skýrslur þann 7.04. 1987 og gerðu ráð fyrir að þær yrðu sendar skattstjóra á réttum tíma.“

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 13. janúar 1989, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að skattframtal kærenda hafi borist eftir að álagningu lauk. Því er gerð krafa um að álagsbeiting skattstjóra verði staðfest.“

Skattframtal kærenda árið 1987 ber ekki með sér hvenær skattstjóri hefur móttekið það né heldur verður það ráðið af öðrum gögnum málsins hvenær því var skilað. Hins vegar hefur af hálfu skattstjóra verið ritað á framtalið „Án álags“. Að svo vöxnu þykir rétt að fella hið kærða álag niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja